föstudagur, janúar 07, 2011

Kjör íþróttamanns ársins 2010 er afstaðið. Sem betur fer eru augu æ fleiri að opnast fyrir því að núverandi fyrirkomulag er langt í frá í lagi. Að láta örfáa menn hafa einokun á því að skilgreina hvað eru íþróttir og hvað ekki með því að hafa ákvörðunarvald á því um hvað er fjallað nær náttúrulega ekki nokkru lagi. Að láta þessa sömu klíku síðan ráða því hverjir eru taldir bestu íþróttamenn landsins er grein af sama meiði. Niðurstaðan er náttúrulega eftir þessu. Þessi litli hópur hefur talið sjálfum sér trú um að boltagreinar séu vinsælustu íþróttagreinar landsins af þvi það er það sem þeir þekkja og hafa vit á og þar af leiðandi hljóti bestu íþróttamenn landsins yfirleitt að koma úr boltagreinum. Fyrst og fremst er náttúrlega verið að tala um handbolta og fótbolta. Karfan hangir þarna svo sem með en ekki meir en það. Mér finnst niðurstaðan úr kjöri á íþróttamanni ársins vera mjög umdeilanleg. Auðvitað hljóta alltaf að vera mismunandi skoðanir á þessari niðurstöðu en sama er. Ég skil einfaldlega ekki hvers vegna Alexander Petterson sé talinn besti íþróttamaður landsins með fullri virðingu fyrir honum. Það er t.d. ekki vafi hvern ég myndi frekar velja í mitt handboltalið, Ólaf Stefánsson eða Alexander, og það er ekki Alexander. Hann sýndi ekkert sérstakt í handboltanum í Þýskalandi á síðasta keppnistímabili og vann enga titla. Að láta eitt flott atvik úr leiknum við Pólverja ráða úrslitum um kjörið er dálítið dæmigert fyrir rörsýnina hjá íþróttafréttamönnum. Hvor skyldi nú vera betri körfuboltamaður og hafa náð lengra, Hlynur Bæringsson eða Jón Arnór. Ekki spurning í mínum huga en ég held að Jón hafi ekki komist á blað. Hvað með Helenu körfuknattleikskonu sem er að gera virkilega góða hluti í Bandaríkjunum. Í verklýsingu íþróttafréttamanna er talað um að taka skuli tillit til reglusemi, ástundunar og annarra hluta en beins mælanlegs árangurs. Sjö af þeim tíu sem voru efstir eru atvinnumenn og þurfa ekki að hugsa um neitt annað en íþróttina. Íris fimleikastúlka þarf að afla sjálf farareyris á öll mót eins og hinar Gerplustúlkurnar með sölu á klósettpappír, vinnu og á annan hátt því styrkir hafa engir fengist. Það má síðan ekki gleyma því að Gerplustúlkurnar hafa tvö síðastliðin ár orðið nr. 2 á Evrópumeistaramótinu og þá hafa þær ekki komist á blað í þessu kjöri. Það þurfti sem sé Evrópumeistaratitil til að eftir þeim væri tekið. Helga Margrét er í skóla meðfram æfingum en ég veit ekki um sundstúlkuna. Ásdís Hjálmsdóttir sem komst ekki í topp tíu yfir íþróttamenn ársins er besta spjótkastkona á Norðurlöndum og í 22. sæti í heiminum. Hún komst í úrslit á EM í sumar og fékk boð um að keppa á mörgum demantamótum í sumar. Jafnframt þessu öllu er hún að ljúka meistaragráðu í lyfjafræði sem er ekki léttasta nám sem hægt er að finna. Samt sem áður kemst hún ekki í hóp þeirra tíu efstu þrátt fyrir ákvæði um að taka skuli tillit til eins og annars fyrir utan beinan mælanlegan árangur við kjörið. Strákurinn sem vann gullverðlaun á Ólympíuleikum í brettaíþróttum kemst ekki á blað. Þar dugði Ólympíumeistaratitill ekki einu sinni til að íslensku sérfræðingarnir myndu eftir honum. María Guðsteinsdóttir sem varð norðurlandameistari kvenna í kraftlyftingum kemst ekki á blað. Sölvi Geir, sem var kosinn besti leikmaðurinn í danska fótboltanum fyrir góðu ári síðan og skaut FCK í meistaradeildina rétt kemst á blað með ein 2 stig. Hvað hefur Grétar Rafn sýnt umfram Sölva? Ekkert það ég man nema að hann spilar í ensku deildinni.
Morgunlaðið ítrekar enn einu sinni þá skoðun sína að það lítur ekki á langhlaup sem íþrótt því frétt um kosningu um langhlaupara ársins er sett með fréttum af fiskigengd og einhverju álíka (með fullri virðingu fyrir fiskigengd). Það þykir hins vegar íþróttafrétt sem á mikið erindi tíl íslendinga að þjálfari í einhverju þýsku liði hafi verið rekinn.

1 ummæli:

Máni Atlason sagði...

http://www.fusijama.tv/blogg/spjald/Islenskir_korfuboltamenn_afrekudu_ekki_rassgat_a_arinu_2010/ hér er ágætis umfjöllun um þetta.