laugardagur, nóvember 25, 2006

Fór út kl. 7.00 í morgun og tók langan túr í frostinu. Fór fyrst Poweratehringinn og síðan vestur á Eiðistorg og svo til baka. Hitti Jóa, Stebba og Halldór í Fossvogsdalnum og fór með þeim hringinn. Það var ellefu stiga frost við Víkingsheimilið en þetta er bara spurning um klæðnað. Fínn túr sem losaði 30 km.

Stebbi gaf skýrslu um maraþonið í Frankfurt þar sem hann hljóp undir 3 klst en rakst heldur betur á vegginn. Það var heitt í hlaupinu og eins sagðist hann hafa gert taktisk mistök um að drekka of lítið. Það var svo merkilegt að eftir að lækarnir voru búnir að hirða hann upp hálfrænulausan og gefa honum saltvökva í æð þá var hann orðinn stálsleginn eftir svona tvo tíma og leið eins og hann hefði ekki hlaupið neitt. Hann fór að ræða við læknana þegar hann var orðinn brattari og sagðist meðal annars hafa tekið vel af magnesíum fyrir hlaupið. Það dugar alls ekki til sögðu þeir, þú verður að taka það einnig á meðan á hlaupinu stendur. Þetta er umhugsunarvert, meðal annars fyrir Laugaveginn. Það er náttúrulega ekki nógu gott ef hlauparar eru að drepast úr sinadrætti og ómögulegheitum í hlaupum bara fyrir vanþekkingu á þörf fyrir salt- og steinefnainntöku. Það er alveg óþarfi. Mótshaldari Laugavegshlaupsins ætti t.d. að gefa út leiðbeingar um steinefna- og saltinntöku til að minnka líkur á áföllum. Menn eiga ekki endalaust að þurfa að finna upp hjólið. Það er löngu búið að því.

Það er með ólíkindum hvað hægt er að þjálfa skrokkinn upp í. Monica Shultz hljóp 23 100 mílna hlaup á árinu 2001, þar af níu helgar í röð. Dean Karnasez hljóp fyrir skömmu 50 maraþon í 50 ríkjum Bandaríkjanna á 50 dögum. Hann endaði í NY maraþon og hljóp það á réttum 3 klst. Af því hann var orðinn vel volgur ákvað hann að hlaupa heim til sín, frá NY til San Francisko. Hann reiknar með að vera kominn heim um miðjan janúar. Í 50 hlaupa seríunni kláraði hann 5 pör af skóm, 18 sokka, missti þrjár neglur og fékk tvær blöðrur.

Fór á miðstjórnarfund hjá Framsókn eftir að heim var komið. Nýr formaður stimplaði sig inn með eftirtektarverðum hætti hjá fundarmönnum. Hann fór yfir þau mistök sem gerður var í aðdraganda þess að ákvörðun var tekin um að setja Ísland á lista hinna staðföstu þjóða í aðdraganda Íraksstríðsins og dró hvergi undan. Það var eins og þungu fargi væri létt af fundarmönnum sem þökkuðu formanni sínum af einlægni. Loksins er hægt að fara að tala opinskátt um hlutina.

Sá í fréttum í blöðum í gær að alþjóðleg könnun setti íslenskt samfélag í fjórða sæti í heiminum hvað varðar jafnrétti kynjanna. Hef ég misst af einhverju? Hér hefur maður horft á sjálfskipaða sérfræðinga í jafnréttismálum margsskonar tala með andköfum í fjölmiðlum um ójafnrétti kynjanna á öllum mögulegum og ómögulegum sviðum þannig að það hefur ekki verið annað að skilja en hér væri allt í ólestri á þessu sviði. Svo er staðan bara í fremstu röð í heiminum.

Það eru tveir þættir bandarískir sem ég horfi á í sjónvarpinu. Hina læt ég eiga sig. Annar er Sopranos. Hann er dásamlegur. Persónurnar eru þannig að það er ekki hægt annað en að bíta sig fastan í þetta samfélag. Sopranos er svona eins og Matador og Dallas, alveg ómissandi. Hinn þátturinn er Biggest Loser. Þar er hópur offitusjúklinga að keppa um hver missir flest kíló. Það er svakalegt að horfa á í hvaða vítahring fólk getur lent. Venjulegt fólk er komið upp í um 180 kg og er þó ekki hávaxið. Síðan er það fast í ákveðnum vítahring sem er eins og alkólismi eða eitthvað annað verrra. Eftir að það hefur misst svo og svo marga tugi kílóa kemur síðan í ljós myndarlegasta fólk innan undan öllu saman. Það er á hreinu að mínu mati að svona þættir geta vafalaust byggt upp nægilega mikið sjálftraust hjá einhverjum til að fara að takast á við eigin vandamál. Fast food fæði hefur vaxið gríðarlega að umfangi hérlendis á undanförnum árum. Til lengri tíma litið þá mun það hafa mikil áhrif á samfélagið og almennt heilsufar.

Fór í gærkvöldi upp í Reiðhöll að horfa á Strongman og taka myndir. Það er gaman að sjá þessa jötna takast á við óraunverulegar þyngdir. Mótið er haldið til minningar um Jón Pál Sigmarsson sem aldrei kom til greina sem íþróttamaður ársins enda þótt hann hefði unnið titilinn Sterkasti maður heims fjórum sinnum og síðan extra súper keppni þar sem hann tókst á við tröllið Katzmejer frá Bandaríkjunum og Geoff Kapes frá Bretlandi og rúllaði þeim upp. Kvöldið áður hefði ég horft á keppnina frá Finnlandi árið 1989 þar sem Jón Páll sigraði OD Wilson með hálfu stigi og vann keppnina í fjórða sinn. Jón Páll er legend í þessum kreðsum enda ógleymanlegur öllum sem sáu hann í kepnni. Sköllótti finninn sem keppti við OD og Jón Pál árið 1989 var uppi í höll í gærkvöldi og hafði ekki elst neitt. Þjálfari hans, sem einnig var uppi í höll í gærkvöldi, hafði hins vegar elst meir. Benedikt stóð sig vel og var í fjórða sæti eftir gærdaginn.

2 ummæli:

kókó sagði...

Það er frekar hægt að segja að ójafnréttið sé mjög mikið í heiminum fyrst við erum í fremstu röð.

Nafnlaus sagði...

Smá leiðrétting, Jón Páll var reyndar valinn íþróttamaður ársins árið 1981.