laugardagur, janúar 01, 2011

Gamlárshlaupið í gær var fínt. Góðar aðstæðut og fullt af fólki. Stærstu almenningshlaupin eru orðin nokkurskonar fjöldahátíð. Það á til dæmis við um Miðnæturhlaupið, Reykjavíkurmaraþonið og Gamlárshlaupið. Slíkur er fjöldinn sem tekur þátt í þeim. Ég fór rólega af stað, var aftarlega í þvögunni og gat í raun ekki farið að hlaupa fyrr en út við Samgönguráðuneyti í Tryggvagötu. Eftir það rúllaði ég fínt og ég held að það hafi enginn farið fram úr mér eftir það. Það má segja að maður hafi gengið 1 km og hlaupið 9 km. Ég hafði ekkert hlaupið eftir brettishlaupið og var mjög ánægður með skrokkinn. Ekkert að og allt eins og það á að vera. Takk fyrir mig.

Það er ekki úr vegi að renna aðeins yfir nýliðið ár á nýársdegi. Samtals hljóp ég vel yfir 5.200 km á árinu eða nær 15 km á dag að meðaltali. Það er aðeins minna en í fyrra en engu sem munar. Síðan hjólaði ég rúmlega 800 km. Ég get ekki verið annað en ánægður með að skrokkurinn, fætur, liðamót og allt gangvirkið þoli þetta álag ár eftir ár. Ég þakka það ýmsu. Bæði er ég viss um að markvisst mataræði hefur sitt að segja svo og nota ég hvíldina markvisst sem hluta af æfingaskipulaginu.
Árið í fyrra var ár nokkurra stórra áfanga sem ekki var sjálfgefið að ná.
Ég fór til Durban í Suður Afríku til að taka þátt í Comrades hlaupinu. Það var mjög skemmtileg ferð og eftirminnileg. Fyrir utan að koma til Suður Afríku, sem ég á vonandi eftir að gera aftur, þá var mjög gaman að taka þátt í þessu sögufræga Comradeshlaupi sem er eitt að hinum fjórum klassísku ofurmaraþonum í heimi. Rúmlega 20.000 manns stóðu og skulfu sér til hita í Petermaritzburg áður en skotið reið af. Tæplega 15.000 þeirra komust alla leið til Durban innan tilskilinna tímamarka og var ég í um 2.800 sæti. Með því að ljúka þessu hlaupi náði ég að ljúka öllum hinum fjóru klassísku ofurmaraþonhlaupum heimsins og er það ég best veit sá fyrsti í heiminum sem nær þeim áfanga.

Þrem vikum eftir Comrades tók ég öðru sinni þátt í 48 klst hlaupi á Borgundarhólmi. Árlega eru það nálægt 350 manns í heiminum sem hlaupa 48 klst hlaup. Það er um 10% af þeim sem hlaupa 24 tíma hlaup. Það má segja að fjöldinn sé í öfugu hlutfalli við erfiðleikastuðul hlaupanna. Vitaskuld er það dálítið mál að leggja af stað í annan sólarhring eftir að hafa unnið sig í gegnum einn sem flestum þykir nógu gott. Eftir að hafa lent í dálitlum erfiðleikum undir kvöld seinni daginn þá náði ég mér að strik aftur og sigraði með um 70 km forskoti á næsta hlaupara og 18 km lengra hlaupi en í fyrra. Þetta hlaup gekk annars að flestu leyti betur upp en hlaupið í hitteðfyrra. Ég sló norska metið og er í hælunum á Rune Larsson sem á sænska metið. Þessi árangur skilaði mér í 8. sæti á heimslista en ég er nokkuð langelstur af þessum átta. Sá sem kemur mér næstur í aldri er um fimmtugt en hinir eru í kringum fertugt.
Rétt fyrir jólin lagði ég svo í 24 tíma hlaup á bretti. Það er ein af þessum áskorunum sem nauðsynlegt var að takast á við. Í stuttu máli sagt þá gekk það mjög vel, ekkert óvænt kom upp á og ég náði þeim báðum markmiðum sem ég setti. Þau voru að fara yfir 200 km og að slá norðurlandametið. Árangurinn er einnig 14. besti árangur sem hefur náðst í heiminum frá upphafi. Samstarfið við World Class, sem aðstoðaði mig við hlaupið, gekk mjög vel og kann ég þeim bestu þakkir fyrir. Einnig eiga allir þeir góðu hlauparar sem komu að hlaupinu, voru nærstaddir og aðstoðuðu mig á einn eða annan hátt, miklar þakkir skyldar. Svona er hlauparasamfélagið. Ofurhlauparáð FRÍ var nýbúið að samþykkja formlegar reglur um framkvæmd ofurhlaupa á bretti sem eru í samræmi við alþjóðlegar reglur. Því er hér um að ræða árangur sem náð var eftir gildandi alþjóðareglum.

Það eru ýmsir sem halda að ofurhlaup séu eitthvað dútl sérvitringa og flokkist því ekki sem alvöru íþrótt. Þetta viðhorf virðist t.d. hafa verið ríkjandi hjá langflestum svokölluðum íþróttafréttamönnum hérlendis. Það er því hægt að árétta það að alþjóðasamtök ofurhlaupa starfar á nákvæmlega sömu nótum og alþjóða knattspyrnusambandið og alþjóða frjálsíþróttasambandið. Það stendur fyrir heimsmeistaramótum, Evrópumót eru haldin og landsmót í ákveðnum stöðluðum greinum. IAU (International Association of Ultrarunners) tekur út einstök hlaup og veitir þeim ákveðinn status á sama hátt og alþjóða frjálsíþróttasambandið fjallar um mót, það samþykkir ákveðnar reglur um framkvæmd hlaupa o.s.frv.

Ég hef hlaupið fimm 24 tíma hlaup bæði úti og inni. Tvö af þeim hafa verið hluti af 48 klst hlaupi. Í fjórum þeim síðustu hef ég farið yfir 200 km sem er draumatakmark allra hlaupara sem takast á við 24 tíma hlaup. Ég náði því ekki í fyrsta hlaupinu vegna reynsluleysis. Það ég best veit hefur t.d. einungis einn norðmaður náð að fara yfir fimm sinnum yfir 200 km í 24 tíma hlaupi.

Ég get ekki annað en verið ánægður með nýliðið ár. Maður á fyrst og fremst að vera þakklátur fyrir að hafa andlega og líkamlega heilsu til að geta æft undir miklu álagi vikum og mánuðum saman til að búa sig undir krefjandi verkefni. Það er ekki sjálfgefið. Það er síðan með þetta eins og í svo mörgu öðru, því meir sem menn leggja inn þeim mun meira er hægt að taka út.

Ég get síðan ekki annað en verið ánægður með þann áfanga að ofurhlaupa var getið í íþróttaannál ríkissjónvarpsins. Einnig var Poweratehlaupanna ágætlega getið. Kannski augu ýmissa séu að opnast fyrir hvað þarna er að gerast.

Hvað nýhafið ár ber í skauti sér kemur í ljós. Það er ýmislegt í pípunum.

Engin ummæli: