laugardagur, febrúar 19, 2011

Það hefur að mig innir aldrei komið fyrir að ég hafi verið sammála Feministafélaginu fram til þessa. Ég sá hins vegar nýlega ályktun sem félagið hafði sent frá sér varðandi staðgöngumóðurumræðuna. Ég get ekki annað sagt en að ég hafi verið sammála hverju einasta orði. Ekki veit ég hvort þetta þýðir einhverja stefnubreytingu hjá öðrum hvorum aðilanum en líklega er þetta bara tilviljun.

Ríkisvaldinu er skipt í þrennt. Löggjafarvald (Alþingi), framkvæmdavald (ríkisstjórn og ráðuneyti) og dómsvald (héraðsdómur og hæstiréttur). Hvor aðili á ekki að skipta sér af öðrum. Út á það gengur þrískipting ríkisvaldsins.
Hópur skrílmenna réðst inn í Alþingi fyrir um tveimur árum síðan. Hópurinn slóst þar við þingverði og lögreglu, lamdi fólk og beit. Eðlilega er svona framferði kært til dómsstóla. Það ræðst enginn inn í Alþingi með ofbeldi bara si svona. Hópurinn hefur réttlætt framferði sitt m.a. með því að segja að því hafi verið svo heitt í hamsi að það hafi mátt gera þetta. Lagt hefur verið að dómsmálaráðherra að hann grípi inn í framgang réttvísinnar með beinum pólitískum aðgerðum. Dómur féll fyrir nokkrum dögum. Sumir úr hópnum fengu skilorðsbundinn dóm en aðrir sekt. Sumir dæmdir sýkn saka. RUV gerði mikið númer úr dómsuppkvaðningunni, var með beina útsendingu frá réttarsalnum þegar dómur var kveðinn upp að því mér heyrðist og svo var sýnt frá dómshúsinu í kvöldfréttum sjónvarpsins. Þar var mikið drama á ferðinni. Dómskerfið vann altsvo vinnuna sína og lauk því sem að því var beint. Það er hins vegar ekki allt búið. Þingmenn hafa lagt það til að Alþingi biðji hópinn afsökunar á því að hann hafi verið kærður fyrir árás á Alþingi!! Forsætisráðherra og fjármálaráðherra tóku undir þann málflutning. Mann setur hljóðan þegar löggjafarvaldið og framkvæmdavaldið er farið að tjá sig á þennan hátt um dómsvaldið. Eru mörkin í þrískiptingu ríkisvaldsins að verða eitthvað óglögg? Saksóknari leggur fram ákæru. Dómurinn tekur hana til meðferðar eða ekki. Ef hún er tekin til efnislegrar meðferðar þá er felldur dómur. Þannig gengur þetta fyrir sig. Í tegnslum við fyrrgreind ummmæli er ekki hægt annað en að velta fyrir sér hvort sá aðili sem hellti rauðri málningu yfir eignir ýmissa útrásarvíkinga fyrir nokkrum misserum fái vægari dóm en ella ef hann segist hafa verið svo reiður að hann hafi ekki ráðið við sig. Það er vegið að réttarríkinu ef einstaklingarnir komast upp með að taka að sér framkvæmd ákæruvaldsins og dómsvaldsins.

Ég gaf leyfi til þess nýlega að í tímaritinu Ægi, sem fjallar um sjávarútvegsmál, væri birtur kafli af blogginu mínu þar sem ég er að skrifa um álit mitt á umræðunni um sjávarútvegsmál. Ég hef í sjálfu sér bara fengið góð viðbrögð við þessu. Mér hefur t.d. verið sagt að það sé til að ungt fólk sem kemur til náms til Rvk utan af landi og er úr fjölskyldum sem stundar útgerð sé hætt að þora að segja frá því hvaða atvinnu fjölskyldan stundar. Að stunda útgerð er í hugum margra eins og að fást við eitthvað misjafnt. Það er búið að tjúna upp slíka andúð á útgerð og útgerðarmönnum með síbyljunni um gjafakvóta, ofurgróða, svindl og svínarí að það er komið út yfir allan þjófabálk. Í blöðunum í morgun var skýrt frá ráðstefnu þar sem meðal annars var fjallað um hugtakið þjóðareign á náttúruauðlindum. Að mati þeirra sem gerst þekktu til lagalegrar túlkunar var niðurstaðan að þessi frasi væri tóm þvæla samkvæmt frásögn þar af.

Engin ummæli: