Forsteinn vísaði Icesave samningunum í þjóðaratkvæði í dag við mismikil fagnaðarlæti. Sumir létu það frá sér fara að þetta væri einræðistilburðir og ég veit ekki hvað. Það er hins vegar svo merkilegt að þeir sem eru fúlastir út af ákvörðun forsetans í dag eru einmitt sama fólkið sem fór hamförum árið 2004 um að krefjast þess að forsetinn hafnaði því að skrifa undir fjölmiðlalögin og vísa þeim í þjóðaratkvæði. Undirritaður var einn af fáum sem var hlynntur fjölmiðlalögunum því þróunin í eignarhaldi á fjölmiðlum eins og hún var á þeim tíma var orðin stórhættuleg. Það kom síðan berlega í ljós. Það er alþekkt að þeir sem eiga mikið undir í viðskiptum og tefla oft djarft á því sviði þurfa að hafa tangarhald á fjölmiðlum til að geta tryggt sér góða pressu.
Nú er orðinn plagsiður hjá ákveðnum þjóðafélagshóp að djöflast í Hæstarétti vegna þess að hann dæmdi stjórnlagaþingskosningaklúðrið ómerkt. Það er inni hjá vissum hópum að tala Hæstarétt og gildi hans niður með öllum tiltækum aðferðum. Umræðan er oft eins og ég veit ekki hvað, jafnvel hjá fólki sem maður gerði að óreyndu ráð fyrir að vissi betur. Ég sá t.d. þessleiðis skrif um að því að sami stjórnmálaflokkur hérlendis hefur farið lengi með dómsmálaráðuneytið var líkt saman við stjórnkerfið í Sovétríkjunum. Að mínu mati ættu menn sem slíkt skrifa í besta falli að kunna að skammast sín. Í Sovétríkjunum ríkti fasískt einræði undir stjórn kommúnista í rúm 70 ár. Þeir héldu völdum með tilstyrk hersins og öryggislögreglunnar KGB. Almenningur var kúgaður með hervaldi og bjó áratugum saman í skugga óttans. Milljónatugir voru fluttar í þrælabúðir og / eða drepnar.
Í Íslandi var lýðræðisleg flokkaskipan til staðar stærstan hluta síðustu aldar. Almenningur kaus í almennum leynilegum kosningum til sveitarstjórna og alþingis. Þjóðin öðlaðist fyrst fullveldi og síðan sjálfstæði. Þeir flokkar sem fengu mest fylgi fengu flesta þingmenn, a.m.k. eftir að kjördæmaskipanin breyttist. Alþingismenn mynduðu ríkisstjórnir hvers tíma með einni undantekningu. Þeir flokkar sem stóðu að ríkisstjórnun skiptu með sér ráðherraembættum. Sú skipan byggðist á samkomulagi milli viðkomandi flokka. Áherslur einstakra flokka varðandi ráðherraembætti hafa vafalaust verið eitthvað mismunandi. Því er það að líkja saman þeirri aðferð sem ráðherrar voru valdir eftir í Sovétríkjunum og hér á Íslandi svo fyrir austan sól og sunnan mána að ég veit ekki hvernig er hægt að hafa það lengra úti í fjarskanum.
Í kvöld var löng fréttaskýring í RÚV um þróun atvinnumála í þorpunum vestur á fjörðum. Kvótakerfinu og frjálsu framsali var kennt um þróun mála þar á liðnum áratugum. Ég veit ekki hvernig er hægt að fjalla um þessi mál og stöðu þorpanna án þess að minnast á það einu orði að hérlendis voru fiskaðar um 400 þúsund tonn af bolfiski þegar kvótakerfið var sett á en nú má veiða um 160 þúsund tonn. Heldur fólk virkilega að þess sjáist hvergi merki?? Það er ekki hægt að kalla svona lagaða nálgun annað en að það sé gróflega skautað fram hjá grundvallaratriðum svo ekki sé tekið dýpra í árinni. Vitaskuld hefur maður áhyggjur af því hvernig samfélögin hafa þróast víða á landsbyggðinni á liðnum áratugum. En að kenna kvótakerfinu um allt sem miður hefur farið er náttúrulega bara bull. Mér var sagt nýlega að fyrir ca 15 árum þegar var farið að frysta loðnu í frystihúsinu austur á Neskaupstað þá voru fryst svona 40 tonn á sólarhring. Við frystinguna unnu um 40 manns og því var fryst um eitt tonn fryst á hvern mann sem vann við frystinguna. Nú frystir frystihúsið um 400 tonn á sólarhring og við það vinna um 20 manns. Afköstin á mannshöndina hafa tuttugufaldast. Heldur fólk virkilega að þessa sjái hvergi merki? Er þetta kvótakerfinu að kenna? Í fréttaskýringunni var sagt að kvótanum hefði í upphafi verið úthlutað til hóps útvaldra. Ég er kannski farinn að gleyma en mig minnir að við upphaf kvótakerfisins var því magni fiskjar sem mátti veiða úthlutað á þær útgerðir sem höfðu stundað sjó á ákveðnu árabili. Kvótaúthlutunin var skerðing á möguleikum útgerðanna til sóknar frá því sem verið hafði. Þessum tíðindum var ekki tekið með neinni ánægju og mér er til efs að útgerðamenn þess tíma hafi talið sig til neinnar forréttindastéttar við að fá að veiða minna það ár en þeir gátu veitt árið áður.
sunnudagur, febrúar 20, 2011
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
Ég skil ekki fyllilega þessa söguskýringu sem margir halda á lofti að seðlabanki og eftirlitsstofnanir hafi ekki getað sinnt hlutverki sínu vegna gallaðrar löggjafar um fjölmiðla. Er ekki líklegra að það hafi vantað í löggjöfina um stofnarnar sjálfar?
Eða að stofnanirnar hafi ekki starfað skv. þeim lögum sem þær áttu að fylgja. Það þarf allavega að skýra betur fyrir mér hlutverk fjölmiðla og eigenda þeirra í rekstri seðlabanka og eftirlitsstofnanna til að ég geti fallist á hana.
Skrifa ummæli