KOm að norðan í gærkvöldi eftir vel heppnaða rannsóknaferð um Kárahnjúkasvæðið og Kringislárrana. Veðrið lék við okkur þá daga sem við dvöldum fyrir norðan. Við vorum sex, tengdapabbi og bróðir hans Rúnar, báðir liðlega sjötugir, Kolbeinn menntaskólakennari, rétt handan við sjötugt, Mareleen frá Frakklandi og áhugamanneskja um Ísland og Siggi bankastjóri á Reyðarfirði og félagi frá Raufarhafnarárunum. Við tókum tvo daga í að ganga um Kringilsárrana, fyrri daginn fórum við sem leið lá inn miðjan ranann og snerum við á Melöldu töluvert langt fyrir innan hraukana. Þaðan gengum við vestur að Kringilsá og norður með henni að Töfrafossi. Við sáum mikinn fjölda hreindýra, gæti verið um 400 dýra hjörð svona lauslega ágiskað og hópa af gæsum, bæði unga og einnig fullorðnar gæsir í sárum. Þær settu sig beint í ána og börðust vestur yfir Kringislá þegar þær sáu okkur. Annan daginn fórum við að Töfrafossi að vestanverðu, niður með Tröllagilslæk og skoðuðum flúðirnar og tókum síðan hús á Hafrahvammsglúfrum. Þriðja daginn fórum við inn austanverðan ranann inn fyrir Hrauka og skoðuðum sethjallana. Þar hefur Ómar Ragnarsson komið sér upp flugvelli og hefur á honum bílpútu til að troða völlinn. Ómar flaug stanslaust yfir svæðið alla dagana sem við dvöldum fyrir norðan, líklega að ferja ferðafólk. Stíflan er að ná endanlegri mynd og þarf ekki að orðlengja um hvílíkt mannvirki hún er. Kringilsárraninn er sérstakt umhverfi enda þótt mesti ljóminn hafi farið af honum með kláfnum. Hann er mikil samgöngubót sem leiðir af sér mikinn fjölda fólks á friðlandinu. Það hefur óhjákvæmilega áhrif á dýralíf á svæðinu. Áður var dagsferð hvora leið að ganga í Ranann þegar þurfti að fara inn á jökul. Á leið inn á Kárahnjúkasvæðið keyrðum við í gegnum Sænautasel og á heimleiðinni fórum við framhjá Fagradal og gegnum Arnardal norður á veg.
Það er dálítið erfitt að draga saman höfuðlínur og mynda sér skoðanir eftir að haa farið þarna um svæðið og skoðan það nokkuð lauslega. Ég hef komið nokkrum sinnum áður á Kárahnjúkasvæðið en ekki farið í Kringilsárrana fyrr en nú. Mér finnast sethjallarnir vera einna merkilegastir af þeim náttúruminjum sem fara undir vatn. Þeir eru mjög sérstakir. Kringilsárraninn skerðist nokkuð og sérstaklega minnkar gróðurlendi á honum.
Ég er búinn að setja slatta af myndum úr ferðinni inn á myndasíðuna (efsti myndahlekkurinn).
Skoðaði úrslitin í Badwater hlaupinu. Scott Jurek sigraði eins og líklegt var en á heldur lakari tíma en í fyrra. Hitinn var mjög mikil og er þá ýmsu til að jafna. Monica Scultz lét ekki að sér hæða og varð áttunda af öllum og fyrsta konan. Hún er ekki venjuleg. Gunnar Nilsson, sænski keppnadinn og fyrsti norðurlandabúinn sem reynir við Badwater hætti frekar snemma. Hans sérsvið er þó að hlaupa í miklum hita.
Grænlandsfararnir kláruðu með sóma og var gott að þeir luku keppninni formlega eftir að hafa dottið út í fyrra. Það að klára svona þrautir er afrek út af fyrir sig. Gaman verður að fá skýrslu úr ferðinni.
Ég var á leið norður öræfin í blíðunni í gær þegar Jökulsárhlaupið var haldið. Sé að það hefur verið mikill fjöldi þátttakenda í því enda veðrið gott. Þetta hlaup er að stimpla sig inn sem eitt helsta hlaup ársins enda standa heimamenn afar vel að því að sögn þeirra sem hafa tekið þátt í því. Þarf að koma því í verk að hlaupa það.
Fékk niðurstöðurnar frá Halldóru á dögunum. Púls við mjólkursýruþröskuld er 163, mjólkursýruþröskuldur er 3,82 (13,8 km á/klst), staða á Borg skala við mjólkursýruþröskuld er 13,2 og þoltala er 46,6 (sem þýðir frábær þjálfun). Ég held ég geti bara verið nokkuð ánægður með þetta en veit að ég get bætt formið töluvert með áherslu á hraðaæfingar, sérstaklega hvað varðar mjólkursýruþröskuldinn.
sunnudagur, júlí 30, 2006
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli