Það eru fleiri en ég sem þykir sjónvarpsdagskrá ríkissjónvarpsins hafa verið léleg og metnaðarlaus yfir hátíðarnar. Hvort skaupið er gott eða slæmt er smekksatriði en á hinn bóginn er ljóst að það er ekki eins mikið nýjabrum af því nú eins og áður og því eðlilegt að gerðar séu kröfur til að það sé almennilega gert. Skrítið að það skuli vera eitthvað trúnaðarmál hvað það kostar. Ég sé ekki ástæðuna fyrir því. Ætli það geti verið eitthvað viðkvæmt s.s. eins og í hitteðfyrra þegar Edda Björgvins réði son sinn til að fara með öll gömlu árshátiðaratriðin sín. Eins væri forvitnilegt að vita hvað þjóðleikhússtjóri hafi fengið borgað fyrir heimavídeóið sitt sem var sýnt að kvöldi annars dags jóla. Ætli þetta sé ný stefna hjá RÚV að kaupa svona upptökur af ferðalögum unglinga. Ég veit um marga sem eru t.d. að fara með íþróttahópa á mót erlendis sem gætu þegið að lækka hjá sér ferðakostnaðinn með því að fá borgað fyrir upptöku af ferðinni. Fjölmiðlar sinna hins vegar frásögnum af íþróttum barna og unglinga oft illa svo ég á ekki von á að það verði metið mikils.
Lægst komst dagskráin yfir hátíðarnar með bíómyndinni að kvöldi nýjarsdags, "STRÁKARNIR OKKAR" held ég að hún hafi heitið. Hún var hraksmánarlega illa gerð. Samtölin vandræðaleg eins og svo oft í íslenskum kvikmyndum, handritið hörmulegt og allt annað lélegt. Síðan verð ég að segja að mér fannst það ekki við hæfi að hafa langar senur með berum köllum í sturtu eða berum köllum að riðlast hver á öðrum á besta tíma á hátíðarkvöldi þegar fólk á öllum aldri sest niður saman og horfir á sjónvarpið. Ég er kannski orðinn of púritanískur en mér finnst þetta bara.
Hverju á maður að trúa úr fréttum? Ríkisútvarpið segir að vistmönnum í Byrginu hafi fækkað um yfir helming síðan umræðan um Boirgið hófst og flestir séu komnir á fullt í dópið á götunni. Stöð 2 segir tveimur tímum seinna að vistmenn Birgisins séu að koma aftur til dvalar eftir jólaleyfi. Hvor ætli sé að ljúga eða í besta falli að segja einhvern hálfsannleik. Ég hélt alla vega að þeir sem vinna á fjjölmiðlum ættu að vera farnir að læra það að taka því ekki öllu sem góðu og gildu sem kemur frá aðilum sem eru í harði tilvistarbaráttu og eru að reka áróður fyrir sér og stöðu sinni.
Sá grein í blöðunum í morgun eftir varaformann og eina skærustu stjörnu VG. Hún boðar skattahækkun á allt venjulkegt fólk til að bæta hag þeirra sem eru með lægstar tekjurnar. Það heitir víst jafnaðarmennska. Þá vitum við hvað tekur við ef þeir ágætu VG menn fá völdin í vor. Ég held að menn ættu að skoða aðeins stöðu mála t.d. í Svíþjóð. Þar taka opinberir aðilar yfir 50% af tekjum fólks í beina skatta. Vill venjulegt fólk hérlendis það? Mér finnst að það séu svona spurningar sem fólk eigi að leggja fyrir frambjóðendur fyrir kosningar í vor en ekki að ganga í skrokk á frambjóðendum hvort þessi eða hinn vegarspottinn verði lagður. Vegamál eru framkvæmdaatriði, skattamál eru grundvallaratriði um skipan þjóðfélagsins.
Sendi mynd af norðurljósunum á Þingvöllum í fyrrakvöld á bandaríska síðu áhugamanna um himingeiminn. Hún komst á forsíðu. Slóðin er www.spaceweather.com
föstudagur, janúar 05, 2007
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli