Fór góðan túr í gærkvöldi í góðu veðri. Ég er þokkalega ánægður með stöðuna, ég hef lést um nokkur kíló eftir að ég herti mataræðið upp fyrir einum og hálfum mánuði síðan. Það er allt í góðum gír og ég hef aldrei fallið!!
Maður heyrir miklar frásagnir í fjölmiðlum af meintu harðræði lögreglumanna fyrir austan. Í hádegisútvarpinu í gær var viðtal við einn svokallaðan mótmælenda sem sagði að hvergi í Evrópu tíðkuðust slík vinnubrögð og hrottaskapur meðal lögreglu eins og hún hefði orðið vitni að fyrir austan. Var nokkur þykkt skorið í þessari frétt. Næst næsta frétt í útvarpinu var um meðferð ísraelsku lögreglunnar á íslenskum ríkisborgara sem var að mótmæla við bandaríska sendiráðið í Jerúsalem að því mig minnir. Að eigin sögn var hann laminn í klessu, hent í steininn og látinn dúsa þar eins lengi og löggunni þótti hæfa. Lögreglan fyrir austan er greinilega eins og enskir lávarðar hvað kurteisi og umgengnishætti varðar miðað við kollega þeirra í Jerúsalem. Ég held að það sé kominn tími til að fjölmiðlamenn hætti að tyggja allt gagnrýnislaust upp úr þessu fólki um framferði lögreglunnar þar eystra. Nokkur umræða hefur spunnist um þegar lögreglumaður ýtti við myndatökumanni fyrr austan svo hann steig afturábak niður af gangstétt. Greinilegt var að þarna var um "set up" að ræða því annar myndatökumaður hafði fyrir tilviljun komið sér fyrir í nokkurri fjarlægð og myndaði allt saman. Lögreglumennirnir fyrir austan eru greinilega ekki öfundsverðir af þeirri stöðu sem þeir eru settir í.
Umræðan um skattamálin hefur heldur skánað eftir að hætt va rað fjasa um að lífeyrissjóðirnir ættu að fjárfesta í þeim fyrirtækjum sem greiða forsvarsmönnum sínum svokölluð ofurlaun. Í ljós kom nefnilega að lífeyrissjóðirnir hafa ekkert bolmagn til að fylgja slíku eftir enda eiga þeir að fjárfesta þar sem ávöxtunin er best til lengri tíma litið. Skattaumræðan eru af öðrum toga. Það er ekkert voðalega sniðugt að töluverður hópur fólks greiði ekki það tillegg til samfélagsins sem almennu launafólki er ætlað að greiða enda þótt það vinni við að sýsla um fjármuni. Þetta fólk greiðir fasteignaskatta en ekki útsvar. Útsvarið er tæp 70 % af tekjum stærri sveitarfélaga en fasteignaskatturinn 10 - 12%. Þeir sem greiða ekki útsvar eru því að mestu leyti svokallaðir "free riders" hvað varðar að taka þátt í að greiða til samfélagsins og fjármagna þannig þá samfélagsþjónustu sem við teljum að eigi að vera á höndum opinberra aðila. Má þar til nefna leikskólann, grunnskólann, æskulýðs- og íþróttamál og félagsmál svo dæmi séu tekin. Þessir aðilar nota á hinn bóginn leikskóla, grunnskóla og íþróttamannvirki á við hvern annann. Kannski sækja þeir ekki mikið í félagsþjónustu sveitarfélaga.
fimmtudagur, ágúst 10, 2006
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
Tja, Jerúsalem var ekki í Evrópu síðast þegar ég vissi.
Það er ekkert nýtt að lögreglan í Ísrael virði mannréttindi að vettugi, en vonandi höfum við Íslendingar ögn skárri viðmið og setjum markið hærra.
Skrifa ummæli