laugardagur, júlí 01, 2006

Það var ekki laust við að maður væri svolítið spenntur í morgun þegar maður vaknaði. Þá voru Lapplandsfararnir samkvæmt klukkunni að koma í mark ef allt hefði gengið vel. Ekkert var hins vegar að frétta á netinu. Ég fór því út um kl. 7.30 til fundar við Halldór á Kringlubrautarbrúnni. Við ákváðum að taka Gróttuhring sem átti að verða rúmir 30 km. Veðrið var eins og best var á kosið og margir á ferli. Gaman var að hitta Elísabetu Sólbergsdóttur á hlaupun. Hún veiktist mikið og hættulega fyrir tveimur árum rétt eftir að hún lauk glæsilegu maraþoni í Amsterdam að því mig minnir (3.15). Maraþonhlaupið var barnaleikur sagði hún samanborið við átökin við að ganga upp tröppurnar heima hjá sér eftir veikindin. Nú er hún komin á gott skrið að sjá og er vonandi að allt sé orðið eins og það á að vera. Heim var komið eftir 33 km og þá voru komnar fréttir á síðu forsetans. Öll fjögur skiluðu sér í mark í Lapplandi með miklum sóma og Elín fyrst af þeim fjórum. Ekki nóg með það heldur sigraði hún í kvennaflokki. Glæsilegt í einu orði sagt. Hún er mikill nagli var Pétur Franz búinn að segja mér. Ég geri ekki ráð fyrir að hún hafi farið fram á jákvæða mismunun kynjanna í þessu hlaupi heldur hafi hún náð þessum árangri á eigin kröftum og styrk. Einnig má minna á að það er flott hjá Pétri og Gunna að hlaupa 100 km á fínum tíma eftir að hafa hlaupið maraþon á Mývatni fyrir réttri viku síðan. Til hamingju öll sömul.

Ég sá mér til ánægju að Mogginn birti frétt um árangur þeirra á vef sínum. Það verður gaman að sjá undir hvaða fréttaflokk þetta verður sett í blaðinu. Skyldi það verða undir flokknum "ferðalög" eða "fréttir af landsbyggðinni" eins og stutt frétt af Mývatnsmaraþoni var t.d. felld undir á dögunum. Hingað til hafa íþróttafréttamenn fjölmiðla ekki flokkað ultramaraþon undir íþróttir heldur eitthvað allt annað. Skyldi verða breyting þar á? Það þyrfti kannski að láta þá takast á við þessa þraut til að skilja hana betur.

Engin ummæli: