Nú fer ég að hætta að skrifa um næstbesta íþróttamann síðasta árs að mati 19 íslendinga en sama er, eitt þarf þó að koma að lokum. Ég sá í gær spjall við hann á Stöð tvo hjá strákunum tveimur Audda og Sveppa. Þeir eru alveg eins og litlir hvolpar í kringum þennan fræga mann sem vafalaust er góður vinur þeirra og allt gott um það. Þeir spurðu hann meðal annars nokkurra hraðaspurninga. Svona lagað er vitaskuld til gamans gert en sama er. Þegar kappinn var spurður um uppáhaldsmatinn sinn þá var það Pizza. Þegar hann var spurður hvað hann drykki á djamminu þá var svarið: Allt með alkóhóli í.
Ég er hræddur um að það hefði verið haldin krísufundur í stjórn frjálsíþróttadeildar Ármanns ef við hefðum horft á okkar frábæru íþróttakonur, Ásdísi Hjálmsdóttur og Helgu Margréti, svara álíka spurningum á þennan hátt. Uppáhaldsmaturinn væri junkfood og á djamminu væri ekkert drukkið sem ekki væri alkóhól í.
Hluti af því að vera hátt skrifaður íþróttamaður og fá mikla umfjöllun í fjölmiðlum er að vera öðrum fyrirmynd, sérstaklega unglingum. Það fylgir því ábyrgð að vera fyrirmynd unglinga. Ef fyrirmynd og markmið ungra krakka sem stefna að því að komast í fremstu röð í íþróttum sé að geta gúffað í sig draslfæðu að vild og drukkið brennivín þá eru hlutirnir öðruvísi en ég hélt að þeir væru. Svo var grey drengurinn að tauta um að skrokkurinn fitnaði of fljótt og of mikið.
Ég vona bara að annar besti íþróttamaður síðasta árs að mati íþróttafréttamanna nái undirtökum á sjálfum sér aftur.
Það var haldinn uppskeruhátíð hjá frjálsíþróttadeild Ármanns í gær. Iðkendur eru nú a.m.k. helmingi fleiri en þeir voru á sama tíma í fyrra og náðust öll markmið um að fjölga krökkum sem stunda íþróttir hjá deildinni. Starfið gengur vel með áhugasömum krökkum, fínum þjálfurum, duglegum formanni, öflugu foreldrastarfi og frábæru afreksfólki sem er til fyrirmyndar í einu og öllu. Þetta er allt að stefna í rétta átt.
Það var allrar athygli vert að horfa á Silfur Egils í dag. Mér finnst frábært hvað ákvörðun forsetans hefur komið af stað mikilli umræðu erlendis um stöðu landsins gagnvart nýlenduveldunum fornu, Englendingum og Hollendingum í þessu máli. Ég hef í sjálfu sér aldrei skilið hvers vegna venjulegt fólk hérlendis á að standa skil á afleiðingum af gerðum vægt sagt misvitra bankamanna sem kunnu ekki mikið til verka. Eva Joly er orðin einn beittasti málsvari þjóðarinnar í þessu efni. Umræðan um siðblinduna í fréttaaukanum í kvöld var alveg í takt við þessa umræðu. Það verður fróðlegt að sjá hvernig umræðan þróast á næstu vikum. Það er alveg á hreinu að ef á að kreista þjóðina til hins ítrasta á næstu árum þá verður samfélagið eyðilegt. Það er ekki flóknara.
Tók 30 km á bretti í gær og rúma 30 úti í dag. Þótt það sé skemmtilegra að hlaupa úti þá má venjast hinu. Þetta er allt spurning um vilja.
sunnudagur, janúar 10, 2010
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli