sunnudagur, janúar 28, 2007

Fór út í blíðunni í morgun og mætti niður í Laugar um kl. 10.00. Þar var góður hópur sem hélt inn í Elliðaárdal. Við Gauti tókum Poweratehringinn og síðan fór ég hring í hólmanum til að ná vel yfir 20 km. Við hittum Ella í brekkunni við stífluna og hann tilkynnti okkur að þau þrjú Lapplandsfarar væru búin að skrá sig í 100 km hlaup í Frakklandi þann 27. maí n.k. Börkur er búinn að skrá sig í Odense um svipað leyti. Nú ferð það að ganga undan. Það verður mikið hlaupið og langt í ár. Vikan gerði um 90 km sem er það lengsta um nokkuð langan tíma. Ég er mjög ánægður með hvað allt er í góðu lagi eftir þetta löng hlaup, nær tvö maraþon á þremur dögum. Viktin sýndi um 80 kg bæði í gær og í morgun þegar ég kom inn. Ég held að ég hafi ekki verið svona léttur síðan um tvítugt nema kannski einu sinni. Elli sagðist vera búinn að taka mataræðið hjá sér í gegn á svipuðum nótum og ég og hefur að markmiði að fara undir 70 kg. Manni fyndist muna um það ef maður fengi 10 - 15 smjörstykki í poka áður en lagt er að stað.

Margt er sagt um kosninguna hjá Frjálslyndum. Þar hefur margt verið framkvæmt öðruvísi en ætti að vera og er undarlegt að fundarvant fólk skuli ekki kunna betur til verka eða hafa betra skipulag á hlutunum. Af mögu sem sagt var um þetta finnst mér það verst sem formaður Kvenréttindafélags Íslands sagði. Hún lét hafa eftir sér að þetta væri dæmigert um að konum væri yfirleitt hafnað þegar þær sæktust eftir völdum. Þarna hefði verið um mjög frambærilega konu að ræða sem hefði borðið sig fram í embætti og hún bara ekki fengið það. Að mínu mati er svona tal og svona hugsun hinn raunverulegi hemill á jafnrétti karla og kvenna ef einhverjum finnst hallast á í því samhengi. Í fyrsta lagi var Margréti alls ekki hafnað heldur fékk hún um 44% atkvæða en Magnús um 56%. Það var því tekist á í jafnri kosningu. Að einhverjum skuli detta það í hug að ef kona réttir upp höndina og segir ég vil fá þetta sæti að þá eigi bara allir að bugta sig og beygja og afhenda henni það umyrðalaust er náttúrulega fásinna. Stjórnmál og viðskiptalíf er vettvangur valda og átaka. Á þeim leikvangi verður að berjast til áhrifa. Það er ekkert öðruvísi. Það gilda ekki aðrar leikreglur um konur heldur en karla á því sviði. Það er bara þannig. Maður hefur varla séð neitt fáránlegra í þessu samhengi þegar einhverjar konur auglýstu í blöðum að þær væru reiðubúnar að setjast í stjórnir fyrirtækja á verðbréfaþingi, bara si svona af því þær voru konur.

Jón Baldvin fór aldeilis á galoppaðe í Silfrinu í dag. Egill sat bara og gapti. Alltaf gaman að sjá kallinn í ham enda þótt maður sé ekki alltaf sammála honum.

Víkingur vann Val í Reykjavíkurmótinu í kvöld 1 - 0. Gott hjá þeim.

Engin ummæli: