Það var fínt veður í morgun þegar ég gáði út um gluggann á marsmaraþonveðrið. Logn, hiti um 0 C og þokkalegt færi. Er hægt að fara fram á betra um miðjan mars? Í Elliðaárdalnum var fjöldi manns, Jói hafði haft frumkvæði um að reisa tjald fyrir starfsmenn, hrakta hlaupara og aðra sem leituðu húsaskjóls. Fjöldi manns var skráður í hálft maraþon og rúmir tuttugu í heilt. Líklega mesti fjöldi í marsþoni ever.
Eiður mætti til leiks vel volgur eftir að hafa hlaupið 8 km í upphitun. Ætlaði að klára 50 k á deginum. Sama var að segja um Halldór en hann ætlaði að hlaupa heim vestur í bæ að afloknu hlaupi. Eiður stefnir á 100 km í Hollandi í apríllok og hefur æft vel í vetur. Hann rúllar þessu upp með skynsemi og góðum æfingum.
Það voru engin plön um að leggja að sér heldur átti að taka daginn sem langa æfingu. Við Halldór héldum sjó saman lengst af, fórum rólega og spjölluðum saman. Svanur náði okkur við fyrsta snúninginn á Ægissíðunni, leist ekki á hraðann og skildi okkur eftir. Okkur tókst ekki að negla hann niður en sáum hilla undir hann af og til það sem eftir leið hlaups, léttan á fæti. Hlaupið leið fljótt, áreynslulaust og var tóm ánægja. Hittum Börk við flugvallarendann á seinni vesturleiðinni en hann hafði leitt hlaupið lengst af. Hann sagði sínar farir ekki sléttar því eitthvað hafði hlaupið í bakið á honum og endaði með að hann sagði sig frá hlaupinu. Dimmt él gekk yfir síðasta legginn frá Nauthól, svo dimmt að varla sá út úr augum og um tíma töpuðum við slóðinni. Þar var kannski ekki hægt að kalla þetta él heldur var bylur réttara orð. Allt tókst þó að lokum og við skokkuðum í mark, óþreyttir og vel á okkur komnir. Það er góð tilfinning að ljúka maraþoni óþreyttur. Tíminn var svo sem ekkert til að hrópa húrra fyrir en hentaði vel ýmsum plönum. Heitt kakó og snitta í boði Jóa var góður endir á ágætum hlaupadegi.
Heyrði um þinglok í dag í útvarpinu. Eftir samninga tókst að ljúka sumum málum en öðrum var frestað. Þetta eru óneitanlega dálítið skrítin vinnubrögð stjórnarinnar að enda uppi með fleiri tugi ókláraðra þingmála síðustu dagana fyrir þinglok og vera upp á stjórnarandstöðuna komin með að ljúka málum. Einhversstaðar væru svona vinnubrögð ekki álitin til fyrirmyndar en þetta er árviss atburður.
laugardagur, mars 17, 2007
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
Til hamingju með Maraþonið Gunnlaugur - Maraþon er alltaf Maraþon:-)
Skrifa ummæli