mánudagur, janúar 24, 2011

Stórmót ÍR var haldið á helginni. Það er fyrsta stórmót vetrarins. Síðan rekur hvert mótið á fætur öðru, meistaramótið 15-22 ára á næstu helgi, svo er meistaramótið, síðan tugþraut og sjöþraut og svo bikrarkeppnin. Það er alltaf spenningur í upphafi mótavertíðar að sjá hvernig krakkarnir hafa verið að nota tímann frá því að frá var horfið í sumar. Mörg eru einnig á þeima aldri að þau eru að stækka, styrkjast og þroskast. Ég man ekki eftir því að hafa séð þá sem ég fylgist með koma eins vel stemmda inn í veturinn eins og nú eftir áramótin. Það er að koma fram góður hópur mjög ef enilegra unglinga sem á eftir að láta að sér kveða á næstu árum ef þau halda vel á sínu. Vitaskuld er það alltaf ákvörðun hvaða stefnu hver og einn tekur. Það á við um þessa hluti eins og flesta aðra. Það er hins vegar alveg á hreinu að þeirra er valið og einskis annars. Þau eru ekki að æfa og keppa fyrir félögin eða foreldrana heldur af því þau vilja það sjálf. Þannig er það með allar íþróttir. Sum hafa þá drauma að ná langt og með elju og ástundun þá eru ýmsar leiðir færar í þeim efnum.

María kemur ágætlega inn í keppnistímabilið. Meiðslin sem voru að hrjá hana mestan hluta ársins í fyrra eru að verða yfirunnin og þá er vonast til að hægt verði að keyra á fullu gasi. Það eru margir spennandi hlutir framundan. Yngri krakkarnir í Ármanni stóðu sig vel á stórmótinu. Fyrir tveimur árum var deildin afar fámenn en nú eru rúmlega 100 áhugasamir krakkar sem æfa og keppa undir merkjum félagsins. Það verður gaman að fylgjast með þvi hvernig þau pluma sig í framtíðinni.

Ég var afar rólegur í hlaupunum í janúar. Ég fann það að ég var orðinn mattur og langaði ekki beint til að fara út á morgnana að hlaupa. Þá var ekki annað að gera eins og ég hef verið að predika, að hlusta á skrokkinn. Það var fínt að sofa út á morgnana og láta skóna liggja hreyfingarlausa í nokkrar vikur. S'iðan vaknaði allt aftur og nú er allt komið á skrið aftur. Ég var búinn að vara nær því stanslaust að í tvö ár svo það var orðið nauðsynlegt að taka smá hlé.

Hin meintu njósnamál tvö sem hafa komið upp að undanförnu eru dálítið sérstök. Það segir sig sjálft að tölva sem hefur ekki IP tölu, hefur engin fingraför og er alveg auðkennalaus er ekki venjuleg tölva. Vitaskuld hefði einhver getað sett tölvu í sambandi við innanhússkerfi Alþingis og gleymt henni þar en þessi hlið málsins gerir það allt öðruvísi. Allar venjulegar tölvur eru með IP tölum og löðrandi í fingraförum. Þegar þekktur tölvuhakkari hefur verið að sniglast þarna um er ekki nema eðlilegt að það séu lagðir saman tveir og tveir. Útoman er allavega þrír og hálfur. Það þýðir ekki annað en að bregðast við svona uppákomum af fullri alvöru. Merkilegt er þó að það skuli hafa verið þagað yfir málinu í rúmt ár. Hin uppákoman er dálítið fyndin. Það er alþekkt að það er reynt að koma flugumönnum inn í raðir allskonar hópa sem eru með æsing, undirróður og mótmæli. Nú hefur það komist upp að í hópi svokallaðra aðgerðasinna sem fór sem mest við Kárahnjúka hafi verið breskur flugumaður. Það virðist sem svo að það pirri viðkomandi einstaklinga mest er að einhverjar stelpur úr hópnum hafi orðið skotnar í flugumanninum. Það er eins og það hafi verið framin hálfgerð helgispjöll. Það er næstum því svo að það virðist vera alvarlegra í hugum sumra miðað við umræðuna að flugumaður hafi leynst í hópi aðgerðasinna heldur en að njósnatölvu hafi verið stungið í sambandi við innanhússkerfi Alþingis.

85% þjóðarinnar vilja lögleiða staðgöngumæðrun hérlendis. Bara si svona. Umræðulaust og skoðunarlaust. Hlaupa eftir þeim sem hæst gala. En náttúrulega bara í greiðaskyni. Mín skoðun er að ef lögleiða á staðgöngumæðrun hérlendis í greiðaskyni þá eigi líka að lögleiða vændi en náttúrulega bara í greiðaskyni. Bara við smá vangaveltur vakna til að mynda þessar þrjár spurningar:
1. Hvað ef staðgöngumóðir neitar að afhenda barnið þrátt fyrir samning þar um?
2. Hvað ef væntanlegir foreldrar neita að taka á móti barninu vegna einhverra ástæðna þratt fyrir samning þar um?
3. Hvernig á að skrá barn fætt af staðgöngumóður í þjóðskrá með tilliti til systkina þess og skyldeika við þau?

Þetta eru spurningar sem rétt er að velta fyrir sér á meðan næstu skoðanakönnun um staðgöngumæðrun er svarað.

Ég skil ekki í þeim sem standa að Gufubaðinu á Laugarvatni að kalla það "Fontana". Þýðir Fontana ekki gosbrunnur eða eitthvað svoleiðis á erlendum málum?

Engin ummæli: