Nýtt eintak af Þjóðmálum kom inn um lúguna á dögunum. Það er fullt af áhugaverðu efni eins og fyrr. Í tímaritinu er langt viðtal við Guðna Ágústsson, fyrrverandi formann framsóknarflokksins. Það er áhugavert að lesa lýsingar hans á stöðunni innan flokksins síðustu árin eins og hann upplifði hana. Fátt af því sem hann segir kemur mér á óvart.
Í tímaritinu er einnig löng grein um Svartbók kommúnismans sem er nýkomin út í íslenskri þýðingu. Þessi bók kom upphaflega út í Frakklandi fyrir einum 12 árum en er fyrst nú þýdd á íslnsku. Ég fór á fund í HÍ fyrir nokkru þar sem svíi nokkur, Göran Lindblad, fjallaði um bókina ásamt fleiru. Hann fékk því framgengt á Evrópuþinginu að skipulega yrði unnið að því að kortleggja og greina athafnir kommúnismans í heiminum á síðustu áratugum. Það er nefnilega nokkuð merkilegt að ef maður segist vera nasisti þá er það allt að því sakhæft en ofan í kaupið væri maður vart gjaldgengur í samfélaginu. Sá sem er yfirlýstur kommúnisti er aftur á móti bara vel metinn. Engu að síður hafa tugir miljóna manna verið drepnir beint og óbeint undir merkjum kommúnismans.Þeir sem voru á móti kerfinu, þeir sem kerfið óttaðist eða þeir sem skiptu ekki máli fyrir kerfið máttu missa sín. Deilan stendur um hvort það hafi verið ca 85 milljónir sem voru drepnir eða hvort það var allt að 100 milljónir. Þeir sem vilja veg kommúnismans sem bestan geta ekki farið lengra niður en í ca. 85 milljónir. Í Kambódíu voru um 1.5 milljónir manna drepnar en þar bjuggu um samtals 7 milljónir. Tugir milljóna voru drepnar beint og óbeint í Kína og Sovétríkjunum. Þannig mætti áfram telja. Nú er ekki hægt að víkjast undan því að á tímabili stóð ég í þeirri meiningu að þessi stjórnmálastefna hefði leitt meira gott en slæmt af sér. Eftir því sem maður varð betur upplýstur þá urðu efasemdir um það meiri. Þegar ég hafði búið í Rússlandi í tæpt ár þá þurfti ekki lengur að segja mér neitt í þessum efnum. Með því að kynna sér málin markvissar t.d. með lestri bóka og ferðalögum til fyrrum kommúnistiskra landa þá opnuðust augu manns fyrir þeim skelfingum sem kommúnisminn hafði leitt yfir þær þjóðir sem þurftu að búa við kommúnistiskt stjórnarfar. Fyrir nokkrum áratugum var hægt að segja fólki ýmislegt í skjóli fáfræðinnar en það á ekki að vera hægt lengur. Það er með þetta eins og reykingarnar. Menn vita allt sem nauðsynlegt er til að geta tekið rökrétta afstöðu til málsins.
Það er fín umræða sem hefur verið tekin upp um reykingar að undanförnu. Það er náttúrulega svakalegt að það deyji mun fleiri árlega af völdum reykinga en af slysförum. Það er fimbulfambað um svínaflensu og fuglaflensu en það hefur varla verið minnst á meginskaðvaldana, reykingar og sykurát. Ég held að það fari nálægt því að hver íslendingur, ungur sem gamall, hesthúsi að jafnaði um 50 kg af sykri á ári. Það er kíló á viku eða 150 grömm á dag. Það er ágætur haugur.
Hvað reykingarnar varðar þá eru hlutirnir tiltölulega einfaldir. Það er mjög erfitt að banna tóbak en það á ósköp einfaldlega að taka tóbak út úr neysluvísitölunni og verðleggja síðan tóbakið á það sem reykingar kosta samfélagið. Þeir sem vilja taka áhættuna af þvi að reykja eiga ósköp einfaldlega að borga kostnaðinn af því sjálfir. Ég reykti dálítið hér á árum áður. Auðvitað var það bara bjánaskapur en maður stóð í þeirri meiningu um tíma að reykingar ykju við lífsgæðin. Það er náttúrulega það eitt það mesta villuljós sem maður hefur farið eftir og sem betur fer áttaði maður sig á því meðan hægt var að snúa til baka.
Það er svakalegt að lesa í fréttum að hér hafa skipulögð þjófagengi látið greipar sópa á undanförnum vikum og mánuðum. Líklega eru íslendingar svo óvanir svona lýð að þeir hafa getað hagað sér hér eins og krakkar í sælgætisbúð. Maður verður að ætlast til þess að stjórnvöld búi svo um hnútana að hægt verði að taka á þessu liði eins og til er stofnað. Best væri ef hægt væri að vísa þeim úr landi um alla framtíð og fangelsa þá í sínu heimalandi. Fangelsin hér eru eins og lúksushótel í augum þessa liðs og síðan höfum við allt annað með okkar skattfé að gera en að vera að fóðra undirheimalið annarra landa árum saman. Aðild okkar að Schengen samkomulaginu gerir að verkum að við erum varnarlaus gagnvart hingaðkomu svona lýðs. Í því sambandi er rétt að minna á að England er ekki aðili að Schengen samkomulaginu. Þeir vildu ekki afsala sér þeirri stöðu sem þeir hafa sem eyríki því í því er mikil vörn. Við vorum náttúrulega nógu miklir heimsborgarar til að láta slík heimalningsrök sem vind um eyru þjóta. Það er við því að búast að meðvitaða liðið fari úr límingunum yfir því að það skuli hafa verið gefið upp hverrar þjóðar þetta glæpahyski er. Það verður bara að hafa það en halda menn virkilega að það yrði ekki getið um þjóðerni ef íslenskir glæpaflokkar færu að herja á borgir í okkar nágrannalöndum og upp kæmist.
Það er farið að styttast í London Brighton hlaupið. Ég gisti hjá Neil og Clarie. Neil ætlar einnig að hlaupa LB. Það gera kempur eins opg Neil ekki síst af virðingu fyrir sögunni en LB er elsta ultrahlaup í heiminum.
Við Sveinn fórum á NASA í gærkvöldi. Þar tróð Meistari Megas upp með Senuþjófunum. Aðalþemað var platan Millilending en síðan var flutt Megas Greatest Hits. Millilending var mjög skemmtilega útsett með svona country rock stemmingu. Senuþjófarnir eru hreint frábærir tónlistarmenn og kallinn bræðir þetta allt saman í eina skínandi steypu með frábærum lögum og einstökum textum. Fínt kvöld.
laugardagur, september 12, 2009
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
Góð tenging þetta með þekkingu á afleiðingum kommúnisma og reykinga! Alltaf hressandi skoðanir hjá þér og gaman að lesa.
Padre
Skrifa ummæli