miðvikudagur, janúar 12, 2011

Árangur í hlaupum er afstæður eins og í öðrum íþróttum. Erfitt er að bera saman árangur milli einstakra íþróttagreina eins og mikið hefur verið rætt um í sambandi við kjör á íþróttamanni ársins. Einnig er erfitt að bera saman árangur í hlaupum því þau eru ólík að lengd og erfiði. Til að átta sig á stöðu einstakra manna er helst mögulegt að sjá hvar viðkomandi stendur í samanburði við aðra sem hafa hlaupið hlaup sömu gerðar. Það er heldur ekki alveg einfalt að bera saman árangur í hlaupi sömu gerðar. Í fyrsta lagi hlaupa konur heldur hægar en karlar að öðru jöfnu. Margar íslenskra konur hafa hlaupið maraþon á skemmri tíma en ég og það er einfaldlega vegna þess að þær eru betri maraþonhlauparar en undirritaður. Aftur á móti er sú kona einnig betri hlaupari en ég ef við hlaupum maraþon á sama tíma því konur eru yfirleitt heldur kraftminni en karlar að öðru jöfnu. Fleira skiptir einnig máli í þessu sambandi. Þar má til nefna aldur keppenda. Yfirleitt fer að slakna á líkamsgangverkinu upp úr þrítugu. Þannig eru eldri hlauparar yfirleitt hægari en þeir yngri að öðru jöfnu. Það er bara staðreynd. Því er það mun betri árangur hjá fimmtugum manni en þeim sem þrítugur er ef þeir hlaupa á sama tíma. Það getur einnig verið betri árangur hjá þeim fimmtuga en þeim þrítuga enda þótt hann sé eitthvað á eftir þeim þrítuga. Sá sem hleypur hraðast fær verðlaunin en afrek hins sem eldri er getur verið mun meira því sá yngri hefur ákveðna forgjöf sem felst í aldrinum.
Það rifjaðist upp fyrir mér fyrir skömmu að ég greip einu sinni niður í hlaupabók í bókabúð í London. Í henni voru samanburðartöflur á samspili aldurs og hraða. Með þessum töflum var hægt að bera árangur fimmtugs manns í maraþoni saman við árangur þrítugs manns. Bókina keypti ég náttúrulega ekki eins og gengur. Ég prófaði því að googla og viti menn, það var tengill á fyrstu síðunni sem kom upp þar sem birt var slóð á reikniverk sem gerir svona samanburðarfræði mögulega. Ég sló inn leitarorðin marathon og age og það reyndist vera nóg.
Síðan heitir Age Equivalent Times Calculator og slóðin á þessa reiknivél er: www.marathonguide.com/fitnesscalcs/ageequivalent.cfm

Ég þekki ekki vísindin sem liggja á bak við þessa útreikninga. Kannski er þetta bara samkvæmisleikur sem einhverjir hafa gaman af að dútla við en mögulega er þetta reiknað út efir nokkuð vísindalegum aðferðum. Hvað veit ég? Hins vegar veit ég svo mikið að það er til fyrirbæri sem heitir mismunandi hár aldur og yfirleitt er það viðurkennt að hraði, snerpa og kraftur minnkar heldur þegar árin færast yfir.

Með þessari reiknivél er til dæmis hægt að bera saman á jafnstöðugrunni afrek þeirra, sem tilnefnd voru til langhlaupara ársins á hlaup.is fyrir skömmu og höfðu gefinn upp tíma í maraþonhlaupi. Þar kemur ýmislegt athyglisvert í ljós.

Engin ummæli: