Í dag er bóndadagur. Þa er ljóst hvert er þema dagsins.
Ég var á fundi í morgun. Þar voru bæði karlar og konur. Ég heilsaði hringinn og þegar ég heilsaði seinasta karlinum þá sagði hann „og til hamingju með daginn“. „Sömuleiðis“ sagði ég. Ein konan leit upp, horði í kringum sig og spurði: „Hvaða dagur er, á einhver afmæli?“ Það fóru allir að hlægja og þá áttaði hún sig loks og bölvaði.
Heyrði í morgunútvarpinu að það eru fleiri hálf ráðvilltir en ég í umræðu nútímans. Hinn geðþekki útvarpsmaður, Gestur Einar Jónasson sagðist stundum ekkert vita hvaðan á hann stæði veðrið þegar rætt væri um karla og konur. Það er á hreinu að það myndi heyrast hljóð úr horni ef karlar töluðu um konur eins og konur tala um karla. Utanríkisráðherra hélt ræðu í gær og tilkynnti einnig að hún myndi létta hulunni af einhverjum leyndarskjölum úr utanríkisráðuneytinu. Það er svo sem gott og blessað en ég held að það hafi ekki staðið neitt merkilegt í þessum pappírum eftir umræðunni í blöðunum í morgun að dæma. Varla minnst á þá. En í forbífarten gat hún ekki setið á sér að reyna að upphefja sjálfa sig með því að hreyta skít í hitt kynið. Hún sagðist ekki vilja pukrast með málin eins og kallar gerðu gjarna í reykfylltum bakherberjum. Hvað ætli yrði sagt ef einhver karlráðherrann segðist ekki vilja höndla einhver mál eins og xxxxxxxxxxxx kjellingar? Ég er viss um að það yrði ekki lint látum fyrr en hann myndi segja af sér og ástæðan væri taumlaus karlremba, kvenfyrirlitning og almennur dóna-og ruddaháttur. Mér finnst þörf fyrir að upphefja sjálfan sig á kostnað annarra vitna mest um vanmetakennd og skort á sjálfsvirðingu.
Það var annað en haft var eftir konunni sem fékk viðurkenningu nýlega fyrir vel unnin störf í viðskiptalífinu sem hún fékk vafalast mjög verðskuldað. Eftir að hún hafði veitt verðlaununum móttöku spurði einhver kvenfréttamaðurinn: „Hvaða ráð geturðu síðan gefið konum?“. Hún svaraði náttúrulega eins og viti borin manneskja og sagðist ekki geta gefið konum nein ráð frekar en öðrum en við konur jafnt sem karla sagðist hún geta sagt eftirfarandi: (og svo kom það sem hún hafði að segja).
Ung kona tilkynnti í gær framboð sitt til formennsku í KSÍ. Ég ætla ekki að dæma hana neitt en ég tel að til að geta gegnt formennsku í KSÍ þurfi maður að hafa tvennt til að bera, víðtæka stjórnunarreynslu og mikil tengsl inn í hreyfinguna. Það eru hins vegar margir á allt annarri skoðun eins og kemur í ljós þegar maður les umsagnir á bloggsíðum hjá kvenfólki yfir þessum tíðindum. Manni koma helst í hug eftirfarandi línur úr Unndórsrímum eftir Kristján heitinn Eldjárn forseta:
..
Allar hryssur Hörgárdals,
hófu piss af kæti.
Niðurstaðan kemur í ljós innan tíðar.
Ég reyni yfirleitt að keyra í takt við umferðarlögin. Ég hef einu sinni lent í hörðum árekstri og langar ekkert að upplifa það aftur. Það fór þó allt betur en hefði getað gert. Manni blöskrar að sjá umferðarmenninguna á stundum, ekki síst þegar færð er þyngri en vanalega. Þá svína margir svo blygðunarlaust yfir á rauðu ljósi að það er með naumindum að maður þori af stað á ljósum enda þótt við blasi grænt ljós. Í morgun var ég að keyra eftir Sogaveginum á leið yfir Réttarholtsveginn. Gult ljós mætti mér og ég stoppaði enda skipti yfir í rautt í sama mund og ég stoppaði. Á þessum ljósum sá ég t.d. tvo bíla í kássu fyrir helgina. Ég sá svo útundan mér þegar ég stoppaði að stór éppi kom á ferð yfir í snjóruðninginn á gangstéttinni við hliðina á mér og stoppaði þar. Hann hafði greinilega búist við að ég svínaði yfir og ætlaði þá að þrælast yfir á eftir mér og verið búinn að gefa vel í vegna þess. Þegar ég stoppaði hinsvegar þurfti fíflið að henda bílnum út í ruðninginn. Honum hefur líklega ekki litist á krókinn sem stendur aftur úr þeim gamla.
föstudagur, janúar 19, 2007
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli