Svaf ágætlega í nótt þrátt fyrir tímamuninn. Eyrnatapparnir dugðu vel til að deyfa umferðargnýinn frá götunni. Ég er enn einn í herberginu en það geta fleiri bæst við því það er stappað í herbergin eftir þörfum. Uppihaldið er ódýrt, maður borgar 250 EU í þátttökugjald og fær gistingu, mat og alla þjónustu í hlaupinu fyrir þetta. Sponsörar sjá vafalaust um restina. Fór til Aþenu í morgun. Það er svona hálftímakeyrsla með strætó. Það var gaman að spássera um á rómverskum rústum á Akrópólishæð og skoða aðrar menjar eftir rómverjana í nágrenninu. Það verður síðan farið í skoðunarferð um Aþenu á mánudaginn þegar menn eru farnir að jafna sig. Fór og náði í gögnin á Hotel London þegar ég kom til baka. Þar var múgur og margmenni. Rúmlega 300 manns taka þátt í hlaupinu að þessu sinni sem er langmesti fjöldi sem noktu sinni hefur skráð sig til leiks. Tölfræðin segir að um þriðjungur þeirra sem leggja af stað nái á leiðarenda undir tilskyldum tímamörkum.
Eiolf Eivindsson, félagi frá Western States, hringdi í mig í dag. Hann kom til Grikklands fyrir nokkrum dögum síðan. Þetta verður fimmta hlaupið hans. Einu sinni náði hann ekki að ljúka. Hitti hann í kvöld.
Hér eru ýmsir alvörumenn mættir til leiks. Pólverji nokkur er mættur á staðinn eftir að hafa búið sig undir hlaupið með því að hlaupa að heiman frá sér til Grikklands með dótið sitt í dráttarkerru. Þetta eru um 3000 km. Ekki veit ég hvað hann var lengi á leiðinni. Annan hitti ég sem er hægt að segja að sé fullorðinn á þessum vettfangi. Hann er breskur, heitir Neil og er nýfluttur til Reykjavíkur. Neil er lögfræðingur sem vinnur hjá Landsbankanum. Hann hljóp Badwater í fyrra en Badwater er það hræðilegasta af öllum ultrahlaupum (fyrir utan Marathon de Sable kannske). Hann kláraði hlaupið á 36 klst eftir að hafa verið að drepast í maganum lengi hlaups. Hitinn var mikill eða á milli 50 og 55 oC. Þó var lofthitinn ekki það versta heldur hitinn á asfaltinu. Egg spælist ef því er hellt á götuna. Því bráðna skórnir ef ekki er hlaupið á hvítu línunni. Þessi náungi hefur m.a. lokið þremur triathlon keppnum. Triathlon er þrefaldur Ironman. Þá eru syntir 11,2 km, hjólaðir 540 km og hlaupnir 126 km. Allt í einum strekk. Þetta kláraði hann á 41 klst. Hann hefur á prjónunum að fara til Mexíco í haust og taka þátt í tíu daga Ironmankeppni. Einn Ironman á dag í tíu daga samfleytt. Manni sundlar við að heyra þetta. Það er magnað hvað hægt er að þjálfa skrokkinn upp í. Fyrir því eru varla nokkur takmörk. Peter var ánægður með að hitta mann frá Reykjavík því hann er að leita að félögum sem hlaupa stundum langt. Sagði honum frá langhundum sem hittast við Fossvogsbotninn á laugardagsmorgnum yfir veturinn. Honum leist vel á það. Hann er frísklegur og viðkunnanlegur náungi.
Japanir eru langfjölmennastir hér eða um 70 - 80 alls. Síðan eru þáttakendur frá því sem næst öllum Evrópulöndum og örfáir frá Bandaríkjunum. Einn er orðinn 69 ára þannig að það er allt til. Kjell Ove Skoglund, 66 ára gamall sænskur frumherji í ultrahlaupum, er skráður til leiks. Einungis rúmar 30 konur taka þátt í hlaupinu að þessu sinni eða rúm 10% þátttakenda.
Morgundagurinn fer í að gera klárt, undirbúa það sem sent verður út og næsta kvöld verða sýndar kvikmyndir frá fyrri hlaupum.
Spennan vex.
miðvikudagur, september 26, 2007
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
Greinilega spennandi hlaup framundan hjá þér Gunnlaugur og nóg af keppinautum til að elta. Gaman að sjá hversu margir eru að mæta og greinilegt að þetta er orðið eitt af stóru ultra-hlaupunum. Gangi þér annars vel. Kv. Steinn
Skrifa ummæli