Mér finnst svíar vera ansi ónærgætnir í garð allra þeirra venjulegu íslendinga sem búa í Svíþjóð. Þeir voru ekki seinir á sér að birta með stórum stöfum að "en islänning" hefði haft stórfé af fjölda svía. Þetta kemur ofan á margháttaða umræðu um fyrrverandi útrásarvíkinga sem hafa farið vítt um héröð og oftar en ekki skilið eftir sig sviðna jörð. Það er gaman eða hitt þó heldur fyrir hinn venjulega íslending að sitja undir þessu. Mér þykir einsýnt að hinn meðvitaði hluti íslendinga taki upp hanskann fyrir saklausa landa sína erlendis og mótmæli þessum fréttaflutningi sænskra. Það á í besta falli að segja í svona tilfelli "en utländsk statsborgare" samkvæmt umræðunni hérlendis!!
Ég sá fína grein um grikkjann Yiannis Kurosis á dögunum. Yiannis er mesti ultrahlaupari sem uppi hefur verið fyrr og síðar. Hann á að ég held þrjá bestu tíma í Spartathlon hlaupinu. Hann á mikinn fjölda heimsmeta og aldursflokkameta. Hann hefur hlaupið 1.036 km í sex daga hlaupi. Nýsett norðurlandamet er 851 km. Hann leggur mjög mikið upp úr andlega þættinum í ultrahlaupum. Andinn verður að vera sterkari efninu. Andlegur styrkur er miklu mikilvægari í slíkum keppnum en líkamlegur. Reynslan sem byggist upp með aldrinum gerir það að verkum að hæfileikinn til að þola sársaukann eykst með árunum. Hann hvílist ætíð um þrjá mánuði á hverju ári. Það sem er mjög merkilegt við Kurosis hvernig hann æfir. Hann hleypur sjaldan legnra á æfingum en 12 km. Ég trúi hins vegar að það sé ekkert dútl á ferðinni þessa 12 km. Hann hleypur gjarna 6 x 2 km eða 2 x 6 km eða 3 x 4 km. Ef það er sérstaklega heitt þá hleypur hann einungis 6 km. Hann mælir hins vegar ekki sérstaklega með þessari aðferð fyrir aðra. Í sex daga hlaupi milli Sidney og Melborna var mælt nákvæmlega á hverju hann nærðist. Fyrsta daginn var það um 15.000 kalóríur, næsta dag um 12.000 og þriðja daginn um 7.000. Þegar hann hljóp tvöfalt Spartathlon eða frá Aþenu til Spörtu og svo til baka þá var grískt sælgæti helmingurinn af þeim kalóríum sem hann nærist á.
Ég flýg til Londoon seinni partinn á morgun og hitti Neil næsta kvöld. Spáin er góð. Hlaupið hefst kl. 6:00 að breskum tíma á sunnudagsmorgun og lýkur eigi síðar en 13 klst síðar. Það er bara að maður villist ekki á leiðinni.
fimmtudagur, september 17, 2009
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
3 ummæli:
Hann er ótrúlegur hann Yiannis og tímarnir hans þrátt fyrir lítið kílómetramagn.
Það verður spennandi að sjá hvernig Brighton kemur út hjá ykkur Neil. Gangi ykkur vel.
kv.
Steinn
Gangi ykkur vel, Gunnlaugur minn, og við Úlfar biðjum að heilsa Neil.
Bryndís M.
Hér er hægt að fylgjast með þeim hlaupurum sem hafa sendi á sér, sennilega hafa Gunnlaugur og Neil ekki tekið slíkan sendi með sér.
http://www.sportstrack.net/v2/default.aspx?mode=FFF25DE2-BF13-477C-AAD2-9FC7D0EFEACD
Skrifa ummæli