Það var stórfrétt í Mbl í morgun. "Jarðlestir gætu sparað tugi milljarða króna". Gætu já, mögulega kannski. Verkfræðideild Háskóla Íslands er byrjuð að öngla saman peningum til að kanna hagkvæmni fyrir 10 km jarðlest í Reykjavík sem á að kosta um 50 milljarða króna. Við þetta er ýmislegt að athuga. Ef menn finna einhversstaðar í heiminum stórt þorp eða smá borg eins og Reykjavík sem er með rúmlega 120 þúsund íbúa og neðanjarðarlestarkerfi þá væri það flott. Ef ekki, þá segir það þá sögu að þessi aðferðafræði hefur verið könnuð og ekki reynst hagkvæm. Varla trúi ég að menn ætli að fara af stað með sömu hagfræði að leiðarljósi eins og þegar síðast var rætt um lestarsamgöngur til Keflavíkur. Þá var fullyrt að lestin gæti borið sig ef fjárfestingarkostnaðurinn væri ekki reiknaður með.
Ég las einu sinni grein um rekstur hraðlestarinnar á milli Arlanda flugvallar og Stokkhólms. Í Stokkhólmi býr svona ein milljón manna. Engu að síður var gríðarlegur halli á rekstri lestarinnar. Það var talað um "The Suck of The Giant" þegar meðgjöfinni var lýst.
Forsvarsmaður verkefnisins segir að kostnaður af bílaflota landsmanna sé um 150 miljarðar króna á ári. Það kemur ekki fram hvort það sé eldsneytiskostnaður, allur rekstrarkostnaður eða allur rekstrarkostnaður með fjárfestingarkostnaði. Hann segir engu að síður að ef menn hætta að keyra í vinnuna og nota bílinn bara fyrir fjölskylduna um kvöld og helgar þá muni sparast um þriðjungur eða um 50 milljarðar. Þarna væri gangnakostnaðurinn kominn bara á einu ári!! Við þessa fullyrðingu er margt að athuga. Það mun einungis lítill hluti landsmanna geta notað þennan 10 km lestarspotta sem myndi líklega ná frá Mjódd niður í gamla miðbæinn. Ef á að tengja saman Grafarvoginn, Árbæinn, Breiðholtið við Miðbæinn og Vesturbæinn þá er það töluvert lengra kerfi en 10 km. Hvað myndi ríkið gera ef bensínnotkun myndi dragast saman um þriðjung? Ég er hræddur um að skattar myndu hækka töluvert á þá eldsneytisnotkun sem eftir væri til að fjármagna ríkisreksturinn og almennar vegaframkvæmdir.
Svo á ekki gleyma því að hlutirnir eru ekki svona einfaldir. Veður á stærstum hluta landsins er dæmigert úthafsloftslag, alla vega á Suð-Vesturhorninu. Þar skiptast á skin og skúrir, stormur og logn, rigning og þurrt veður, hiti og frost. Það er ekki sérstaklega þægilegt að þurfa að ganga eða hjóla langar leiðir til vinnu á veturna þegar alla veðra er von. Byggðin í Reykjavík er síðan mjög dreifð. Því verður ekki breytt svo glatt. Af þeim sökum verða almenningssamgöngur í borginni ætíð mjög dýrar því það er um svo svo fátt fólk um að ræða á hvern ekinn kílómeter. Það yrði því alltaf langt að fara í hverja tengistöð fyrir flesta nema bíllinn væri tekinn þangað. Þá myndi það kosta sitt í bílastæðum eða bílastæðahúsum. Strax og hreyfir vind eða snjó lenda þeir í vandræðum sem eru að bagsa við að hjóla á veturna. Ég er því hræddur um að þessi jarðlestahugmynd sé andvana fædd. Alla vega myndi ég ekki rjúka fram á fyrstu skrefum málsins og fullyrða að jarðlestarkerfi gæti sparað tugi milljarða á ári.
mánudagur, febrúar 14, 2011
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli