Fór 11 km túr í gær með góðum hraðasprettum. Tók þrjá leggi frá 0,8 - 1,4 km á 4.10 til 4.20. Það er venju frekar hratt fyrir mig því ég hef ekki lagt áherslu á hraðaæfingar neitt sem heitir undanfarin ár. Það er náttúrulega rugl en maður hefur frekast freistast til að fara langt að undanförnu. Þetta var fínt og lauk túrnum vel undir 4 mín á km. Sumarið verður notað til að ná upp hraða. Það ætti að ganga betur eftir því sem kílóunum fækkar. Þau hafa heldur látið á sjá eftir að mataræðinu var kippt í liðinn. Hitti Stefán Örn á keppnishjóli og í keppnisbúning og alles. Þeir félagarnir fara til Grænlands eftir ca 10 daga. Gaman verður að fylgjast með þeim.
Hitti síðan félaga Jóa uppúr 7.30 í morgun. Ræddum ýmislegt varðandi sex tíma hlaupið í september. Jói er fullur af áhuga og heitir öflugum stuðning. Stefnum að fundi í félaginu í ágúst þegar menn eru farnir að tínast úr sumarfríi. Þar verður verkum skipt og farið yfir praktiska hluti. Hitti Halldór í morgun rúmlega 8. Fórum í Kópavoginn og tókum 3 brekkuspretti, tröppurnar, HK brekkuna og eina enn þar fyrir austan sem Halldór hafði grafið upp. Fínasti dagur. Gaman að vera farinn að snúast í gang eftir eftir rólegan júní.
Sá í sunnudagsmogganum að Boot Kamp strákarnir voru búnir að fá alveg nóg eftir 75 km. Að fara 100 km lítt undirbúinn er eins og að fara í maraþon og hafa lengst skokkað 10 km. Ef illa tekst til getur svona lagað skemmt lappirnar. Ætli þetta hafi verið hjá þeim eins og enski strákurinn sagði í lestinni í vor þegar ég spurði hvernig hlaupið hefði gengið. "It was horrible, after 25, every step was in pain".
Það má í þessu samhengi minna á það að Svanur Bragason, sextugur erfiðismaður, hljóp 100 km á Ítalíu á 10.57 fyrir tveimur árum. Það hlaup var drottning fjallahlaupanna Del Passatore. Þar er yfir fjall að fara sem er hærra en Esjan og fyrsti þriðjungur hlaupsins var hlaupinn í 30 stiga hita. Það er hægt að segja með réttu að Svanur hinn sextugi hafi HLAUPIÐ 100 km. Siggi Gunnsteins, annar sextugur hlaupari, kláraði sama hlaup á rúmum 13 klst örfáum árum fyrr. Þetta eru alvöru menn.
laugardagur, júlí 08, 2006
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli