Hitti Vini Gullu í morgun. Fámennt en góðmennt. Tókum hring vestur á við þar til næðingurinn í Vesturbænum mætti okkur og hröðuðum okkur þá til baka í lognið í Fossvoginum. Fót aukahring upp að stíflu og náði samtals um 22 km. Ágætur morgun.
Það er erfitt að vera grínari að sögn. Línan milli þess sem spaugilegt er og aulaskapar er oft vandfundin. Það hefur sannast nýlega hjá þeim sem handa úti vefritinu Múrnum. Það hefur tíðkast lengi að um áramót eru dregin nokkur uppúrstandandi atriði frá árinu og þau skrumskæld svolítið eða sett í nýtt samengi. Oft tekst þetta með ágætum. Í annan tíma er þetta miður gert. Þegar blendnum tilfinningum er blandað inn í ætlað grín er yfirleitt stutt í það að farið sé yfir strikið. Það er svo að bæta gráu ofan á svart þegar skrifuð er löng skýring á ætluðu gríni þannig að við hinir húmorlausu geti hlegið með hinum vel upplýstu. Þegar menn lenda í ógöngum vegna klaufaháttar eða fljótfærni eins og Múrverjar gerðu í upphafi er einfaldast og stórmannlegast að játa mistök sín, biðjast afsökunar og strika ruglið burt. Almenningur er sáttfús og fyrirgefur fólki sem bregst við á eðlilegan hátt. En þegar menn hafa ekki vit á því heldur reyna að bjarga andlitinu með allskonar grínskýringum sem eru enn verri en það sem í upphafi var skrifað þá sitja menn í feninu upp að eyrum og geta engum um kennt nema sjálfum sér. Þá opinbera menn sjálfan sig svo að ekki verður aftur tekið.
Það er ljóst að það sem kemur fram í bók Margrétar Frímannsdóttur um árin innan Alþýðubandalagsins er ekki óumdeilt af ýmsum ástæðum. Það er yfirleitt svo þegar fólk leggur fram sitt sjónarhorn í málum sem hafa verið umdeild að á því eru ýmsar hliðar. Ég þekki margt af því sem þarna er komið inn á persónulega en ætla ekki að fara nánar inn á það. Ég var ekki í Möggu liði á þessum árum ef hægt er að orða það svo en virti hana mikils því hún átti það sannarlega skilið. Mér fannst hún til dæmis eiga aðdáun skilið eftir að hún var kosin formaður á sínum þegar hún gekk í að fá allt upp á borðið hvað varðar fjármál Alþýðubandalagsins með því að láta löggildan endurskoðanda fara yfir fjármál flokksins. Það var þó ekki mótspyrnulaust. Framkvæmdastjórinn sagði upp og allt var í háalofti. Hún kemur ágætlega inn á þetta í bók sinni. Það kom nefnilega á daginn að flokksmönnum höfðu verið gefnar vægt sagt ónákvæmar upplýsingar um skuldastöðu flokksins eða svo skeikaði háum fjárhæðum.
sunnudagur, janúar 07, 2007
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli