miðvikudagur, janúar 17, 2007

Fór 10 km í Laugum í gær. Fer frekar rólega og tek æfingar á eftir. Bakið er allt að koma til. Stofnuðum knattspyrnufélag í Víkinni í gærkvöldi. Um 30 manns mættu á stofnfundinn. Markmið þess er að gefa þeim strákum verkefni sem ekki geta gengið beint inn í meistaraflokk upp úr 2. flokki. Það hefur glatast mikill mannauður úr félaginu á undanförnum árum vegna þess að þeir sem ekki ná fótfestu í meistaraflokki strax fara í önnur félög eða hætta knattspyrnu. Það er hálf snubbót og óþarfi að sjá þetta gerast eftir að hafa verið með strákana í 10 - 15 ár í unglingastarfi innan félagins. Nú á að vera til staðar vettvangur fyrir alla knattspyrnumenn þegar þeir komast á fullorðinsár.

Feministar eru pólitísk hreyfing. Mörgum þeim sem feministar segjast vera að berjast fyrir finnst málflutningur þeirra vera svo öfgakenndur að þeir vilja ekki kannast við þá sem málsvara sína. Má sem dæmi nefna þegar talskonan gat ekki á sér setið og hreytti ónotum í Unni Birnu þegar hún var kosin fegursta kona heims. Ég er ekki hrifinn af málflutningi feminista á margan hátt svo það sé á hreinu. Kem inn á þetta því ég las grein í Fréttablaðinu eftir einn sem skrifar undir merkjum félagsins nýlega. greinarhöfundur byrjar á því að tala um feministann Giljagaur. Þetta er dæmi um málflutninginn. Nú er feministahreifingin, rammpólitísk hreyfing, búin að slá eign sinni á jólasveinana, líklega að þeim forspurðum. Hvað hefði verið sagt er Sjálfstðirflokkurinn, Framsóknarflokkurinn, samtökin 79, masókistahreyfingin eða Hvítasunnusöfnuðirnn hefðu slegið eign sinni á þá og farið að tala um sjálfstæðismanninn Gáttaþef, framsóknarmanninn Stúf, hommann Stekkjarstaur, masókistann Skyrgám eða kristniboðann Kertasníki. Auðvitað hefði öllum fundist þetta vera argasta bull og þvaður. En af því að það eru feministar sem eru svo frekir og yfirgangssamir að slá eign sinni á jólasveinana og tala um þá sem sína liðsmenn þá segir enginn neitt. Í öðru lagi fór þessi greinarhöfundur að ræða um mun á strákum og stelpum. Skoðun greinarhöfundar var að sá munur sem er á karlkyni og kvenkyni fari alfarið eftir uppeldinu en eðlisbundnir eiginleikar skipti þar engu. Strákar séu hvattir til dáða frá fæðingu en stelpur séu best geymdar sofandi. Þvílíkt kjaftæði. Það vita allir sem hafa alið upp börn að í langflestum tilvikum kemur eðlislægur munur á drengjum og stúlkum fram mjög snemma. Áhugasviðin eru misjöfn, áherslurnar öðruvísi. Þetta er eitthvað sem enginn ræður við. Þetta er niðurstaða þróunar sem hefur staðið yfir þann tíma sem mannkynið hefur þróast. Þetta er eðlisbundinn munur en áhrif uppeldis eru í lágmarki. Þeir sem hafa umgengist dýr vita að hið sama kemur þar fram. Karlkynið er árásargjarnara, aggressivbara og fyrirferðarmeira.
Í öðrum kafla myndarinnar um Maó formann sem sýnd er á mánudögum var komið inn á að það hefðu verið sett upp svökölluð kommúnueldhús í Kína á sjötta áratugnum. Með þeim átti meðal annars að þurrka út persónulega eiginleika fólksins og gera almenning að gráum persónulausum múg, svona zombíum, án karakters. Mín skoðun er að þeir sem telja að uppeldisleg áhrif skipti öllu máli og með uppeldinu sé hægt að þurrka út eðlislægan mun á karlkyni og kvenkyni reki áþekka stefnu og Maó gerði. Það þarf að vera vakandi gegn því að svona rugl gegnsýri hugarfarið og fari smám saman að vera viðurkennt sem hin rétta hugsun. Það má minna í þessu sambandi á aðferðir Margrétar Pálu leikskólastjóra sem hefur kynin aðskilin svo hvort þeirra fái tækifæri til að njóta sín. Það skal tekið fram til að fyrirbyggja misskilning að enda þótt sé sé að tala um eðlislægan mun kynjanna þá felst ekki í því neinn dómur um hvort kynið er betra. Það er ekkert betra eða verra til í þessum málum, bæði hafa sína kosti og sína galla, sína veikleika og styrkleika sem betur fer.

Engin ummæli: