fimmtudagur, september 27, 2007

Dagurinn í dag var tekinn rólega. Maður þyrfti að skila því inn sem maður sendir út á brautina fyrir kl. 16.00. Ég ætla að skipta um föt eftir rúmlega 100 km. Þá verður komið myrkur og leiðin farin að hækka. Það dimmir mjög fljótt eftir að sólin er gengin undir og orðið aldimmt kl. 20.00. Á fjallinu sem maður er vonandi að kljást við einhvern tíman næstu nótt getur verið nokkuð kalt þannig að ég fer í síðar og hef blússu með. Á fjallstoppnum skipti ég um skó og fer í aðra stærri. Svo sendi ég boli, sokka, steinefni, ljós og sólarvörn út á aðrar stöðvar.

Að maður þurfi á þessu að halda er náttúrulega háð því að maður nái að halda áfram. Ég lít svo á að það verði jafnvel erfiðara að komast í gegnum fyrri daginn. Tímamörkin eru stífari þá og maður er óvanari hitanum. Nóttin á að passa þokkalega og tímamörkin eru orðin rýmri á laugardaginn þannig að ef maður kemst inn í hann þá á maður að skrönglast nokkuð áfram. Það verður heitt, sérstaklega á laugardaginn, jafnvel miðað við grískar viðmiðanir. Gert er ráð fyrir að hitinn vereði á bilinu 29 - 32 oC. Strax eftir helgina lækkar hitinn um einar 5 oC en svona er þetta. Veðrið er alltaf dálítið happdrætti og það er hluti af þessu. Stundum hefur rignt og það er kannski ekkert betra.

Ég hitti Eiolf, Ann, Kjell Ove og konuna hans í gærkvöldi í matnum í gærkvöldi. Þeir voru kátir enda eru þeir að hittast "að sama tíma að ári" enn einn ganginn. Kjell Ove hefur tekið þátt í Spartathlon hlaupinu á hverju ári frá árinu 1993 utan einu sinni. Hann er einn af frumherjum ultrahlaupanna í Svíþjóð og vel þekktur í þessum kredsum. Hann sagðist kíkja stundum á vefinn minn en það væri dálítið erfitt að lesa hann! Eiolf sagði m.a. að það væri mjög fínt hvað ég talaði góða norsku. Þegar við höfðum talað saman um stund sagði Kjell Ove: "Þetta er ekki rétt Eiolf, hann talar ekki norsku heldur sænsku og meir að segja með Uppsala hreim"!!! Þetta fannst mér dálitið fyndið. Eiolf segir að hitinn hái sér ekki enda vinnur hann í málmbræðslu.

Scott Jurek kom í gær. Líklega reynir hann að bæta tímann frá því í fyrra sem var tæpar 23 klst. Hann á reyndar nokkuð í langt með að slá út tíma Grikkjans Kuorosis frá 1990 sem var svo ótrúlegur sem 20.29 klst. Scott er mesti ultrahlaupari okkar tíma. Að sjá hann í svona samhengi er eins og að vera á fundi í heimssamtökum leynilögreglumanna og James Bond myndi mæta í smóking og á bílnum.

Maturinn í kvöld var hálf aumingjalegur. Pastarusl, brauð og súpa. Þarf að fara út og kaupa mér kjöt að borða. Maður fer ekki að sofa svangur undir svona átök.

Það verður ræst kl. 4.00 í nótt og þá borðaður morgunmatur. Um kl. 6.00 verður lagt af stað niður í miðborg Aþenu og hlaupið ræst við Akrópolis kl. 7.00 að staðartíma. Hlaupalok eru svo kl. 19.00 á laugardaginn við styttu Leonidasar í Spörtu. Þeir sem hafa farið þetta hlaup segja að það taki öllu öðru fram að ná fram til styttu Leonidasar innan tilskilins tima.

Það eru ekki notaðir örgjörvar í hlaupinu. Millitímum er því ekki varpað út á netið. Ástæða þess er einföld. Það er ekki tölvusamband allstaðar á leiðinni þannig að þetta er ekki hægt. Það sem okkur þykir sjálfsagt heima er ekki sjálfsagt annarsstaðar, jafnvel þótt innan EU sé.

Hvernig sem allt veltist þá tekur maður þá reynslu sem hlaupið skilur eftir sig á jákvæðan hátt. Maður finnur hvar veikleikarnir liggja og reynir að átta sig á hvernig hægt er að draga úr áhrifum þeirra í framtíðinni.

11 ummæli:

Björn Friðgeir sagði...

Gangi þér sem allrabest!

Nafnlaus sagði...

Góða ferð eller trevlig resa...

Láttu vita um leið og þú ert kominn í mark!

kv. Sveinn

Nafnlaus sagði...

Takk kærlega.

Læt vita þegar ég verð kominn til Spörtu Sveinn minn, hvernig sem það verður!!!

Nafnlaus sagði...

Sæll Gunnlaugur. Þetta verður engu líkt. Ég veit þú munt klára dæmið. Fylgist spenntur með á netinu.
Baráttukveðjur
Höskuldur

Nafnlaus sagði...

Úffff .. svona er þetta. Maður les ekki bloggin í nokkra daga og allt í einu er kominn stórviðburður sem maður er næstum því búinn að missa af. Ég vona samt að þessi kveðja nái þér áður en þú leggur í hann. Sumsé : Gangi þér nú allt í haginn. Ég hnaut um eitt lítið 'ef' í textanum hjá þér sem mér líkaði ekki við. Þú ert enginn ef-maður, Gunnlaugur. Þú munt klára þetta með stæl eins og annað sem þú tekur þér fyrir hendur.
Okkur barst þessi kveðja frá Kim Rasmussen (Borgundarhólmi) :
Håber jeres Gunnlaugur klarer Spartathlon i morgen. Det er et løb i skal overveje verdens bedste ultra.
Bestu kveðjur frá okkur Ásgeiri !
Bibba

Nafnlaus sagði...

Barátu kveðjur frá öllum máttarvöldum veraldar Gunnlaugur minn, þetta verður magnað, þú neglir þetta eins og allt annað sem þú tekur þér fyrir hendur:-)

Nafnlaus sagði...

Maður finnur spenninginn hingað heim. Það verður fylgst með þér þegar þú tekst á við þetta fræga hlaup. Gangi þér vel!

Nafnlaus sagði...

Virkilega gaman að heyra af þér í Grikklandi.
Gangi þér allt í haginn í þessari miklu þrekraun og skilaðu góðri kveðju til Leonidasar þegar þú skokkar til hans á laugardaginn. Er ekki í nokkrum vafa að þú munir klára þetta með prýði og sóma enda ekki þekktur fyrir annað!
Bestu kveðjur
Þorkell Logi

Nafnlaus sagði...

Gangi þér vel Gunnlaugur. Við fylgjumst með þér og hugsum til þín. Bestu kveðjur, Elín Reed

Nafnlaus sagði...

Gangi þér allt í haginn gamla frænka fylgist með bíð spennt eftir fréttum kveðja frá Geirlandi

Nafnlaus sagði...

Við Úlfar sendum þér hugheilar óskir um gott gengi, við erum viss um að þú rúllar þessu upp.

Bestu kveðjur

Bryndís Magnúsdóttir