mánudagur, febrúar 07, 2011

Skömmu eftir frjálsíþróttamót RIG leikanna, sem haldið var um miðjan janúar sl. skrifaði ég á þessa bloggsíðu að félögin sem stæðu að frjálsíþróttamótinu þyrftu að greiða RUV 300 þúsund krónur fyrir beina útsendingu af mótinu. Þá miðaði ég við kostnað við mótið 2010. Mig misminnti reyndar því upphæðin sem félögin þurftu að greiða var 225 þúsund krónur þegar upp var staðið. Þetta var hent á lofti af ýmsum og fór svo að tekið var smáviðtal við útvarpsstjóra RUV í Morgunblaðinu þriðjudaginn 18. janúar vegna þessa. Undirfyrirsögn fréttarinnar er: "RUV fær ekki greitt frá íþróttafélögum." Síðar segir: "Það er á misskilningi byggt að Ríkisútvarpið fái greiðslur frá íþróttafélögum fyrir umfjöllun um viðburði á þeirra vegum" segir Páll útvarpsstjóri og síðar er haft eftir honum: "'Í tilfelli fyrrnefnds íþróttamóts hafi það verið Síminn, Egils Kristal og Orkuveitan sem kostuðu útsendinguna" Nú veit ég ekki hvernig þeir reikningar eru formaðir sem RUV sendir út vegna þessa viðburðar en hitt veit ég að frjálsíþróttafélögin í Reykjavík (ÍR, Fjölnir og Ármann) greiddu 225 þúsund krónur til RUV í fyrra vegna beinnar útsendingar samkvæmt endanlegu kostnaðaruppgjöri fyrir mótið. Ég sendi tölvupóst til blaðamannsins sem skrifaði fréttina. Póstinum var ekki svarað. Ég hringdi í hann og fór yfir málið. Í framhaldi af því sendi ég honum afrit af uppgjöri fyrir mótið 2010 í tölvupósti. Tölvupóstinum hefur ekki verið svarað né fréttin frá 18. janúar verið leiðrétt. Ég kann því illa að vera sagður ósannindamaður í fjölmiðlum og enn verr kann ég því að fá ekki tækifæri til að koma leiðréttingu á framfæri. Ég hef óskað eftir því að fá afrit af þeim reikningum sem lágu að baki upphæðinni sem félögin greiddu vegna mótsins á árinu 2010. Einnig mun ég óska eftir því að allir reikningar verði lagðir á borðið ef félögin verða krafin um greiðslu vegna sjónvarpsútsendingar frá mótinu sem haldið var í janúar. Það kemur þá í ljós hver hefur á réttu að standa. Það er ákveðin aðferðafræði að reyna að bíta menn af sér með þvi að svara ekki og bregðast ekki við óskum um leiðréttingar á annan hátt. En ef það er eitthvað sem ofurhlauparar hafa nóg af þá er það úthald og þrjóska.

Ég setti epli út í trén í garðinum fyrr í vetur. Það eru ýmsir garðfuglar á ferðinni sem ég hef ekki séð en langar til að sjá. Í fyrstu bar lítið á því að þeim væri veitt athygli en svo fór að sjást að einhverjir höfðu goggað í þau á daginn. Þegar kólnaði fór aðsóknin að aukast. Svo bar tilraunin árangur. Þessi fína silfurtoppa var í garðinum í dag og gæddi sér sem ákafast á eplunum ásamt bústnum þresti. Þau voru ekki alveg saupsátt hvort við annað eftir því sem mátti merkja. Kötturinn stóð stífur af spenningi fyrir innan gluggann við að horfa á steikurnar fljúga um fyrir utan gluggann. Enginn hefur sagt honum að þessir fljúgandi hnoðrar séu ætir það ég best veit. Þegar honum var sleppt út seint um síðir þá reyndi hann að klifra upp í tréð þar sem eplin voru, líklega til að liggja þar í leyni þegar hnoðrarnir kæmu næst. Það gekk ekki nógu vel og hann komst fljótt í raun um að kettir eru ekki vel útbúnir til að klifra í trjám. Því varð hann að láta sér nægja að búa sér til leynistað í snjónum. Þar beið hann um stund en hundaðist svo inn þegar honum fór að kólna á klónum.

Engin ummæli: