föstudagur, janúar 26, 2007

Einu sinni hlustaði ég á viðtal við Friðrik Þór kvikmyndagerðarmann þar sem hann fór yfir aðdraganda og gerð kvikmyndarinnar „Kúrekar norðursins“. Hann komst svo að orði að það væri stundum sem raunveruleikinn gæfi manni á kjaftinn og væri ótrúlegri en lygin.

Mér finnast atburðir síðustu vikna er varða Byrgið, Vernd og fangelsismálayfirvöld vera á þessum skala. Þeir Kompássmenn á Stöð 2 eiga mikinn sóma skilið fyrir að hafa flett ofan af því rugli öllu sem hefur viðgengist á þssum vígstöðvum og annað hvort verið horft á með blinda auganu af þeim sem almenningur á að geta treyst eða eftirlitshlutverki og ábyrgðarskyldum verið stórlega ábótavant.

Byrgið hefur verið ein allsherjar skítabúlla, þótt svo að það hafi hjálpað einhverjum sem hefur hvergi átt höfði sínu að halla. Skárra væri það nú. Ég sló Byrginu inn á leitarvél um daginn og rakst þá meðal annars á blogg eftir stúlku frá því í fyrra þar sem hún er að fara yfir hvað hún sé ósátt við vinnubrögð Byrgismanna. Frændi hennar hafði verið sendur þaðan út með því fylgdarnesti að Ésú væri búinn að lækna öll hans vandamál, bæði þau er vörðu fíknifnaneyslu hans svo og Tourette sjúkdóminn sem hann þjáðist af. Nokkrum vikum síðar lá drengurinn á líkbörunum.
Nú kemur það í ljós að landlæknisembættinu hefur verið kunnugt um líferni forstöðumannsins og annarra starfsmanna þar með vistmönnum. Ekkert var aðhafst. Ofan í kaupið kemur í ljós að fangelsisyfirvöld hafa komið stórhættulegum glæpamönnum þar í eftirlitslausa vistun þannig að þeir hafa getað valsað úti í samfélaginu sem frjálsir menn. Svo eru smámál eins og fjársvik og annar drullusokksháttur sem þeir hafa afrekað í bland við annað.

Þær ákvarðanir fangelsisyfirvalda að koma geðsjúkum kynferðisglæpamönnum fyrir eftirlitslausum í venjulegu íbúðarhverfi undir því yfirskyni að þeir séu í aðlögun að normal lífi er verulega ámælisverð. Í þessum málum eins og svo mörgum öðrum er einungis unnið með það að markmiði að gera líf glæpamannanna sem bærilegast en hvað með almenning sem treystir því að viðkomandi yfirvöld hugsi um velferð almenning. Hvernig í ósköpunum má það vera að kynferðisglæpamaður sem hefur fjölda afbrota gegn krökkum á syndaregistrinu skuli vera kominn út á meðal almennings aftur þegar um helmingur þess tíma er liðinn sem dómurinn hljóðaði upp á? Ef menn eru dæmdir í fimm ára fangelsi fyrir alvarlega glæpi er þá rökrétt að þeir sitji inni í helming þess tíma og helmingur tímans sé notaður til að aðlaga viðkomandi að samfélaginu á nýjan leik. Ég sé enga lógikk í þessu.

Sálfræðingarnir segja vitaskuld að þeir hafi skilað manninum heilbrigðum frá sér. Þeir verja stöðu sína með að fullyrða að þeir hafi unnið vinnuna sína með frábærum árangri. Þannig halda þeir vinnunni. Þetta sama fullyrðir sænski yfirlæknirinn sem útskrifaði geðsjúkan glæpamann í nóvember og sagði að hann væri heill heilsu. Í gær stakk sá útskrifaði átta ára gamlan strák til bana í Jönköping. Grunur leikur á að hann hafi myrt tvær manneskjur árið 2004. Maður þarf ekki að lesa erlend blöð lengi til að sjá álíka dæmi um að geðsjúkum glæpamönnum er hleypt út í samfélagið með hörmulegum afleiðingum með heilbrigðisvottorð upp á vasann frá sérfræðingum. Auðvitað á maður ekki að vera með neina histeríu en ég væri ekki rólegur yfir því að hafa aðsetur Verndar í næsta húsi við mig þegar maður sér að það er staðið svona að málum af hálfu yfirvalda. Líklega hefði ég aldrei keypt hús við hliðina á þessari starfsemi og myndi örugglega aldrei gera það eftir það sem maður hefur orðið áskynja á síðustu vikum.

Ég sá um daginn að af þeim sem hefðu leitað til Stígamóta væru um 90% konur og 10% karlmenn. Hvað skyldu margir af þeim milli 10 og 20 einstaklingum sem hafa að sögn verið misnotaðir af Kompássmanninum hafa leitað til Stígamóta eða burðast þeir með álíka byrði eins og maðurinn sem kom fram í sjónvarpinu. Mér finnst síðari skýringin líklegri.

Þeir sem hafa lausan klukkutíma geta „skemmt“ sér við að horfa á upptöku af leið hlaupara í gegnum Badwater á meðfygljandi link.

http://video.google.com.au/videoplay?docid=-7304383691331907901&q=ultramarathon

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Sæll, þú mátt ekki gleyma hlut Framsóknar í þessu máli og þá sérstaklega hlut Birkis Jónssonar.
kv Jón Kr. Haraldsson