miðvikudagur, janúar 05, 2011

Ég keypti mér nýlega bókina Sovét Ísland - Óskalandið og er búinn að lesa hana. Thor Whitehead sagnfræðingur skrifar bókina og hefur lagt í hana gríðarlega vinnu eftir þeim heimildum að dæma sem hann hefur notað við vinnslu bókarinnar.

Ég hef lagt á það dálitla áherslu á liðnum misserum að lesa bækur um sögu kommúnismans, bækur um Stalín, Maó og fleiri framámenn á þessu sviði til að geta betur gert mér grein fyrir því sem fór í raun fram. Sú mynd sem þau Pótemkímtjöld sem stillt var upp um kommúnismann gegnum áratugina er afar ólík raunveruleikanum þegar betur er að gáð. Mér finnst þvi það vera ómaksins virði að kynna mér hlutina betur. Ástæða þess er meðal annars sú að ég var meðlimur í Alþýðubandalaginu frá árinu 1975 og hélt síðan áfram í Vinstri Grænum eftir að sá flokkur var stofnaðir. Leiðir skyldu hinsvegar að fullu fyrir um 10 árum síðan. Alþýðubandalagið var arftaki Sósíalistaflokksins sem aftur á móti var arftaki Kommúnistaflokksins. Mér finnst vera full ástæða til að gera þennan tíma upp því tíminn hefur leitt í ljós að ýmsilegt hefur reynst hafa verið á annan veg en af var látið. Kommúnisminn gaf sig út fyrir að hafa hagsmuni almennings og verkafólks sem sitt leiðarljós en sagan sýnir að ekkert var fjarri sanni. Í nafni hans hafa verið framin svo hryllileg grimmdarverk og óskapleg kúgun að nasisminn bliknar í þeim samanburði og skal þó ekkert dregið úr þeim ógnarverkum sem framin voru í nafni hans. Það er vafalaust hægt að fara í ítarlegar útlistanir á muninum á sósíalisma og kommúnisma en ég hef ekki talið það vera þess virði að fara í slíkar vangaveltur. Það er skyldleiki á milli skeggsins og hökunnar.

Ég hef lesið bók Einars Karls og Ólafs Einarssonar um Gúttóslaginn árið 1932. Í Gúttóslagnum var lögreglan í Reykjavík barin í klessu. Margir lögreglumanna voru stórslasaðir þannig að þeir biðu þess aldrei bætur. Ríki sem getur ekki haldið uppi lögum og reglu er í raun og veru ekkert ríki. Því hékk tilvera íslenska ríkisins í raun á bláþræði á þessum tíma.
Um Gúttóslaginn var alltaf talað þannig eins og þar hefðu hungraðir verkamenn verið að berjast fyrir tilveru sinni og framfærslu. Samkvæmt bókinni Sovét Ísland er það mjög röng mynd. Í raun var Gúttóslagurinn manndómsraun harðsvíraðs kjarna byltingarsinna sem höfðu verið þjálfaðir í byltingarskóla hjá kommúnistum í Moskvu. Það er allt annar hlutur en að slást fyrir mat. Fleiri átök af svipuðum toga sem áttu sér stað á þessum tíma eru tilgreind í bókinni. Forystumenn íslenskra kommúnista voru í miklum samskiptum við Komintern (Kommúnistisku alþjóðasamtökin) í Moskvu og fengu þaðan fyrirmæli og ráðgjöf. Það má segja ef rétt er með farið í bókinni að það hafi verið styttra í en ætla mætti í fljótu bragði að kommúnistar næðu undirtökum í samfélaginu hér með valdbeitingu en ætlað hefur verið til þessa. Nærtækast er að líta til Eystarasaltsríkjanna um hvernig mál hefðu skipast hérlendis ef sú hefði orðið raunin.

Við lestur bókarinnar fékk ég smátt og smátt tilfinningu fyrir að það er eitt og annað líkt í umræðunni í dag og umræðunni eins og hún var á árunum í kringum 1930 þegar komúnisminn fór að skjóta rótum fyrir alvöru.

Í þeim tíma var samfélaginu skipt upp í "burgeisa" og "verkalýð". Burgeisar voru birtingarmynd yfirstéttarinnar sem verkalýðurinn átti undir högg að sækja gegn. Þetta minnir mig á umræðuna um karla og konur á liðnum árum. Svokölluð kvenfrelsisumræða er hátt skrifuð hjá mörgum evrópskum vinstri flokkum sem áður hölluðust að kommúnisma. Karlahatur er algengt hjá öfgafullum feministum. Körlum nútimans er kennt um allt það sem ýmsum konum finnst hafa sér verið misgert í gegnum aldirnar. Afar vinsælt er hjá mörgum að gera lítið úr körlum.
Sjálfseignarbændur (kúlakar) voru ofsóttir í Sovétríkjunum. Ástæða þess ar að þeir voru taldir hafa verið í uppreisn gagnvart samyrkjuvæðingunni,spekúlerað með korn og selt það öðrum en ríkinu eftir að þeir voru neyddir til að setjast á "samvinnubú". Þetta minnir mig ögn á umræðuna um sjárvarútveginn hérlendis. Grimmur áróður dynur á þeim reka sjávarútvegsfyrirtæki. Hamrað er á nauðsyn þess að koma auðlindum (les: kvóta í sjávarútvegi) í eigu þjóðarinnar hvað sem það nú þýðir. Þeir sem enn starfa við sjávarútveg eru látnir gjalda þess af einhverjir eru ósáttir við þá sem seldu sig út úr greininni. Hamrað er á að allur kvóti sé gjafakvóti þrátt fyrir að um 90% þess kvóta sem er notaður í dag hafi verið keyptur.
Lögreglan sem hefur það hlutverk að halda uppi lögum og reglu í landinu var kölluð "meindýr", "blóðhundar auðvaldsins", óðir hundar fasismans", "sníkjudýr" og "rakkar". Þannig var alið á hatri og fordómum á lögreglunni með markvissum og áróðri sem átti að gera það léttbærara að lúskra á henni ef tækifæri biðist. Þetta minnir mig dálítið á þann fréttaflutning og umræðu um lögregluna hérlendis sem hefur verið til staðar hérlendis á undanförnum misserum þrátt fyrir að orðavalið hafi verið heldur siðaðra en á tímum kommúnistaflokkins. Hún er sökuð um hrottaskap, ofbeldi, misbeitingu valds og ég veit ekki hvað við minnstu og óverulegustu tilefni. Fréttamenn fjölmiðla hafa ekki verið barnanna bestir í þeim efnum. Rétt er að rifja upp þegar einn náunginn nuddaði sér upp við lögregluþjón og piraði hann þar til lögreglan ýtti við honum svo náunginn sté eitt skref aftur af gangstétt. Annar lá í leyni og tók mynd af öllu sem síðan var spiluð aftur og aftur í sjónvarpsfréttum sem dæmi um hrottaskap lögreglunnar.
Enginn þeirra sem sannanlega tók þátt í því að limlesta lögreglumenn í Gúttóslagnum árið 1932 eða aðra borgara afplánaði dóm fyrir brot sín þrátt fyrir dóma hæstaréttar. Stjórnvöld virtust ekki hafa þorað að setja þá bak við lás og slá því allir voru náðaðir. Þetta minnir á málsmeðferðina á skrílnum sem réðst inn í Alþingi í byrjun árs 2009. Í fyrsta lagi hefur ítrekað verið reynt að hleypa upp réttarhöldum og koma þannig í vegn fyrir eðlilegan framgang réttvísinnar. Í öðru lagi hafa níumenningarnir og stuðningsmenn þeirra ítrekað reynt að fá ákveðna stjórnmálamenn til að misbeita áhrifum sínum og grípa inn í eðlilegan feril dómstóla. Sama viðhorf virðist vera til staðar hjá þeim og kommúnistum fyrri tíma að þeir telja sig hafna yfir lög og rétt við ákveðnar aðstæður og gera í raun það sem þeim sýnist. Síðast er grein þess efnis í Morgunblaðinu í dag (5. janúar).
Það er lokum dálítið athyglisvert að það er rifjað upp í bókinni að til umræðu hafi komið að reyna að efna til óspekta á Alþingishátíðinni árið 1930 í þeim tilgangi að hleypa henni upp. Farið er yfir hvaða aðferðum hafi átt að beita í þeim tilgangi til að hleypa hátíðinni upp. Sömu hugmynd var slegið fram í tengslum við kristnitökuhátíðina á Þingvöllum árið 1994. Þetta veit ég með vissu. Það var ekkert tekið undir þessa hugmyndafræði þegar hún var viðruð og fyrst og fremst litið á hana sem eitthvað bull. Það skiptir síðan ekki máli hver það var sem stakk upp á þessu innleggi í hátíðahöldin því viðkomandi er látinn.

Bókin Sovét Ísland Óskalandið er mjög fróðleg og ástæða til að hvetja áhugafólk um sögu að lesa hana því menn geta rétt ímyndað sér hver framvinda mála hefði orðið hérlendis ef kommúnistar hefðu náð hér völdum. Það er hverjum manni hollt því næg eru fordæmin.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Á sama hátt og ég er feginn því að kommúnistar náðu ekki völdum á Íslandi fyrir stríð, þá er ég feginn því að þeir voru ekki alveg áhrifalausir á sínum tíma og hefði jafnvel kosið að áhrif þeirra væru meiri. Samfélagið sem kommúnistarnir vildu breyta á sínum tíma var ekki beinlínis geðslegt heldur. Menn eru farnir að tala eins og það hafi ekki þurft neina alþýðuhreyfingu til að ná fram þeim umbótum sem þó náðust fram á tuttugustu öldinni. Eins og stéttaskipting og fátækt hafi bara útrýmt sjálfri sér. Auðvitað þurftu menn að berjast fyrir réttindum sem þykja sjálfsögð í dag og auðvitað voru forréttindin ekki látin af hendi átakalaust.
Í mínum huga er það langt í frá augljóst að þeir sem tóku að sér að verja gildandi þjóðskipulag á tíma Gúttóslagsins hafi verið að verja góðan málstað. Það er átakanlegt að vita til þess að menn hafi örkumlast í slagnum. En það er í sömu andrá holt að velta fyrir sér kaldhæðninni í því að hlutskipti öryrkja á Íslandi hefur snarbatnað þökk sé mönnum eins og þeim sem létu til sín taka í réttindabaráttu íslenskrar alþýðu.
Ég er nógu ungur til þess að ég þurfi ekki að „gera upp“ við neina fortíð. Það var flestum ljóst á mínum uppvaxtarárum að sovétkerfið var meingallað. Hins vegar má leiða góð rök að því að alþýðan hafi einmitt náð fram þeim umbótum í Evrópu sem raun var á vegna tilvistar Sovétríkjanna. Það var semsagt ekki verkalýðurinn í Rússlandi sem naut ávaxtanna af byltingunni, heldur þeir sem gátu ógnað með byltingu.

Grímur

Nafnlaus sagði...

Sæll Grímur
Ég er alveg sammála því að íslenskt samfélag var ekki burðugt á margan hátt á þessum tíma sett á nútíma mælikvarða. Svo var vitaskuld einnig um mörg önnur nálæg ríki. Það sem mér finnst skipta mestu máli er að það mátti kannski ekki muna svo miklu að við færum úr öskunni í eldinn. Í því ljósi eru bækur eins og þessi betur skrifaðar en ekki.
Gunnl.

Nafnlaus sagði...

Sæll Gunnlaugur, þetta er afbragðs pistill hjá þér. Áhugamenn um stjórnmálasögu hafa fengið úr miklu að moða með bókum Þórs Whitehead og Guðna Th.

Kveðja, Baldur H. Ben.