þriðjudagur, janúar 05, 2010

Eins og Ólafur Stefánsson á fyllilega skilið að vera valinn íþróttamaður ársins með öllum greiddum atkvæðum þá skil ég ekki hvers vegna annað sætið er skipað eins og það er. Maðurinn var á launaskrá hjá Barcelona framan af árinu og kom inn á í örfáum leikjum. Hann var síðan seldur til Frakklands og er metinn sem annað af tveimur mestu floppum í frönsku knattspyrnunni á síðari hluta ársins. Afrek hans með landsliðinu á árinu verða ekki skráð á spjöld sögunnar. Ef þetta er nóg til að vera talinn annar besti íþróttamaður landsins þá það en ekki er markið sett hátt. Hvers eiga hinir að gjalda sem eru í fremstu röð á sínum vettvangi. Spyr sá sem ekki veit.

Hans Byrén setti sænskt met í 24 tíma hlaupi á hlaupabretti á síðasta sólarhring með því að hlaupa 181 km. Gamla metið var 180 km. Norræna metið er 193 km. Þetta er ekki óyfirstíganlegt. Ég lauk 100 km á 10 klst og 20 mín. Þá hefði ég átt 13 klst og 40 mín til að ljúka 81 km. Það eru rétt rúmir sex km á klst. Góður gönguhraði er um 4.5 - 5 km á klst. Þetta þarf að skoðast betur.

Forseti þjóðarinnar reit nafn sitt á spjöld sögunnar í dag við mismiklar vinsældir þegar hann hélt ræðu á Bessastöðum í morgun. Ég var á móti því að hann væri að skipta sér af fjölmiðlafrumvarpinu á sínum tíma og ég er enn á móti því að forsetinnsé að hrifsa til sín vald sem hann er ekki kosinn til að hafa. Hvað Icesafe samninginn sjálfann er margt hægt að segja, þetta er orðin hin ótrúlegasta saga því miður. Ég ætla ekki að fjölyrða um það en tvennt í ræðu forsetans sem hann færði sem rökstuðning fyrir afstöðu sinni fannst mér vera fyrir utan og ofan allt. Í fyrsta lagi sagði hann að meirihluti þingmanna væri fyrir því að leggja málið í þjóðaratkvæði. Svo allt sé á hreinu þá voru greidd atkvæði á Alþingi um það nú fyrir nokkrum dögum hvort ætti að leggja málið undir þjóðaratkvæði. Það var fellt. Ef einhverjir þingmenn sem greiddu atkvæði á móti tillögunni hafa síðan verið að væla utan í forsetanum um að þeir hafi greitt atkvæði á móti sannfæringu sinni eða eitthvað í þá áttina þá á náttúrulega ekki að hlusta á svoleiðis lagað. Slíkir einstaklingar ættu að snúa sér að einhverju öðru en þingmennsku. Í öðru lagi sagði forsetinn að meirihluti þjóðarinnar væri fyrir því að leggja málið fyrir þjóðaratkvæði. Undirskriftasöfnun sem telur 25% þjóðarinnar er ekki meirihluti þjóðarinnar heldur mikill minnihluti. Í öðru lagi má spyrja eiga þeir sem ákvarðanir taka ætíð og eilíflega að taka afstöðu eftir niðurstöðu skoðanakannana. Ef svo er þá höfum við ekkert með þingmenn eða forseta að gera heldur mun Gallup bara sjá um málið fyrir okkur.

Ég skráði mig í 48 tíma hlaupið á Borgundarhólmi á öðrum í nýju ári. Ég held að ég eigi eitthvað inni þar ef allt gengur upp. Betri skór og jafnara hlaup eiga að skila fleiri kílómetrum en ég náði í fyrra. Ég gerði þau mistök á síðasta ári að nota skó sem ég var ekki búinn að fullreyna á löngum hlaupum. Þeir skiluðu blöðrum og hásinarnuddi sem olli ákveðnum erfiðleikum. Síðan þá er ég mestan part búinn að hlaupa á Asics Nimbus skóm sem hafa reynst mér ákaflega vel. Ég tími varla að henda þeim enda þótt þeir séu komnir langt fram yfir 1000 km markið sem ég hef notað nokkuð skipulega.

1 ummæli:

Máni Atlason sagði...

Tek undir þetta með Eið. Ég spilaði næstum jafn mikið með Barcelona á árinu og hann!