Þegar við vorum inni í Kringilsárrrana á föstudaginn gengum við fram á hræ af hreindýrstarfi sem var því sem næst ekkert nema beinagrindin. Hræin í Rananum liggja óhreifð þar sem tófan kemst ekki inn á friðlandið (ekki nema að hún taki kláfinn). Því er beinum hræa ekki rótað út og suður heldur liggja þau bara þar sem dýrin leggjast fyrir og grotna þannig niður. Hræið sem við gengum fram á var nokkuð fyrir ofan gönguleiðina inn Ranann að austanverðu en nokkuð fyrir neðan væntanlegt vatnsyfirborð svo ekki hafði verið áttt við það. Krónan á dýrinu hafði verið glæsileg og því hirtum við hausinn með okkur og fannst það ekki tiltökumál þar sem hann myndi hvort sem er lenda undir vatni innan tíðar.
Ég sat síðan í bílnum á föstudagskvöldið fyrir norðan og var að hlusta á kvöldfréttirnar. Hornin af tarfinum fyrrverandi lá fyrir framan bílinn. Þá vissi ég ekki fyrr en að það stóð maður við bíldyrnar. Hann var í lopapeysu með íslenska fánann blaktandi upp úr bakpokanum. Ég opnaði dyrnar og þá spurði hann formálalaust: "Tókst þú hornin þarna?" "Já" sagði ég. "Ég hefði látið þau liggja" sagði hann. Ég var augnabliki frá því að hreyta í hann skætingi um að honum kæmi lítið við hvað þótt ég héldi á hornum af hræi með mér úr Rananum en hætti við það þar sem ég hafði einu sinni talað við manninn áður. Ég heilsaði honum og spurði hvort ég þekkti hann ekki rétt og kynnti mig. Svo tókum við tal saman um gönguferð okkar í Ranann og í ljós kom að hann hafði gengið fram á eitt af fjöldamörgum hræum í Rananum og ákveðið að láta hornin liggja. Hann hafði síðan haldið að ég hefði gengið í spor hans og hirt krúnuna. Eftir að við höfðum kvaðst þá fór ég að velta vöngum yfir þessum svokölluðu umhverfisverndarsinnum og afstöðu þeirra. Hvað á maður að halda þegar maður hittir fólk sem arkar um öræfin með íslenska fánann upp úr bakpokanum í þeirri fullvissu að það sé betra en annað fólk? Ég ber fulla virðingu fyrir fólki sem vill standa vörð um náttúruna innan þeirra marka sem skynsamleg eru en mér leiðist helvítis hrokinn og sjálfbirgingshátturinn. Mér finnst það vægast sagt ósmekklegt og dónalegt af þessum náunga að rjúka að manni sem hann þekkti ekki neitt og fara að gera athugasemdir við að haldið sé á hornum af dauðu hreindýri burt af svæðinu. Sú mikla umferð fólks sem hefur verið um Kringilsárrana eftir að kláfurinn var settur upp skaðar svæðið og griðland dýranna miklu meira. Ég á náttúrulega ekkert meiri rétt en aðrir til að fara um þetta svæði og það var þægilegra að nota kláfinn heldur en að ganga inn á jökul. Ég held hins vegar að það ætti að íhuga vandlega hvort eigi að setja kláfinn upp aftur eftir að vatn er búið að færa núverandi stæði hans á kaf til að viðhalda griðlandinu eins og það var.
Hvað umhverfisverndarsinnana varðar þá varð umræðan um Vatnaleið á Snæfellsnesi til þess að ég fór að setja verulegt spurningarmerki við málflutning þeirra og tek honum með fyrirvara að óreyndu. Þá heyrði maður í fjölmiðlum að vegaframkvæmdir á Vatnaleið voru fordæmdar af sjálfskipuðum umhverfisverndarmönnum sem mikil umhverfisspjöll. Maður kreppti hendurnar ósjálfrátt í vösunum og bölvaði vegagerðinni í huganum fyrir jarðvöðulshátt. Þetta viðhorf breyttist verulega þegar ég fór þennan veg í fyrsta skipti. Vegurinn á Vatnaleið er ákaflega snyrtilega úr garði gerður, engar uppýtingar eins og áður tíðkaðist heldur var veginum alfarið keyrt út. Hann féll vel inn í umhverfið, bætti vegasamgöngur og opnaði aðgengi fólks að fallegu svæði á Nesinu. Eftir þetta hef ég haft fyrirvara á málflutningi umhverfisverndarsinna og vil skoða hlutina sjálfur áður en ég móta mér skoðun. Ég efa t.d. ekki að landið sem höfuðborgin og nærsveitir standa á hefur haft sitthvað til síns ágætis þegar það var ósnortið en einhversstaðar verða vondir að vera.
Ég get rifjað upp fyrir hvað fyrrgreinds fánabera er helst minnst úr síðasta kennaraverkfalli en læt það ógert í bili.
mánudagur, júlí 31, 2006
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli