þriðjudagur, september 22, 2009

Ég flaug út á föstudagseftirmiðdag og tók lestina út til Oakwood þar sem Neil og Clare búa. Það er í útjaðri Lundúna svona í NA átt frá miðborginni í hverfinu Enfield. Þau keyptu sér þar nýtt fallegt hús á sl. vetri og er það vafalaust mikill munur frá þriggja herbergja blokkaríbúðinni þar sem þau bjuggu áður. Þau tóku mér eins og týnda syninum og var virkilega gaman að hitta þau. Ég hafði ekki hitt Clare fyrr. Hún er góður maraþonhlaupari og á tíma niður á 3.05. Hún er einnig farin að færa sig yfir í ultrahlaup og lauk m.a. Comerades hlaupinu nú í vor á 9.40. Við Neil fórum aðeins í bæinn á laugardaginn en annars tókum við því rólega, horfðum á bíó í bíóherberginu!! og gerðum okkur svo klára fyrir sunnudaginn. Það var farið snemma upp á aðfaranótt sunnudagsins eða rúmlega þrjú. Við þurftum að vera mættir á startsvæðið upp úr kl 5:00 en um klukkutímaakstur er þvert yfir borgina. London Brighton hlaupið er ræst á sama stað og Londonmaraþonið. Alls voru skráðir 224 keppendur til leiks og voru það nokkru fleira en í fyrra. Ég vissi svo sem ekki alveg hvernig hlaupið væri lagt upp. Kortabók hafði verið send út til þátttakenda um mánuði fyrir hlaup. Neil sagði mér að brautin væri alveg ómerkt og maður þyrfti að rata eftir bókinni. Ekki væri öruggt að fylgja næsta manni á undan því ekki væri öruggt að hann væri með leiðina meir á hreinu en maður sjálfur ef maður væri ekki öruggur. Veðrið var fínt, um 18°C, logn og skýjað. Við fengum miða með símanúmeri neyðarlínunnar við afhendingu gagna ef keppendur skyldu villast. Það kom í ljós að það var ekki að ástæðulausu. Áskilið var að keppendur hefðu á sér síma til að geta látið vita af sér ef í nauðirnar ræki. Hlaupið var ræst á mínútunni 6:00 og strollan lagði af stað. Hámarkstími til að ná til Brighton voru 13 klst. Mér varð brátt ljóst að rötunin skipti ekki síðra málið en hlaupahraði þegar út á landið væri komið. Ég hafði aldrei hlaupið svona orienterings hlaup eða rathlaup áður og var því harla óvanur þvi að fara svona langa leið því sem næst skref fyrir skref eftir korti. Hlaupið var létt í upphafi og ég var með fyrsta stóra hópnum. Neil og nokkrir aðrir tóku forystuna en Neil sagðist ætla að pressa sig í hratt hlaup. Ég vissi að ég væri ekki í mínu besta formi og því væru engin afrek framundan. Markmiðið væri fyrst og fremst að hlaupa til Brighton, hafa gaman af deginum og gera það sem maður gæti. Drykkjarstöðvar voru alls fimm á leiðinni með um 15 km. millibili. Ekki var möguleiki á að senda neinar vistir út svo maður þurfti að hafa allt með sér í bakpoka. Gel, duft, næringu, jakka, krem, plástra og annað sem getur verið nauðsynlegt að hafa á langri leið. Maður þurfti ekki að hafa áhyggjur af rötuninni til að byrja með eða svo hélt maður. Maður reyndi fyrst og fremst að fylgjast með hvar maður væri staddur svo alltaf væri hægt að átta sig á við hvaða gatnamót maður var staddur í það og það skiptir. Engar merkingar voru á allri leiðinni nema í tveimur eða þremur tilvikum þar sem farið var yfir golfvöll og stór engi. Eftir um 14 km villtist hópurinn sem ég var í samfloti með. Allt í einu áttuðum við okkur á að það kom enginn á eftir og göturnar stemdu ekki við kortið. Þá byrjar diskussion. Hvert á að fara? Margar skoðanir á lofti. Hver var sú rétta? Eftir tvær tilraunir þá hittum við á réttu leiðina og komust inn á götuna aftur. Þarna varð drjúg töf. Við fyrstu drykkjarstöðina fékk maður nákvæma staðsetningu aftur og ég sá að það þýddi ekkert annað en að reyna að treysta á sjálfan sig, a.m.k. með að hafa alveg á hreinu hvar maður væri staddur í það og það skiptið. Nú breyttist landslagið og maður var kominn út úr borginni og út í sveit. Þá var hlaupið yfir akra og engi, gegnum skógarstíga og inn og út úr limgerðum. Leiðin lá að miklu leyti eftir svokölluðum "Public Footpath" eða almenningsstígum sem eru til að fólk geti farið yfir opið land án þess að troðast yfir girðingar eða á annan hátt verið með átroðning. Ég veit ekki hvað maður klifraði yfir marga tugi girðinga á leiðinni eða fór í gegnum mörg húsdýraheld hlið. Nú fór landið að verða mjög mishæðótt. Leiðin lá upp og niður hæðir, eftir bithögum, gegnum hlaðið á bóndabæjum, eftir skógargöngum, gegnum skógarþykkni eftir skógarstígum, gegnum þorp, yfir tún og akra, yfir golfvelli og stór engi. Sumsstaðar var leiðin nokkuð skýr en annarrstaðar þurftu keppendur næstum að treysta á þriðja skilningavitið. Í þorpunum gat maður treyst á hjálpsama íbúa. Kortið sýndi beygju einhversstaðar í þorpinu. "Farðu að póstkassanum þarna niðurfrá og beygðu þar í gegnum göngin" var sagt þegar maður var að vandræðast með hvert skyldi haldið. Í skóginum kom maður að krossgötum. Beygjan á kortinu var til vinstri en var maður á réttum stað. Það var alls ekki öruggt. Við aðra drykkjarstöðina tapaðist kúrsinn aftur. Það þyrfti að klifra yfir nokkrar girðingar til að ná leiðinni aftur. Maður hélt svona 10 km hraða á klst framan af og það var allt í lagi miðað við uppleggið. Skömmu áður en kom að þriðju drykkjarstöðinni lenti ég í verstu villunni. Við vorum fjögur saman sem á einhvern óskiljanlegan hátt tókum vitlausa beygju á einhverjum stað og vissum svo ekkert hvar við vorum. Loks hittum við einhvern á götunni sem gat bent okkur á rétta leið og komum á drykkjarstöðina innan skamms. Það var svolítið pirrandi að maður rakst trekk í trekk á hlaupara á drykkjarstöðvunum sem voru miklu hægari en fóru hins vegar réttari leið. Nú fór maður bæði að vera vanari við að nota kortið og lesa leið og kort saman. Einnig fór ég að gæta mín betur og beið frekar á óvissupunktum eftir næstu mönnum heldur en að taka áhættuna á að velja vitlausa leið. Það var gott að bera sig saman því margir voru ekkert öruggari en maður sjálfur. Tíminn leið og leiðin einnig. Ég fór að sjá fram á að komast til Brighton eftir ca 11 klst hlaup og þótti það svo sem allt í lagi miðað við allt og allt. Aðalatriðið var að ná undir tilskyldum mörkum því reynslan hafði sýnt manni fram á að það var kannski ekki alveg sjálfgefið. Ég hljóp nokkurn tíma með strák frá Essex. Hann var að hefja sinn ultraferil en hafði sett sér metnaðarfull markmið. Hann tókst allur á loft þegar ég sagði honum frá hvaða hlaupum ég hafði tekið þátt í. Hann sagðist vera búinn að skrifa bæði Western States og Spartathlon á lista yfir framtíðarmarkmið sín. Vonandi tekst honum að upplifa það að ljúka þessum miklu hlaupum. Á síðustu drykkjarstöðinni fyllti ég á alla tanka en maður var farinn að drekka ansi mikið. Ég hafði ekki hitaæft neitt fyrir hlaupið. Leiðin hafði reynst miklu erfiðari en ég hafði reiknað með þar sem landið þarna er mjög mishæðótt og það tekur í að vera sífellt að hlaupa upp og niður, upp og niður. Þegar um 10 km eru eftir þarf að paufast yfir töluverða hæð sem er nokkur hundruð metra há. Síðan liggur leiðin að miklu leyti niður á við. Nú fór að hilla í sjóinn og hæstu húsin í Brighton. Þetta var farið að styttast. Tíminn hafði teygst og það voru liðnir rúmir ellefu og hálfur tími þegar ég náði í gegnum hliðið við ströndina í Brighton. Þetta hafði allt gengið upp að lokum og var á margan hátt mjög skemmtilegt. Svona hlaup er allt önnur reynsla en að hlaupa leið þar sem maður getur fylgt leiðinni í blindni. Neil var mættur þegar ég kom. Hann lauk hlaupinu á um 10 klst. Þegar yfir lauk þá hafði ég hlaupið um 8 km aukalega og í þá aukakílómetra fór allavega rúmur klukkutími ef ekki einn og hálfur því maður tekur drjúgan tíma í að spá og spökulera þegar maður hefur villst. Sigurvegarinn lauk hlaupinu á 8.30 klst. Ég var á hinn bóginn tiltölulega sáttur því Neil hafði eftir mótshöldurum að af þeim 224 sem lögðu upp um morguninn þá hefðu tæplega 100 manns helst úr lestinni vegna villu eða fallið á tíma. Það eru mikil afföll á ekki lengra hlaupi og við góðar veðurfarslegar aðstæður. Margir bretanna sem voru framarlega höfðu æft mikið á brautinni og þekktu hana að stofni til mjög vel. Þeir gátu því verið nokkuð öruggir um að sleppa við allar villur. Ég er hins vegar alveg viss um að ef ég hefði átt að fara leiðina einn með landakortið að vopni þá hefði ég aldrei komist alla leið, alla vega ekki innan tilskilinna tímamarka í hlaupinu. Til þess er rötunin allt of flókin fyrir viðvaning við að hlaupa eftir korti. Við fórum að tygja okkur af stað eftir að hafa farið í kalda sturtu sem var mjög hressandi. Viðurgjörningur í markinu var heldur lélegur, vatn og bananar. Það var ekki alveg sú kartafla sem maður þurfti á að halda eftir að hafa hlaupið legginn frá London til Brighton. Ég var svakalega þyrstur eftir hlaupið og var nokkuð lengi að ná þorstanum niður. Maður gat drukkið endalaust og var samt þyrstur. Ég hafði líklega svitnað meir en ég hélt og var orðinn dálítið þurr. Við tókum síðan lestina til London og svo út til Oakwood, dálítið þreyttir en ánægðir með daginn. Neil var hinn kátasti með að hafa tekið þetta hlaup með mér, honum fannst það einnig erfitt en við vorum sammála um að það hafði verið ansi skemmtilegt. Viðbótaráskorunin í rötuninni gerir það ólíkt öðrum ultrahlaupum sem ég hef tekið þátt í. Þar skiptir heppni dálitlu máli en einnig að halda athyglinni að fullu vakandi allan tímann.

8 ummæli:

Gunnar Már sagði...

Sæll Gunnlaugur
Til hamingju með þetta hlaup. Ég hef aðeins verið að fylgjast með afrekum þínum gegnum þessa síðu.

Eitt sem mig langar að forvitnast um varðandi rötunina í hlaupinu og hvort notkun á GPS hlaupaúrum sé leyfileg? Ef svo væri þá er einfalt að setja leiðina upp sem track í tækinu og láta það vísa sér veginn.

kv.
Gunnar Már Gunnarsson

Nafnlaus sagði...

Sæll Gunnar
Það var leyfilegt að vera með GPS úr í hlaupinu, áttavita eða GPS tæki af öðru tagi. Brautin er hins vegar þannig úir garði gerð að maður þarf helst að þræða hana eftir því sem leyfilegt er og slá trackið inn við hvert óvissuhorn til að GPS komi að einhverju gagni. Maður hafði í enga svo nákvæma hnitasetningu að sækja hér heima. Hlaupið er eftir svokölluðum "Publick footpath" sem eru formelgir stígar svo almennignur geti farið yfir tún, akra og engi án þess að vera að sýna landeigendum átroðning. Hún krusar því fram og til baka eftir þvís em hentugast er fyrir slíka gönguleið en það er langt í frá alltaf beinasta eða stysta leiðin. Iðulega var um margar leiðir að velja, maður vissi nokkurnvegin í hvaða átt maður var að fara en nákvæmlega hvaða leið var rétt að velja í hvert skipti var ekki alltaf gott að segja til um. Ef maður hefði farið að æða eitthvað út í loftið út frá grófri GPS stefnu hefði maður örugglega lent í DNF hópnum. Þegar mörg óvissuhorn eru á 90 km leið þá vill hlaupið vera tafsamt. Það er partur af dæminu. Margir bretanna voru búnir að þræða leiðina eftir því sem það var fært og vafalaust að tracka hana inn á GPS. Í fyrra var t.d. fyrsti maður rúmum einum og hálfum tíma á undan þeim sem var í öðru sæti. Þetta var skemmtileg og öðruvísi ultraáskorun.
Mbk
Gunnlaugur

Nafnlaus sagði...

Til hamingju með hlaupið og takk fyrir söguna.

Kv. Eva :)

Nafnlaus sagði...

Til hamingju með hlaupið Gunnlaugur. Þetta hefur verið hið skemmtilegasta ævintýri og viss áskorun þar sem það að rata tekur dágóðan tíma.
Kv. Steinn

Nafnlaus sagði...

Til hamingju með hlaupið Gunnlaugur. Góðar kveðjur frá Erlu og Grafarvoghópnum.

Stefán Gísla sagði...

Til hamingju með hlaupið Gunnlaugur. Þetta hefur nú verið meiri ratleikurinn. Héld ég hefði farið á taugum við þessar aðstæður. :)

Nafnlaus sagði...

Til hamingju, snillingur

Kær kveðja,

Bryndís og Úlfar

Máni Atlason sagði...

Til hamingju með hlaupið Gunnlaugur. Skemmtileg saga af því sem þú skrifar hér inn á - og raunar er alltaf skemmtilegt að lesa bloggið hjá þér.