Þeir aðilar sem stunduðu útgerð á sínum tíma urðu fyrir miklu áfalli þegar kvótinn var skertur en margir þraukuðu áfram, hagræddu í rekstri og aðlöguðu sig breyttum tímum. Margar útgerðir hafa þraukað þessi ár þrátt fyrir að oft hafi ýmislegt gengið á. Bæði hefur niðurskurður á kvóta verið þeim erfiður en aðrir erfiðleikar hafa oft valdið ekki minni erfiðleikum sem of hátt skráð gengi um árabil.
Nú skyldi maður halda að það væri ekki lagt viðkomandi aðilum það til lasts að hafa stundað útgerð allan þennan tíma heldur fengju þeir klapp á bakið. Svo er nú ekki að heilsa af hálfu ýmissa.
Þingmaðurinn fyrrverandi sem ég minntist á telur upp allnokkurn fjölda útgerða sem hefur starfað allan þennan tíma og segir m.a. eftirfarandi: Flestar stórútgerðir í landinu eru enn með sömu kennitölu og þær höfðu við upphaf kvótakerfisins og því byggja þær á nýtingarrétti sem þau borguðu ekki neitt fyrir. Síðar segir: Ef farið er hringinn í kringum landið sést að það eru enn sömu fyrirtækin og sama fólkið sem er enn í útgerð og byggir á þeim gjafakvóta sem þau fengu í upphafi.
Af mínu litla viti á þessum málum finnst mér það virðingarvert að sama fólkið með sömu kennitölur sé enn í sama atvinnurekstri og það var fyrir 30 árum þegar kvótinn var settur á sem aflaskerðing. Vildu menn heldur að a) Þetta fólk hefði selt kvótann og farið að nota peningana í annan atvinnurekstur? b) Dregið stórlega úr útgerð og leigt kvótann frá sér c) Farið á hausinn.
Eftirfarandi fyrirtæki eru talin upp sem gjafakvótafyrirtæki:
Í Vestmannaeyjum eru það Vinnslustöðin, Ísfélagið, Glófaxaútgerðin, Bergur-Hugin útgerðin, Dala-Rafns útgerðin, útgerðin á Frá, Bergi, Hugin, Þórunni Sveinsdóttur og Bylgjunni, ásamt fleiri útgerðum í Eyjum.
Á Hornafirði sameinuðust Skinney og Þinganes og tóku yfir Kaupfélags útgerðina.
Það eru sömu aðilar í útgerð á Fáskrúðsfirði og voru og á Eskifirði þar sem Eskja e.h.f. er og er hún rekin af afkomendum Alla ríka. Það eru sömu eigendur að Síldarvinnslunni á Norðfirði en þar eiga reyndar Samherjar orðið 30-40% hlut. Á Þórshöfn er Ísfélagið komið inn í útgerðina með heimamönnum og Grandi er komin inn í útgerð með heimamönnum á Vopnafirði. Á Siglufirði er Þormóður Rammi og hefur hann sameinast útgerð sem var á Ólafsfirði. Samherji og Brim eru á Akureyri. Á Sauðarkrók eru sami aðili í útgerð og verið hefur og er það Kaupfélagið. Á Grenivík er Gjögur. Gunnvör á Ísafirði hefur sameinast nokkrum öðrum útgerðum þar. Oddi er á Patreksfirði. Á Snæfellsnesi er og hafa verið meðal annars útgerð Kristjáns Guðmundsonar, Hraðfrystihús Hellisands, Steinunnar útgerðin í Ólafsvík, Rakel Ólsen í Stykkishólmi, Guðmundur Runólfsson í Grundarfirði. Í Reykjavík eru Grandi og Ögurvík. Stálfrúin í Hafnarfirði. Nesfiskur í Garði. Happasæls, Arnars útgerðin og Saltver í Keflavík. Þorbjörninn og Vísir í Grindavík. Í Þorlákshöfn er útgerðir Einars Sigurðssonar og Hannesar Sigurðssonar.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli