Ég skrifaði nokkrar línur um björgunarsveitir og þá sem bjargað er fyrir viku síðan og hef fengið tvö fín innlegg í því sambandi. Það er þakkavert þegar fólk ræðir málin á fræðandi hátt. Nú má enginn taka það svo að ég sé að gera lítið úr starfi björgunarsveita eða að telja þær óþarfar á nokkurn hátt. Slys og óhöpp af ýmsu tagi geta alltaf átt sér stað, jafnvel við bestu veðurfarslegar aðstæður. Þá er ómetanlegt að hafa möguleika á að leita liðsinnis velþjálfaðs fólks með góðan útbúnað. Eins getur fólk týnst af ýmsum ástæðum og þá er gott að hafa þennan bakhjarl tiltækan. Það sem er pirrandi hins vegar þegar verið er að kalla tugi eða hundruð björgunarsveitarmanna út með öllum þeim kostnaði sem því fylgir vegna aulaháttar eða hugsunarleysis þeirra sem þurfa svo á aðstoð að halda. Fólk ætlar yfir Sprengisand einbíla eða inn á hálendið og er jafnvel ekki með fjarskiptatæki með sér. Fólk fer í fjallgöngur eða gönguferðir inn í óbyggðir án þess að hafa áttavita eða GPS tæki með. Fólk strekkir inn á hálendi án þess að hlusta á veðurfréttir. Fólk breytir út af fyrirframákveðnum ferðaáætlunum á hálendinu án þess að láta vita af sér. "Þrautþjálfaðir" erlendir fjallgöngumenn lenda í vandræðum vegna þess að þeir þekkja ekki til íslensks veðurfars!! Þrautþjálfaðir fjallgöngumenn leggja sig í líma um að gera sér grein fyrir veðurfarslegum aðstæðum í löndum sem þeir þekkja ekki af eigin raun. Annars verður að draga það í efa að þeir séu "þrautþjálfaðir". Það vita allir þeir sem ætla að ganga yfir Grænlandsjökul að þar getur Piteraq skollið á þegar minnst varir. Þeir sem ætla yfir jökulinn verða að undirbúa sig undir að verstu möguleg veður geta skollið á ef þeir eiga að hafa möguleika til að lifa þau af. Ef ekki þá bjargar þeim enginn. Það vita allir sem vilja vita að það getur gert kolstjörnuvitlaust veður uppi á hálendinu og jafnvel niður í byggð. Það fer enginn nema viðvaningur í gönguferð inn á jökul um hávetur svo útbúinn að hann geti ekki bjargað sér á eigin spýtur. Ekki einu sinni með áttavita eða GPS. Núna er til örlítið miðunartæki sem heitir Depill. Ég var með það meðferðis til gamans þegar ég hljóp norður til Akureyrar í hitteðfyrra. Með slíkt tæki í för er hægt að miða viðkomandi nákvæmlega út á mjög einfaldan hátt. Slíkt tæki ætti að vera skyldubúnaður fyrir hálendisferðir að vetrarlagi. Þegar við félagarnir fóru í Artic Team Challange keppnina á Angmassaliq eyju á Grænlandi þá var gerð krafa fyrirfram um ákveðinn búnað. Í tvígang var tékkað á því að hver og einn væri með þann búnað sem við áttum að hafa tiltækan. Ef við hefðum reynt að fúska hefði okkur verið vísað úr keppninni. Það er eðlilegt að það séu ekki björgunarsveitir á okkar vísu á Grænlandi. Landið er svo gríðarlega stórt og fólkið er svo fátt. Því verður hver að bera ábyrgð á sjálfum sér þar í landi.
Maður veltir fyrir sér hvort eitthvað hafi verið tékkað á búnaði þjóðverjans sem þurfti að bjarga ofan af Eyjafjallajökli áður en hann og félagar hans héldu á Vatnajökul eins og þeir sögðust ætlaað gera. Eða var ekkert gert í þeim efnum? Hvernig er eftirlit með leiðöngrum sem ætla sér að ganga yfir hálendið um miðjan vetur? Hvaða kröfur eru gerðar til slíkra hópa? Hver hefur slíkt eftirlit á sinni könnu ef það er til staðar? Hvernig er eftirlit með þeim sem skipuleggja ferðir inn á hálendið og upp á jökla um hávetur? Hvaða kröfur eru gerðar til þeirra? Mér finnst að löggæslan og björgunarsveitir ættu að sammælast um að gera það sem hægt er til að draga úr útköllum. Þau kosta gríðarlega fjármuni og á stundum verða ósérhlífnir björgunarsveitarmenn að leggja sig í lífshættu við björgunarstörf. Mér finnst það alltof billegt að segja að starf björgunarsveita sé alltaf og eilíflega í boði hússins, sama hvað á gengur og sama hverskonar hugsunarleysi eða vanþekking sé á ferðinni hjá þeim sem þarf að bjarga.
Ég var úti í búð í vikunni. Þar heyrði ég viðtal við einn af helstu talsmönnum þess að beita fyrningaraðferðinni svokölluðu við innköllun á kvóta í sjávarútvegi svo hægt væri að leiga hann út til annarra. Kerfinu sem átti að taka við af hinu "illræmda" kvótakerfi var lýst sem svo að þá þyrftu þeir sem sæktu sjóinn ekki að kaupa sér aðgang að veiðiheimildum. Þess í stað myndu þeir geta leigt hann. Til viðmiðunar var síðan sagt að þetta væri alveg eins og að leigja sér íbúð í stað þess að kaupa hana. Só far só gúúd. Það sem gleymdist að segja var að þær íbúðir sem átti að leigja út hefðu verið teknar eignarnámi af þeim sem voru búnir að byggja þær eða kaupa og bjuggu í þeim. Þeim yrði hent á dyr og að öllum líkindum með skuldirnar með sér. Það bættust nefnilega engar nýjar íbúðir við á markaðinn. Að endingu var klykkt út með því að fullyrt var að í hinu nýja kerfi myndu allir fá að sækja sjóinn sem hefðu til þess vilja og getu en hefðu ekki haft tækifæri til þess fram til þessa.
föstudagur, febrúar 04, 2011
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli