Myndin um staðgöngumæðrunina sem sýnd var í sjónvarpinu í gærkvöldi staðfesti í raun allt það sem ég var búinn að lesa og ímynda mér um þennan prócess. Þarna fékk maður smá innsýn í barnaverksmiðjur í Indlandi þar sem fátækar konur, sem notuðu þessa aðferð til að bæta hag sinn og fjölskyldunnar, voru eins og rollur í rétt og biðu. Maður getur rétt ímyndað sér hvernig sú bið var. Biðin var ekki eftir einhverju ánægjulegu og uppbyggjandi heldur eins og að fá greiðslu fyrir óþægindi og erfiði sem vonandi myndi gleymast sem fyrst. Egg frá Bandaríkjunum, sæði frá Ísrael og kona í Indlandi sem gegnir hlutverki útungunarvélarinnar.
Viðtalið við siðfræðinginn í kvöld í Návíginu var mjög fínt. Hún hafði greinilega velt þessu mikið fyrir sér og tók þá skynsamlegu afstöðu að í þessum efnum ætti ekki að rasa um ráð fram, heldur flýta sér hægt, grandskoða allar hliðar málsins og komast að lokum að skynsamlegri og yfirvegaðri niðurstöðu. Álitaefnin væru svo mörg og óleyst að það væri algerlega fráleitt að ganga frá frumvarpi um staðgöngumæðrun fyrir marslok að hennar mati.
Það var eitthvað annað að heyra í þingmanninum sem hefur haft frumkvæði um að leggja fram þingsályktunartillögu um að leyfa skyli staðgöngumæðrun hérlendis. Þar var aðferðin að brussast áfram, líta hvorki til hægri né vinstri og keyra málið í gegn um Alþingi án þess að skoða það að neinu gagni. Ef þetta eru dæmigerð vinnubrögð á Alþingi í fleiri málum þá fer maður að hugsa margt. Ég vona bara að svo sé ekki. Hvað ef sú staða kemur upp að það vill enginn eiga barnið sem kemur undir og fæðist á þennan hátt? Hver er ábyrgur í slíkum tilvikum? Ísland er fámennt. Ættu þau börn sem myndu fæðast á þennan hátt að vera skráð í þjóðskrá fædd af föður og hinni raunverulegu móður til að útiloka skyldleikagiftingar og svo einnig af uppeldismóðurinni? Ættu börnin að fá að vita um uppruna sinn? Hver er réttur barnsins í þessum efnum?
Reyndar sagði siðfræðingurinn að margt sem leitt hefur verið í lög hérlendis á liðnum árum og tengist þessum efnum væri illa og flumbrulega unnið. Það kemur mér ekki á óvart. Yfirleitt er prócessinn á þann hátt að einhver þrýstihópurinn keyrir upp hávaða og krefst svokallaðra úrbóta. Principlitlir þingmenn stökkva á málin í von um að það afli þeim vinsælda. Það er yfirleitt auðveldara að fleyta sér áfram með öldunni en synda á móti straumnum. Síðan er þetta keyrt áfram undir fána mannréttinda eða ég veit ekki hvað. Svona vinnubrögð gera náttúrulega ekkert nema koma í bakið á okkur síðar.
Þótt því sé haldið fram að það eigi einungis að leyfa staðgöngumæðrun hérlendis í velgjörðarskyni og án þess að greiðsla komi fyrir þá veit það hver maður sem hefur eitthvað milli eyrnanna að það er auðveldasti hlutur í heimi að komast fram hjá því. Ef Ísland mun opnast eins og einhver gátt hér í Evrópu í þessum efnum þá mun þrýstingurinn utan lands fara vaxandi á að þetta verði heimilit gegn greiðslu. Vilja menn það? Viðtalið við konuna sem hélt því fram að staðgöngumæðrun ætti að koma í stað meðgöngu hjá konum sem vilja ekki fæða börn vegna möguleika á skerðingar starfsframa eða ef það myndi sjást á skrokknum á þeim að hafa gengið með barn var vægast sagt óhuggulegt. Ef það verður framtíðin að vestrænir uppar senda frjógvuð egg í útungun hjá konum í Indlandi eða öðrum fátækum ríkjum þá verður gott að vera dauður.
Það er merkilegt að það hefur ekkert heyrst í feministafélaginu um þetta mál hérlendis. Alla vega ekki svo ég hef heyrt. Það hefur yfirleitt ekki vantað að það hafi haft skoðanir á hinu og þessu. Verði staðgöngumæðrun leyfð hérlendis þá sé ég engin rök fyrir því að banna vændi. Það væri alltaf hægt að kalla það aðstoð í góðgerðaskyni og svo væri hægt að redda þessu með greiðsluna.
þriðjudagur, febrúar 15, 2011
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli