miðvikudagur, júlí 12, 2006

Það er voða gott að vera í fríi hér í Horsens. Maður slúðrar við vinafólk sitt um liðna daga, um nútíðina og framtíðina, maður gerir ekki neitt og síðan sér maður sitthvað sem maður hefur ekki séð áður. Í gær skruppum við til Árósa og tókum smáþverskurð af bænum. Ég get varla sagt að ég hafi komið þangað áður af neinu viti. Fór út að hlaupa þegar heim var komið. Þá var sólin farin að skína og veðrið eins og best getur verið. Það er hreint eftirlæti að fara út að hreyfa sig hér í góða veðrinu, brekkurnar seigar og hægt að fara eins og hugann lystir út og suður. Hringdi í Halldóru í morgun og pantaði mjólkursýrumælingu. Hún sagði að vísindasiðanefnd hefði ekki leyft henni að taka eldri fugla en fimmtuga í svona mælingu því menn eru píndir til hins ítrasta í prófinu. Þeir sem eru yfir fimmtugu falla líklega undir dýraverndunarlög. Engu að síður fæ ég að mæta n.k. miðvikudag. Gaman verður að sjá útkomuna. Fóru í dag með Jóni, Soffíu og krökkunu í Djurs Sommerland vestur af Árósum. Það var hin besti dagur, veðrið alveg passlegt og mikið að eftirsóknarverðum tækju fyrir þau yngri. Rússíbanar hafa einhvern veginn ekkert svakalegt aðdráttarafl á mig lengur en það er gaman að sjá krakkana koma úr honum upptendraða af ánægju yfir hasanum. Lífið er náttúrulega einn rússibani eða konfektkassi eins og Forest Gump segir. Er að grípa í bókina á dönsku og hún er töluvert öðruvísi en myndin. Mæli með hvorutveggja.

Engin ummæli: