fimmtudagur, febrúar 24, 2011

Það eru rúmlega 20 skráðir í 100 km hlaup sem haldið verður þann 11. júní í vor. Það er fín þátttaka. Fyrir þá sem eru að taka þátt í 100 km hlaupi í fyrsta sinn þá er töluverður munur á að hlaupa 100 km eða maraþon. Það er jafnvel töluverður munur á að hlaupa 100 km miðað við Laugaveginn. Það munar töluverðu hvort hlaupararnir eru 6-7 tíma á brautinni eða 10-12 tíma. Miklu máli skiptir að undirbúa sig vel, þá verður þetta ánægjuleg og eftirminnileg upplifun, sérstaklega fyrir þá sem eru að takast á við þetta markmið í fyrsta sinn. Hér eru nokkur hollráð til að hafa í huga við undirbúninginn fyrir utan stuðning af æfingaprógrömmum sem tiltæk eru.

1. Ráðlegt er að auka æfingamagnið rólega og helst ekki meir en 10% á viku.
2. Nauðsynlegt er að setja upp áætlun um nokkur löng hlaup sem eru þó töluvert styttri en hið fyrirhugaða langa hlaup. Það er gert til þess að láta reyna á hvernig er að borða og drekka þá næringu í löngum hlaupum sem fyrirhugað er að nota í fyrirhuguðu keppnishlaupi. Forðast skal að fara í einhverja tilraunastarfsemi í hlaupinu sjálfu.
3. Nauðsynlegt er að fylgja ákveðinni æfingaáætlun sem leyfir ákveðinn sveigjanleika út af því sem getur gerst vegna veikinda, meiðsla og persónulegra aðstæðna.
4. Byggðu upp metnað. Til að ná að ljúka ofurhlaupi þarf að byggja upp andlegan og líkamlegan styrk.
5. Náðu tengslum við reyndan hlaupara sem getur miðlað þér af reynslu sinni til að auðvelda þér að ná settu marki.
6. Að hlaupa ofurhlaup snýst að verulegu leyti um álagsstjórnun. Hluti af æfingaáætluninni er að byggja upp styrk til að geta tekist á við löng æfingahlaup og flýta endurheimtu (recovery). Nauðsynlegt er að hlaupa löng hlaup eftir samlokuformi (dag eftir dag). Það byggir upp hæfni til að takast á við löng hlaup þar sem líkaminn er varla búinn að ná sér eftir fyrri daginn þegar takast þarf á við seinna langa hlaupið. Blandaðar æfingar henta vel aðra daga vikunnar svo sem hraða æfingar, brekkuæfingar og styttri hraðari hlaup.
7. Reyndu að kynna þér fyrirhugaða hlaupaleið. Til að eiag auðveldara með að halda einbeitingu í hlaupinu er gott að þekkja hlaupaleiðina vel. Það kemur í veg fyrir óvænt atvik í hlaupinu sjálfu.
8. Nauðsynlegt er að minnka æfingaálagið verulega og hvílast vel síðustu vikurnar fyrir hlaupið. Það gefur líkamanum möguleika á að ná sér að fullu eftir erfiðar æfingar undanfarnar vikur. Það er mögulegt að menn þyngist aðeins en það er bara kostur því líkaminn þarf að geta unnið kolvetni (glycogen) úr líkamanum. Það er eldsneytið sem knýr vöðvana áfram þegar út í hlaupið er komið.
9. Í fyrsta ofurhlaupinu er nauðsynlegt að skipuleggja hlaupið vel og leggja út með fyrirfram ákveðinn hraða til að geta haft undirtökin alla leið. Hlauptu þitt eigið hlaup en ekki annarra.
10. Við erfiðar æfingar skaltu hlusta vel á líkamann. Ef æfingarnar eru að verða of erfiðar er nauðsynlegt að hægja á. Annars eru líkur á að meiðsli fari að gera vart við sig.
11. Undirbúðu hlaupið vel hvað varðar allan fatnað, skó, næringu og búnað sem skal nota í hlaupinu. Huga skal vel að allri næringu því það er ekki hlaupið út í búð þegar af stað er komið. Nauðsynlegt er að geta varist bæði sól og regni. Skipuleggja þarf útsendingu á drykkjarstöðvar ef um það er að ræða. Ekki leggja af stað í nýjum skóm og ekki heldur í of gömlum skóm. Vegna þess að fæturnir þrútna í mjög löngum hlaupum er nauðsynlegt að vera í skóm sem eru ca 1/2 númeri stærri en vanalega.

Engin ummæli: