mánudagur, júlí 03, 2006

Það hefur verið mikið rætt um úrslitin í WSER sem fór fram um síðustu helgi. Brian MOrrisson var dæmdur úr leik eftir að hafa verið hjálpað á fætur á leikanginum og allt að því borinn yfir línuna af meðhlaupurum sínum, hver annar var Scott Jurek, sjöfaldur meistari hlaupsins. Viðtal við Brian er á meðfylgjandi link:
ww.competitor.com/article/?Guid=7ed49eb3-8979-414a-865e-e71cddfb5ec3

Ég fór í brúðkaup á laugardaginn sem er svo sem ekki í frásögur færandi. Athöfnin var fín svo og veislan á eftir. Góður og skemmtilegur dagur. Það eru ánægjuleg viðbrigði að koma í kirkjuathöfn þar sem fólk brosir og jafnvel hlær en er ekki þrúgað af hátíðleika eða sorg. Áður en athöfnin byrjaði þá horfði ég út um gluggann í kirkjugarðinn og fór að velta fyrir mér stílleysinu í kirkjugarðinum. Í fyrsta lagi er eins og hallamálið hafi ekki borist í þennan sveitarhluta. Krossar og steinar voru skakkir og hallandi, fram og til baka. Mér finnst að lágmarkið ætti að vera að þeir væru sæmilega réttir. Í annan stað sneru áletranir fram og til baka þannig að heildarsvipurinn var enginn heldur var yfirbragð garðsins sundurlaust, ruglingslegt og metnaðarlaust.

Ég fór í bókabúð á dögunum og keypti bókina Bíll og bakpoki, útivistar og ferðabók sem Páll Ásgeir, bróðir Gísla aðalritara hefur skráð. Þar hefur hann tekið saman lýsingar á 10 gönguleiðum þar sem göngufólk getur gengið í tvo til þrjá dagaa frá bíl og endað við bílinn aftur. Fín bók sem gefur manni fullt af hugmyndum. Versta að helgarnar eru oft svo ásettar. Mæli sterklega með þessari bók sem og öðrum þeim sem hann hefur skrifað um sama efni, útivist og gönguferðir.

Fletti einnig Ferðahandbók fjölskyldunnar í sömu bókabúð. Hún er einnig nýútkomin og virkaði bæði fróðleg og aðgengileg með mörgum fallegum myndum. Svona útgáfa kveikir víða neista sem eru undirstaða að öðru meir.

Svakalega er Blaðið lélegt og leiðinlegt. Þó er þar eitt sem ber af eins og gull af eiri þótt víðar væri leitað. Það eru fótboltapistlar Kolbrúnar Berþórsdóttur. Hún skrifar þá af svo sjaldgæfum þokka og innsæi að unun er að lesa.

Engin ummæli: