föstudagur, júlí 07, 2006

Það er ekki oft sem maður er rændur en þó kemur það fyrir einstaka sinnum. Það gerðist síðast um daginn þegar við fórum norður á Sauðárkrók á fótboltamótið ágæta. Þá stoppuðum við í Staðarskála til að teygja úr okkur og fá okkur snarl. Maríu langaði í hamborgara og það var spurt um hamborgara. Jú við erum hér með hamborgara, franskar og kók á tilboði var svarað. Samningar tókust, hamborgarinn kom með smávegis af frönskum, kókglasi og majonessallati í smá plastdollu. Ekki sérlega kræsilegur kostur. Þegar ég borgaði þá féll mér allur ketill í eld. 1.200 kall kostuðu herlegheitin. Mér þótti þetta dýrt en það var ekki við neinn að sakast nema sjálfan mig þar sem ég hafði ekki spurt um verðið og svo sá ég síðar að verðið var set upp á skilti. Í sjoppunni á Sauðárkrók var samskonar kostur (hamborgari, franskar, sallat og glas af kók)á tilboði á 750 kall.

Íslesku vegasjoppurnar eru einhverjir þeir verstu staðir sem maður getur hugsað sér að fara að til að fá sér að borða. Það er hægt að verja að fara inn í þær þar sem verslun er einnig á staðnum þar sem hægt er að kaupa sér ávexti eða eitthvað annað en þennan hundamat sem framreiddur er upp úr feitipottunum og af steikarpönnunni. Þó hefur þetta ögn batnað. Í fimm sumur í röð fyrir nokkrum árum fórum við nokkrir saman í gönguferðir norður á Hornstrandir. Þá bjó ég fyrir norðan og við hittumst yfirleitt í Brú í Hrútafirði og fengum okkur að borða þar áður en lagt var í hann norður Strandir. Einu sinni spurði ég hvort það væri til skyr. Stelpan í afgreiðslunni hló að svona bjánalegri spurningu; skyr nei það var ekki til. Brú er vegasjoppa í miðju landbúnaðarhéraði en svona var viðhorfið þá. Nú er þó yfirleitt hægt að kaupa sér skyr í sjoppunum og hangikjötssneiðin sem ég keypti í Staðarskála á leiðinni norður var einnig ágæt. Ég stoppaði hins vegar ekki þar á leiðinni til baka.

Það var rætt um offitu í sjónvarpinu um daginn. Talað var við gamalgróinn næringarfræðing sem hefur verið nokkursskonar Múhameð næringarfræðinnar á landinu í áraraðir. Hún sagði að fólkið væri að fitna og var ekki lengi að fara að sjúkdóma væða þessa þróun. Talaði um sjúkdóm og meðferðir gegn honum o.s.frv. o.s.frv. Nú veit ég að átraskanir eru mjög alvarlegur sjúkdómur og ætla ekki að gera lítið úr því eða afleiðingum hans. Fjarri mér. En obbinn af því fólki sem er að berjast við aukakílóin, sérstaklega það unga, getur ekki kennt neinu öðru um en óhollu mataræði, of miklum mat og hreifingarleysi. Það á ekki að sjúkdómavæða slíka hluti heldur hafa uppi umræðu um afleiðingar þess ef ástandið verður óbreytt, reka áróður fyrir hollara mataræði og tala gegn óþverranum sem seldur er sem matur. Mér finnast áherslur næringarfræðingsins gegnum tíðina hafa verið heldur skrítnar. Hér áður var fitan, hverju nafni sem hún nefndist, talin vera rót alls ills. Ég er ekki að mæla því bót að éta fitu í einhverju óhófi en það er margt verra. Ég man eftir því þegar elsti strákurinn kom heim úr leikskólanum einn daginn og taldi allt að því verið að eitra fyrir sig ef sást ljós arða á kjötinu. Það hefur lengi verið einhver fóbía í gangi gagnvart fitu á meðan kolvetnin hafa syglt lygnan sjó. Ég er á þeirri skoðun að ef fólk borðar ruslfæði og drekkur gos úr hófi fram sé það í miklu verri málum hvað kílóin varðar heldur en ef það sést ljós arða á kjötbita. Síðan er náttúrlega ekki nokkur hemja að það skuli liggja við að sælgætinu sé troðið upp í krakkana þegar maður er í biðröðinni við afgreiðslukassana í matvörubúðunum. Eins og óhollustunni, sælgæti og gosi er haldið að krökkum og unglingum þá er ekkert skrítið við það að meðalþyngdin sé á hraðri uppleið.

Fór til Vestmannaeyja í gær. Gott veður og gaman að fara um eyjuna. Það eru nokkur ár síðan ég hef komið þangað og það er vel þess virði að gera það af og til. Það vreður hrein bylting á samgöngum við eyjar þegar fyrirhuguð ferjuhöfn í Bakkafjöru verður að veruleika. Þá tekur siglingin út svona 30 mínútur. Þá er hægt að skreppa til Vestmannaeyja með fjölskylduna án þess að þurfa að spara sérstaklega fyrir fargjaldinu áður.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Sammála þér um ruslfæðið, er ekki undarlegt að sundlaugarnar eru nánast án undantekningar, eingöngu að bjóða uppá sælgæti. Þar eru engir ferskir ávaxtasafar, eða ávextir nú eða góðir næringardrykkir.
kv Jón Kr.