þriðjudagur, nóvember 21, 2006

Sá í Blaðinu í morgun að Kolbrún Bergþórsdóttir er ekki par hrifin af Eddu hátíðinni svokölluðu. Alltaf gott að fá það á tilfinninguna að maður sé ekki einn á báti. Mér finnst Kolbrún oft mjög skemmtilega frökk og orðheppin. Hún er nösk á að greina það sem máli skiptir. Mér finnst allt í lagi að einhver hópur fólks hittist og skemmti sér saman en að troða því í beina útsendingu, það er svolítið annað mál.

Í Mogganum í morgun var skýrt frá því að á 15 ára tímabili hefðu rúmlega 500 íslendingar stytt sér aldur, þar af 80% karlar. Sjálfsvíg er alltaf skelfilegur atburður en það vekur mann til umhugsunar hví er þessi mikli munur á kynjunum. Hvar er nú talskona feministafélagsins, karlahópur þess sama félags, kynjafræðingar og jafnréttisfólks allskonar? Hvar er nú umræðan um þörfina á rannsóknum og greiningum? Maður bara spyr?

Það var athyglisverð grein eftir einn af forystumönnum Aftureldingar í Mosfellsbæ í Mogganum í gær. Hann er að fjalla um kvennaknattspyrnuna og ýmislegt sem þar mætti betur fara. Meðal annars kemur hann inn á þá stöðu þegar þjálfarar einstakra liða eru samtímis þjálfarar kvennalandsliðsins í kvennaknattspyrnu. Hvort sem það er viljandi eða ekki þá dragast efnilegir og góðir leikmenn til þeirra félagsliða sem landsliðsþjálfarar þjálfa til að eiga betri aðgang að landsliðinu. Það segir sig sjálft. Maðurinn úr Mosfellsbæ talar beinskeitt um ráðandi klíkuskap í íþróttinni. Ekki skal eg dæma um það en það er ljóst að þróunin er áhyggjuefni. Bestu stelpurnar þjappast í örfá lið. Hver hefur gaman af því að horfa á leiki þar sem skoruð eru 10 - 15 mörk gegn engu? Maður tók út fyrir að horfa síðan á þetta sýnt í sjónvarpinu. Það er aldrei gaman að horfa á niðurlægingu. Það á ekkert skylt við spennandi íþróttakeppni. Ég er ekki búinn að gleyma illskunni í þjálfara Vals í haust þegar hann fékk ekki að tæta smástelpur úr FH í sig í lokaleiknum. Þegar svona uppákomur verða þá er eitthvað öðruvísi en á að vera.

1 ummæli:

kókó sagði...

Það er til fullt af rannsóknum um mun kynjanna og sjálfsmorð. Ein skýring eru mismunandi aðferðir. Drengir og karlar nota beinskeittari aðferðir ef svo má segja, hengja sig, skjóta eða bílí gangi í bílskúr. Konur taka oftar töflur sem virka hægar og einhver kemur að þeim og það næst að dæla uppúr þeim.
Önnur skýring er sú að stúlkur/konur leita sér frekar hjálpar þegar þeim líður illa. Sú þriðja er skuldir, drengir/karlar skulda meira. Fjórða er sá þröngi rammi sem samfélagið skapar karlmenn á - stelpur mega vinna "karlastörf", vera töff, öðruvísi en karlar sem fara útfyrir normið mæta miklum fordómum.