miðvikudagur, janúar 26, 2011

Það er ekki annað hægt en að fyllast depurð þegar fylgst er með umræðunum sem fara fram á misopinberum vettvangi eftir að stjórnlagaþingskosningin var dæmd ógild. Lágkúran er svo yfirþyrmandi. Það var eins og við var að búast að strax var farið að naga bakfiskinn á þremenningunum sem þorðu að láta á það reyna hvort þeir agnúar sem þeir sáu á framkvæmd kosninganna væru á rökum reistir. Það þarf dálítið hugrekki að kæra framkvæmd svona kosninga til hæstaréttar og ekki síður að flytja mál sitt sjálfur. Í stað þess að fjalla um aðalatriði málsins þá er farið að níða skóinn niður af þessum einstaklingum, spyrja hvaða hvatir lágu að baki o.s.frv. Allt eftir bókinni. Í öðru lagi er farið að láta að því liggja að Hæstiréttur sé handbendi einhverra afla úti í þjóðfélaginu. Skautað er fram hjá því að Hæstiréttur felldi samhljóða úrskurð og enginn lögspekingur hefur gagnrýnt efnislega niðurstöðu hans. Ég heyrði viðtal við konu í útvarpinu í kvöld sem hafði verið í kosningaeftirliti í Albaníu á vegum ÖSE. Hún hélt því fram að framkvæmd stjórnlagaþingskosninganna hefði verið talin stórlega ámælisverð í því ágæta landi sem hefur ekki langa sögu sem lýðræðisríki. Rekjanlegir kjörseðlar, kjörseðlar ekki brotnir saman svo sást í sjónvarpinu hvað einhver kjósandi kaus, talning atkvæða bak við lokaðar dyr án utanaðkomandi eftirlits og auðvelt var að kíkja yfir bakið á næsta manni á kjörstað. Hvað vilja menn hafa það betra?
Í Helgafellssveit forðum daga var kosning dæmd ólögmæt vegna þess að prentsmiðjan hafði haft svo þunnan pappír í kjörseðlunum að ekki var hægt að útiloka að það sæist hvað einhver hefði kosið. Enginn grunur um svindl. Í Reykhólasveit var kosning dæmd ólögmæt vegna þess að ekki hafði verið tilkynnt um kjördag með nægjanlega formlegum hætti úti í Flatey. Enginn grunur um svindl. Formið var hins vegar ekki í lagi. Það er grundvöllur kosninga í lýðræðissamfélagi. Ef farið er að fara á svig við lög og reglur um framkvæmd kosninga þá lenda menn fyrr en varir úti í skurð. Það er ekki spurning um hvort heldur hvenær.
Hér er því haldið fram að enda þótt framkvæmd kosninganna hafi verið með hnökrum en þar sem ekkert brot hafi verið framið þá sé þetta ekki svo alvarlegt. Þetta étur hver eftir öðrum. Ef ég mælist fyrir of hraðan akstur í hraðamyndavél þá þýðir ekkert fyrir mig að segja að það hafi enginn annar bíll verið á veginum og því hafi ég ekki brotið á neinum. Þegar reglur eru brotnar eiga viðurlög að gilda.
Því er haldið fram að hnökrarnir hafi ekki haft nein áhrif á úrslit kosninganna? Hver getur sagt til um það? Þurfti ekki að taka ákvörðun um 13-15% kjörseðla því það var þannig skrifað á þá að vélarnar gátu ekki greint þá. Það var gert af ákveðnum einstaklingum án utanaðkomandi eftirlits. Við talningu í almennum kosningum eru allir seðlar sem skera sig á einhvern hátt frá lagðir til hliðar. Síðan er farið sérstaklega yfir hvern og einn undir eftirliti fulltrúa flokkanna og skorið úr um hvað stendur á þeim. Ef ekki næst samkomulag um niðurstöðuna er hægt að áfrýja úrskurðinum. Þar er ekkert gert án utanaðkomandi eftirlits.
Það er náttúrulega út í hött að halda eitthvað sérstaklega upp á 25 menningana sem valdir voru í hinum ógildu stjórnlagaþingskosningum Þeir eiga engan rétt umfram aðra í þjóðfélaginu til að möndla um stjórnarskrána. Að setja sérstök lög um að skipa þá til stjórnlagaþings væri hrein móðgun við allt og alla.
Því hefur verið haldið fram að þjóðin kalli á stjórnlagaþing. Það væri gaman að fá skilgreint í því sambandi hvað er þjóð. Er þjóðin einhver hópur manna sem hrópaði út á Austurvelli að þeir vildu nýja stjórnarskrá? Er þjóðin Njörður P. Njarðvík í Silfri Egils? Er þjóðin svona 50-100 bloggarar? Er þjóðin þau eitt þúsund einstaklinga sem sátu dagstund á 100 tíu manna fundum í Laugardagshöll? Er þjóðin þau 32% landsmanna sem kaus til stjórnlagaþings? Eða er þjóðin þau 67% landsmanna sem hafði ekki áhuga á kosningum til stjórnlagaþings og sat því heima? Það mætti alla vega prufa að telja hver hópurinn er fjölmennastur og gæti helst staðið undir því að vera kallaður "þjóðin".
Hver er ábyrgur? Nú veit ég ekki neitt um ráðherra ábyrgð en ég hef lesið það í erlendum fjölmiðlum að ef t.d. hópur hættulegra fanga sleppur út úr fangelsi þá getur það dregið þann dilk á eftir sér að dómsmálaráðherra segi af sér. Ekki er þó starf hans að standa í dyrum fangelsisins og passa að fangarnir haldi sig innandyra. Ef mikil kaos skapast í samgöngumálum vegna þess að samgöngukerfið funkerar ekki þá er viðkomandi samgönguráðherra gjarna látinn axla ábyrgð og hirða pokann sinn. Hér er það kallað að stjórnvöld axli ábyrgð ef leikurinn er endurtekinn og vonast til að allt gangi upp í þetta sinn. Reikningurinn fyrir það er upp á ca 200 milljónir. Hvað ef úrslitin verða aftur dæmd ógild?

Engin ummæli: