Nú stendur Eurovision keppnin yfir á RUV. Þá er tilvalið að gera eitthvað annað á meðan. Mér fannst afar athyglisvert að RUV skuli hafa séð ástæðu til þess að lesa upp langhund eftir JÁJ í kvöldfréttunum þar sem hann hraunaði yfir Arion banka með allskonar fullyrðingum. Mér finnst það í hæsta máta bæði líklegt og eðlilegt að Arion banki hafi ekki tekið skuldabréf upp á milljaraða tugi til margra ára gilt sem greiðslu. Sporin hræða. Á hinn bóginn verður maður oft hissa yfir þeirri fréttastjórn sem þarna ræður ríkjum.
Ég hlustaði á spjallþátt á Rás 1 í morgun. Þar bar fjölmiðlamenn á góma. Gamalgróinn starfsmaður á MBL sagði að sín tilfinning væri eins og að fjölmiðlar væru fullir af sumarafleysingafólki. Flestöllu gamalgrónu og reyndu fjölmiðlafólki hefði verið sagt upp á þeim tíma þegar enginn var talinn vera nothæfur væri hann kominn af unglingsárum. Það er fróðlegt að horfa á "60 Minutes" í þessu sambandi. Í þessum spjallþætti kom fyrir enn einu sinni að það er orðið inngróið hjá mörgum að MAÓ hafi stutt sérstaklega við smáatvinnurekstur og smáfyrirtæki. Orðtakið "Látum 1000 blóm spretta" er gjarna haft um slíka hluti og vísað sérstaklega í MAÓ. Samkvæmt því sem ég hef lesið þá er þetta hreinræktað fals svo vægt sé í árina tekið. Á árunum eftir 1960 var orðin mikil óánægja með stjórnarfar MAÓ´s í Kína. Hungursneyðin hafði kostað ótrúlegan fjölda fólks lífið. Herinn var látinn loka héraðinu þar sem ástandið var verst svo fréttir bærust ekki út af því. MAÓ skynjaði að það þyrfti eitthvað að gera til að slá á óánægjuna. Hann hvatti því til opinnar gagnrýni á stjórnina. Nauðsynlegt væri að fá gagnrýnisraddirnar fram svo mætti heyra álit fólksins og bæta ástandið. "Látum 100 blóm spretta" sagði MAÓ og kallaði þannig gagnrýnisraddirnar fram. Fólk hélt að nú væru breyttir tímar og hóf að gagnrýna stjórnvöld undir nafni. Eftir að MAÓ var búinn að ná þeim á þennan hátt fram í dagsljósið sem voru óánægðir með stjórnarfarið þá lét hann drepa þá. Þannig gat hann hert enn frekar tök sín á þjóðinni í krafti óttans. "Látum 100 blóm spretta" og fjölgum smáatvinnurekstri í anda MAÓs!!!
Horðvirknislegir fjölmiðlamenn hafa ótrúleg áhrif á að gera málið lélegra og ruglingslegra. Eitt dæmi er hvernig hugtökum er ruglað saman og eftir nokkurn tíma veit enginn hvað er hvað. Í Mbl í morgun var sagt að hjón hefðu "sölsað um" þegar þau hættu atvinnurekstri í Reykjavík, fluttu til Prag og hófu að reka veitingahús þar í borg. Slík breyting heitir að "söðla um" bara svo að það sé á hreinu. Að "söðla um" er dregið af því að skipta um reiðtygi á hesti. Aftur á móti er það kallað að "sölsa eitthvað undir sig" þegar maður nær tangarhaldi á einhverju með bellibrögðum.
Það hlaut að koma að því. Eftir 20-25 þúsund kílómetra hlaup í nær sex ár án vandræða þá gerðist það. Ég, Jói, Stebbi og Hálfdán vorum á léttu skokki vestur á Seltjarnarnes í morgun. Rétt áður en við komum að Eiðistorgi fór ég að finna fyrir einhverjum skrattanum í vinstri kálfanum. Það hvarf ekki heldur fór versnandi. Þegar við komum niður á stíginn hinum megin niður við sjóinn var ég orðinn stinghaltur. Ég bað þá að halda áfram því ég gat ekkert hlaupið. Það endaði svo að ég gekk heim, stinghaltur. Ég hef annað hvort tognað eða lítill vöðvaþráður slitnað. Þetta þýðir hvíld í einhverja daga eða vikur. Það þýðir ekkert að láta þetta stressa sig heldur líta á björtu hliðarnar. Lán að þetta gerðist í febrúar en ekki í júní.
laugardagur, febrúar 12, 2011
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli