miðvikudagur, nóvember 22, 2006

Maður skilur Hattarmenn frá Egilsstöðum vel að þeir skuli vera súrir yfir úrskurði HSÍ yfir að dæma þá í stóra fjársekt fyrir að hafa forðað sér til lands vegna yfirvofandi óveðurs. Leikmenn Hattar eru vinnandi menn sem stunda handbolta í frístundum. Þeir fá að öllum líkindum enga aðra umbun en ánægjuna fyrir að spila handbolta. Þeir fá ekki greitt fyrir að spila á uppsprengdum töxtum og mega því varla við að missa dag og dag úr vinnu. Höttur sendir lið í fyrsta sinn til þátttöku í íslandsmóti meistaraflokks í ár og þetta eru trakteringanrar þegar upp koma aðstæður sem þeir ráða ekki við. Skilingsleysi HSÍ er vægt sagt undarlegt í tilviki sem þessu og handboltanum ekki til framdráttar.

Slátrun fuglanna í Húsdýragarðinum hefur vakið furðu margra og verður ákvörðunin sífellt undarlegri sem fleiri vinklar koma í ljós. Fram hefur komið að hænurnar fjórar greindust með mótefni fyrir einhverjum stofni í janúar eða febrúar. Ég hef lesið að það séu yfir 80 stofnar fuglaflensu til í heiminum. Ég var á leið fram hjá garðinum fyrir skömmu og þá voru að lenda flokkar gæsa í honum sem komu utan úr bæ til að fá sér snarl og félagsskap. Nú á að svelta þær burt með því að hætta að gefa þeim þar til fuglar koma í garðinn aftur. Hvað ætli verði gert þegar fuglar verða teknir í garðinn aftur og byrjað að gefa þeim. Ætli gestagæsir verði skotnar þegar þær fara að lenda í garðinum? Umræðan um fuglaflensuna var á margan hátt svo yfirdrifin síðastliðinn vetur að það var með ólíkindum. Þegar fannst dauður svanur upp við Elliðavatn voru menn svefnlausir dögum saman vegna þess að það tók um viku að fá dánarorsökina greinda út í Svíþjóð. Svo kom í ljós að hann drapst úr elli eða einhverju álíka venjulegu. Umræðan var þannig að það lá við að maður héldi að velferð þjóðarinnar væri í veði ef ekki væri byggð upp fullkomin greiningarstöð hérlendis fyrir ca 100 milljónir svo ekki þyrfti að bíða eftir árans útlendingnum við greiningu fugla. Það hefur svo ekki verið minnst á fuglaflensu í fjölmiðlum mánuðum saman. Bara alls ekki.

Minna á í þessu sambandi að störf fjárlaganefndar standa nú sem hæst.

Hún er allrar athygli verð greinin sem Jónína Ben. skrifar í Moggann í morgun. Ég hef einstaka sinnum hlustað á Útvarp Sögu og það var ekki allt fallegt sem þar var látið vaða.

Engin ummæli: