laugardagur, júlí 22, 2006

Blöðin eru oft misjöfn. Jafnlélegast er þó Blaðið þar sem sjaldnast er eitthvað bitastætt að finna nema pistla Kolbrúnar. Nú í morgun var einn pistlahöfundur Blaðsins svo smekklegur að leggja að jöfnu (eða svo var ekki annað hægt að skilja) átak til að sporna við gengdarlausri fjölgun sílamávs innan marka höfuðborgarinnar og upphaf á flutningum gyðinga í útrýmingarbúðirnar í Treblinka í seinni heimstyrjöldinni. Ætli þessi ágæti maður viti ekki um aðgerðir meindýraeyða um allt land gagnvart rottum? Ég held að hann ætti að kynna sér það betur. Þá finnur hann loks eitthvað bitastætt.

Í gær skrifaði maður grein í Moggann sem var að flytja heim frá London um fréttaflutning hér heima að ýmsum uppákomum íslendinga sem hann hefur verið vitni að í heimsborginni. Oft var fréttaflutningurinn þannig að hann þekkti ekki aftur það sem hann átti að hafa séð. Það er nefnilega þannig að það eru býsna margir Garðarar Hólm á ferðinni út um allt sem láta flytja af því digrar fréttir hér heima hvílíkar undirtektir þeir hafa fengið á erlendri grund. Það er oft betra að vera stór önd á litlum polli en lítil önd á stórum polli. Þetta fær mann til að hugsa um trúverðugleika fjölmiðla yfirleitt og hve mikil áhrif þeir geta haft á almenningsálitið. Ein jafnlélegasta hljómsveitin sem ég hef heyrt í er Nylon. Það hafa borist miklar fréttir af framgangi hennar á erlendum vettvangi hingað heim og er vonandi að það gangi eftir sem ætlað er með hana. Mikið er gert úr því að hún hafi verið upphitunarsveit fyrir sér miklu frægari hljómsveit og Nylonstúlkur séu á barmi heimsfrægðar vegna þess árangurs. Þegar ég hef farið á konserta þar sem upphitunarhljómsveit hitar upp þá er (var) kúnstin oft sú að hafa hana lélega og hljóðfærin illa stillt til að kostir aðalbandsins nytu sín betur. Þetta er kannski breytt.

Sá lesendabréf í Mogganum í gær frá aldraðri konu sem var annars vegar að bera saman aðstæður ýmissa aldraðra sem hún þekkti og sem dvelja á stofnunum og hins vegar aðstæður fanga á Hrauninu og á Kvíabryggju. Sá samanburður var öldruðum ekki hagfelldur. Ýmsum glæpamönnum frá fyrrum Austur Evrópu finnst fangeslisvist hér vera hrein hóteldvöl viðað við það sem þeir áttu að venjast heima hjá sér. Það er náttúrulega mikið umhugsunarefni ef dæmdum glæpamönnum er búinn betri kostur og betra viðurværi en mörgu því fólki sem er búið að leggja líf sitt og heilsu til samfélagsins og hélt að það gæti lifað tiltölulega áhyggjulaust ævikvöld. Glæpamennirnir hafa meðp einbeittum brotavilja lagt sitt af mörkum til að brjóta niður samfélagið og skemma það á meðan þeir öldruðu hafa flestir verið í uppbyggingardeildinni. Það er best að alhæfa ekki í þessu sambandi en engu að síður er áhugavert að setja hlutina í þetta samhengi.

Engin ummæli: