Eddan var í sjónvarpinu í gærkvöldi. Það er sjónvarpsefni sem ég er ekki að kaupa. Kemur það margt til. Nú getur það vafalaust verið svo að obbinn af þjóðinni sitji límdur yfir þessu og á er að bara ágætt. Það er allt í lagi að ákveðinn hópur fólks hittist og einhverjir fái verðlaun fyrir vel unnin störf en að það þurfi að hafa beina útsendingu frá viðburðinum er dálítið annað mál. Í fyrsta lagi pirrar mig að hafa beina útsendingu frá kampavínsdrykkjunni í upphafi til að sýna hverjir fái inngöngu í herlegheitin. Það sést ekki nógu vel að mati einhverra hverjir eru mættir undir sjálfri verðlaunaveitinunni svo það þarf að svingla um í upphafi með myndavélina á lofti. Í öðru lagi eru brandarar kynnanna sem hafa verið skrifaðir heima og æfðir fyrir framan spegilinn á baðinu til að vera viss um að ruglast ekki alveg hörmulegir. Kynnar eiga ekki að reyna að stela senunni heldur að vinna vinnuna sína. Í þriðja lagi eru þakkarræðurnar oft heldur sentimental. Ómar flutti flottustu þakkarræðuna. Í fjórða lagi fannst mér heldur skrítið að annar aðalkynnirinn skyldi vera þátttakandi í keppninni um verðlaunin fyrir besta sjónvarpsmann ársins og kosning stóð yfir á meðan á útsendingu stóð. Í fimmta lagi passar ekki að ausa yfir stjórnmálamenn mærðarfullu lofi fyrir vel unnin störf á samkomun sem þessum. Sú rulla er kyrjuð árlega. Í sjötta lagi var innkoma Péturs, gerfi hans og hlutverk einhvern veginn út úr kú, eins og hann er oft skemmtilegur þegar hann er orginal.
Myndin um Victoríu Guern, írska fréttamanninn, sem var myrt árið 1996 vegna þess að hún saumaði of mikið að dópsölunum var fín. Reyndar missti ég af upphafinu en það sem ég sá stóð fyrir sínu.Þarlend stjórnvöld tóku málin engum vettlingatökum eftir morðið heldur breyttu þau stjórnarskránni innan viku og fengu þar með heimild til að gera eigur einstaklinga upptækar sem gátu ekki gert grein fyrir hvernig þær voru fjármagnaðar. Ástandið í Dublin gjörbreyttist á eftir. Þar var ekkert persónuverndarkjaftæði á ferðinni. Hér er talað um ákveðna einstaklinga sem hafa auðgast á dópsölu og annarri undirheimastarfsemi, allir vita af þessu en enginn gerir neitt í því. Eins vita allir að ástandið gerir ekki nema versnar og versnar. Þingmenn virðast ekki hafa neitt þarfara til málanna að leggja en að þræta um hve mikil peningar hafa farið í að berjast gegn þessari þjóðarmeinsemd en alvöruaðgerðir þorir enginn að minnast á.
Í sænsku blöðunum Aftonblaðinu og Expressen er fjallað um eineltismál í morgun. Í öðru blaðinu er rakinn lífsferill 14 ára gamallar steplu sem framdi sjálfmorð eftir áralangt einelti í skóla og í hinu blaðinu er birtur úrdráttur úr dagbók stelpu sem er pínd og kvalin upp á hvern dag í skólanum. Í báðum tilvikum neituðu skólayfirvöld að um einelti sé að ræða heldur var viðkomandi einstaklingur gerður að sökudólgnum. Ég þekki nákvæmlega svona dæmi sem er ekki mjög gamalt þar sem það var orðinn siður og venja hjá krökkunum í ákveðnum grunnskóla að taka vissa krakka fyrir. Ég ætla ekki að rekja það frekar en hlutirnir breyttust ekki fyrr en foreldrarnir tóku sig saman og kröfðust þess að utanaðkomandi sérfræðingar kæmu til starfa með skólanum til að komast fyrir meinið. Grundvallar atriði í þeirri vinnu var ekki síst að vinna með gerendunum því þeim líður oft ekki síður illa en þeim sem fyrir eineltinu verða. Eftir þessa aðgerð gjörbreyttist andrúmsloftið í skólanum. Það dæmi sem ég þekki til átti sameiginlegt með þessum sænsku dæmum sem ég las um var að bæði var fórnarlambið álitinn vandamálið og í öðru lagi tregðuðust skólayfirvöld við að viðurkenna vandamálið. „Það er ekki einelti í mínum skóla“
mánudagur, nóvember 20, 2006
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli