Ég var að ljúka við að lesa bókina "Hreinsun" eftir Sofi Oksanen. Sofi er ein af fremstu rithöfundum yngri kynslóðarinnar í Finnlandi. Hún er af eistneskum ættum. Bók hennar "Hreinsun" fjallar um örlagasögu systra í Eistlandi fyrir, í og eftir seinna stríð. Inn í þá sögu fléttast saga þriðju kynslóðarinnar sem kemur frá Vladivostok í leit að betri heimi í Vestur Evrópu. Önnur systirin er send í Gúlagið með unga dóttur sína vegna falskrar ákæru hinnar systurinnar. Sagan er mögnuð á margan hátt. Hún lýsir bæði ákveðnu fjölskyldudrama eða réttara sagt harmleik en einnig og ekki síður sögu hersetinnar þjóðar sem lifir undir oki erlends ríkis. Þessi bók ætti að vera skyldulesning fyrir alla þá sem hafa litið til Sovétríkjanna og kommúnismans með glampa í augum.
Ég hef tvisvar komið til Eistlands, dvalið í Tallin í bæði skiptin en einnig komið út fyrir borgina. Í fyrri ferðinni hittum við forsetann meðal annarra. Í þeirri ferð spjölluðum við mikið við túlkinn sem var kona heldur yngri en ég. Hún lýsti fyrir okkur daglegu lífi í Eistlandi undir Sovétríkjunum. Það er náttúrulega eitthvað sem enginn getur ímyndað sér nema sá sem hefur upplifað það. Í skóla lærði maður í runu að Eystrasaltslöndin hétu: Eistland, Lettland og Litháen en annað vissi maður ekki. Sovétríkin unnu markvisst að því að útrýma þessum þjóðum með markvissum tilflutningi rússa til landanna og allskonar undirokun. Engu að síður lifði þjóðarvitundin góðu lífi undir niðri og braust síðan út fyrir um tuttugu árum síðan. Það er náttúrulega stórkostlegur hlutur að smáþjóð eins og Ísland skyldi verða til þess að brjóta ísinn fyrir þau með því að viðurkenna fyrst þjóða fullveldi þeirra.
Ég skil vel að rithöfundurinn Sofi skyldi í haust svara með snúð einhverri sjálfbirgingslegri fréttastelpu þegar hún fór að spyrja einhverra blaðurspurninga. Sá sem skrifar svona sögu, þekkir sögusviðið og jafnvel persónurnar sem sagan byggir á nennir ekki að hlusta á blaður.
Þegar ég bjó í Svíþjóð fyrr rétt um þrjátíu árum síðan þá kynntist ég strák sem hét HP (Hans Petter) Burman. Hann var eitthvað að stúdera í Uppsölum en mest var hann í músíkinni. Hann var bæði músík- og málaséni. Hann var þekktur fyrir það að hafa lært jämskuna svo vel að hann talaði hana betur en heimamenn. Hann hafði gefið út tvær plötur með hljómsveitinni Harrda Ku Harrda Geit. Ekki veit ég hvað það þýðir en það er eitthvað um kú og geit. Þekktasta lagið sem hann hafði sungið á plötu var lagið Jämtlandstaus sem er hylling til jämskra stúlkna. Honum hefur vafalaust fundist íslendingarnir hæfilega skrýtnir til að geta slugsað svolítið með þeim. Hann hafði gaman af að heyra íslenska tónlist og ég þýddi nokkra texta af herstöðvaandstæðingaplötunni á sænsku fyrir hann. Það var alltaf gaman að hitta HP svona af og til. Ég hef síðan ekkert af honum heyrt frá því ég fór frá Uppsölum. Fyrir skömmu datt mér í hug að skanna hann á youtube og viti menn. HP birtist þar sprelllifandi. Enn að syngja með gamla bandinu, orðinn svona 50 kílóum feitari, búinn að missa hárið að töluverðu leyti en engu að síður var gamli HP þarna mættur. Gaman að því.
föstudagur, febrúar 11, 2011
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli