Þegar maður var í Angmassaliq í sumar sá maður oft heldur sorglega sjón þegar drukkið fólk sat við búðina fyrir ofan höfnina og drakk bjór. Þrátt fyrir að þetta fólk hafi orðið undir í samfélaginu þá er lágmarkskrafa að maður sýni því smá virðingu meðan það lætur mann í friði. Óhamingja þess er vafalaust nóg fyrir. Til að mynda datt mér aldrei í hug að taka myndir af því. Maður lét sér nægja að taka myndir af krökkunum og ef maður tók mynd af fullorðnu fólki þá bað maður um leyfi.
Í kvöld heyrði ég í Íslandi í dag á Stöð 2 að það var minnst á Tassiilaq (Angmassaliq) og að kvikmyndatökumaður sem var þar á ferð hefði ætlað að taka myndir af hundasleðahvolpum (eins og þulurnar sögðu) en hann sá svo eitthvað annað sögðu þulurnar og flissuðu alveg eins og ég veit ekki hvað. Svo kom mynd frá Tassiilaq og hvað var þetta merkilega myndefni? Jú, það var drukkinn karl að berja drukkna konu, hrinda henni og sparka í hana. Hún hrinti á móti og sparkaði en hann hafði hana undir og barði þá hausnum á henni við götuna. Konan emjaði og veinaði af sársauka. Allan tímann tók myndasmiðurinn myndir í stað þess að skakka leikinn. Loks kom maður að á fjórhjóli og skildi þau sundur. Mér fannst þetta vera til skammar fyrir viðkomandi, bæði þann sem tók myndina og Stöð 2 að setja þetta í fréttaaukaþátt. Ég sé ekki hvaða erindi það á í sjónvarpið hér að vera að velta sér upp úr óhamingju þessa aumingja fólks. Ef væri verið að fjalla um félagsleg vandamál í Grænlandi eða á þessum stað væri það annað mál ef þetta væri sett í eðlilegt samhengi en að kynna svonalagað flissandi sem fréttainnslag eins og um skemmtiefni væri að ræða var ekki fyrir minn smekk.
Fór á Veðramót í kvöld. Þetta var fín mynd og vel gerð. Mér finnst Guðnýju hafa tekist vel að fjalla um viðkvæmt og vandmeðfarið efni. Ég man vel eftir því þegar nýja kynslóðin tók við í Breiðuvík. Sem betur fer gerðust ekki svona voðaatburðir hjá þeim eins og koma fyrir í myndinni en vafalaust byggir Guðný söguþráðinn að töluverðu leyti á því sem hún upplifði fyrir vestan.
föstudagur, september 14, 2007
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
Já vá Gunnlaugur hvað ég er sammála þér með þessi fréttabirtingu á Stöð 2, mér er skapi næst að horfa ekki aftur á þessa stöð, þar sem ég hef sjaldan séð birta jafn ósmekklega frétt og þetta!
Skrifa ummæli