mánudagur, janúar 17, 2011

Maður er náttúrulega bara venjulegur einfaldur einstaklingur sem fylgist með umræðunni eins og hún kemur fyrir utan frá séð. Yfirleitt verður maður að trúa því að það sem þeir segja sem eru nær miðju hringiðunnar sé skynsamlegt og viturlegt. Það er hlutverk þeirra sem eru virkir í stjórnmálaflokkum að leita leiða til lausna á þeim viðfangsefnum sem við er að fást í samfélaginu. Það kemur þó fyrir að það er erfitt að ná samhengi í hlutina. Það á til dæmis við þegar ályktun um afnám ójöfnun kvótakerfis sem samþykkt varí fyrradag er lesin yfir.
Hér er yfirlit um helstu atriðin sem vefjast fyrir mér:
1. "Innleiða skal án tafar nýtt fiskveiðistjórnunarkerfi sem byggir á jöfnum rétti landsmanna til nýtingar fiskimiðanna." Hvað skyldi þessi setning þýða? Eiga allir landsmenn að hafa jafnan rétt til nýtingar fiskimiðanna. Það er heimilt að veiða ca 160 þúsund tonn af botnfiski. Það þýðir ca. hálft tonn á hvern íslending. Á hver íslendingur að fá senda ávísun á hálft tonn af botnfiski hvar á stendur: "Þú mátt veiða hálft tonn!" Hvað veit ég. Varla trúi ég að viðkomandi stefni að óheftri sókn á fiskimiðin. Að vísu held ég að það megi veiða meir en gert er í dag en það skiptir máli með hvaða aðferðum það er gert. Á að fara í ólympískar veiðar? "Fyrstur kemur fyrstur fær". Þessi setning vekur fleiri spurningar en hún svarar.
2. "..að eignarhald fiskveiðiauðlindarinnar liggi ótvírætt hjá þjóðinni." Hvað þýðir þetta? Hvað er þjóðin? Er það ríkið? Hvað þýðir "Eignarhald á fiskveiðiauðlindinni?" Er það að landsmenn fá senda ávísun á einhver tonn í pósti og þeir mega gera það við hana sem þeir vilja? verður ávísunin framseljanleg? Ef svo er þá munu líklega flestir selja ávísunina einhverju fyrirtæki sem ætlar að starfa við sjávarútveg af alvöru? Eða þýðir þetta að fiskveiðiauðlindin verði þjóðnýtt og ríkið leigi út aðganginn að fiskimiðunum? Hvað með þá sem hafa keypt afnotarétt af henni í gegnum árin? Fá þeir skaðabætur ef hann verður þjóðnýttur? Þetta statement vekur fleiri spurningar en það svarar.
3. "...og að réttlátur arður af veiðunum renni til fólksins í landinu" Hvað þýða orðin "... að renna til fólksins í landinu?" Á hver einasti íslendingur að fá aura inn á sína bankabók beint frá sjávarútvegnum? Er verið að telja fólki trú um slíka hluti? Er fólkið í landinu skilgreint það sama og ríkissjóður eða er meiningin einhver önnur. Hver er hún þá? Ég hélt að skattlagning væri almennt viðurkennd aðferð til að láta atvinnulífið skila réttlátum arði til þjóðarinnar. Ef skatttekjur einhverrar atvinnugreinar eru of litlar að bestu manna yfirsýn þá eru skattarnir hækkaðir hvaða nafni sem þeir nefnast. Hér á árum áður var lagður sérstakur skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði því ríkisstjórn þess tíma leit svo á að gróði þessara fyrirtækja og stofnana væri svo mikill. Hvaða aðferð önnur er möguleg? Er það sama ávísanaaðferðin sem áður er minnst á? Því skýrar sem talað er því betra.

Ég minntist á það fyrir nokkrum vikum að mér findist vera áþekkur keimur af umræðunni um sjávarútveg og útgerðarmenn hérlendis eins og rætt var um kúlakkana (sjálfseignarbændur) í Sovétríkjunum á Stalínstímanum. Kúlakkarnir voru óþjóðhollir og störfuðu á móti hagsmunum alþýðunnar samkvæmt skilgreiningu flokksbroddanna. Það er fróðlegt að rifja upp örlög þeirra sem stéttar. Fleiri áþekk dæmi má tína til frá fyrri áratugum þar sem spjótunum að ákveðnum þjóðfélagshópi með oft allrahanda afleiðingum. Nú barst sú hræðilega frétt um samfélagið fyrir helgina að einstaklingur af hinni voðalegu stétt "útgerðarmanna" hefði keypt þrjár dýrar vínflöskur í Fríhöfninni. Útgerðarmaður / kúlakki, tónninn er sá sami. Í fyrsta lagi má spyrja hvort starfsmenn fríhafnarinnar séu yfirleitt á útkikki yfir því hvað einstakir viðskiptamenn eru að kaupa? Hvaða rétt hafa þeir til að básúna það út um víðan völl? Hafa síðan einstakir menn ekki heimild til að eyða sínum peningum á þann hátt sem þeir vilja? Hefði það orðið fréttaefni og hneikslunarefni ef þessi sami maður hefði keypt sér myndavél fyrir álíka pening? Ég má kaupa dýrar vínflöskur í Fríhöfninni ef mig langar til. Það kemur það bara ekki nokkrum manni skapaðan hlut við nema kannski heimilisfólkinu hér í Rauðagerðinu. Það gæti verið að það yrði gerð athugasemd hér á heimilinu við slíka forgangsröðun á innkaupalistanum en það er bara allt annað mál.
Útgerðarmenn reka framleiðslufyrirtæki. Þeir stuðla að atvinnusköpun. Sjávarútvegurinn er mikilvægasti atvinnuvegur þjóðarinnar. Sala sjávarútvegsafurða úr landi skapar gjaldeyri. Fyrir gjaldeyrinn getum við keypt vörur frá útlandinu sem samfélagið telur sig vanhaga um. Þannig er samhengi hlutanna. Nú ætla ég ekkert að halda því fram að allir útgerðarmenn séu einhverjir englar. Þeir eru vafalaust misjafnir eins og aðrir. Sama má segja um fiskveiðistjórnunarkerfið. Það er ekki fullkomið frekar en annað sem alþingismenn ákveða. Hins vegar er það gersamlega út úr öllu korti að útmála eina stétt manna sem einhversskonar þjóðníðinga í opinberri umræðu.

Engin ummæli: