Hvað sem öllu líður þá er þó hægt að segja að það hafi lifnað yfir umræðu um stöðu Íslands útaf Icesafe samningnum meðal erlendra þjóða. Allavega eitthvað. Einhver umræða er betri en engin umræða. Mér sýnist eina vörn íslendinga í stöðunni vera sú að þeir eigi ekki að greiða meir en sem nemur sannanlegum skuldbindningum, það er mjög umdeilanlegt hverjar eru sannanlegar skuldbindingar og hlutaðeigandi ríki nýti aflsmunar til að knýja íslendinga til að greiða reikninga sem mjög umdeilanlegt er hvort séu á þeirra ábyrgð. Það má vel vera að íslensk stjónvöld hafi verið pínd til þess í upplausninni mánuðina eftir hrunið til að gangast inn á samninga sem erfitt sé að standa við. en þegar það er gert í þeim tilgangi að halda kerfinu gangandi og forða vöruskorti og stöðvun utanríkisverslunar þá eru það nauðarsamningar og slíkir samningar eru marklausir. IMF er nú komið í hlutverk handrukkarans eins og kom fram í fréttum nýlega. Fulltrúi IMF sagði í fréttum að sjóðurinn hefði ekki neitt það á prjónunum sem gæti flokkast undir þvinganir við Ísland vegna Icesafe málsins en bakhjarlar okkar hafa það sterkar meiningar í þessu efni að það verður að taka tillit til þeirra. "Mér líkar ágætlega við þig en ég verð samt að lemja þig af því húsbóndi minn hefur skipað svo fyrir."
Ég sá viðtal við Tómas Veruson í sjónvarpinu í fyrradag. Þá voru liðin fimmtán ár frá því að snjóflóðin féllu á Súðavík. Tómas fannst eftir að hafa legið sólarhring í rústum hússins og bjargaðist þannig á einstakan hátt. Það voru óskapleg áföll sem riðu yfir norðanverða Vestfirði árið 1995. Snjóflóð féll á Súðavík í janúar og á Flateyri í október. Tugir manna fórust. Veðrið í Súðavíkurslysinu var óskaplegt sólarhringum saman ofan á allt annað. Við þær aðstæður unnu björgunarmenn við að leita í rústunum. Það getur enginn ímyndað sér hvernig það er nema reyna það sjálfur.
Eddi Grænlandsfari og Ironman er búinn að vera á Haiti með rústabjörgunarsveitinni síðan jarðskjálftinn mikli reið yfir landið fyrir rúmri viku síðan. Ástandið þar er vafalaust engu líkt. Ofan á allt annað virðist landið vera allt að því stjórnlaust. Allur innri struktur er ónýtur. Samfélagið verður lengi að jafna sig ef það gerir það nokkurn tíma. Þegar matar og vatnsskortur bætist við allt annað þá er ekki mikið eftir.
Ég sá nýlega grein eftir norskan mann sem hafði komið í heimsókn í einhver bankann hérlendis á meðan partíið stóð sem hæst. Honum blöskraði eðlilega fíflagangurinn í liðinu. "Láttu okkur vita hvort eitthvað verði til sölu í Noregi, við kaupum það". Það er ekki nema von að eignasafn bankanna hafi verið rýrt ef þetta var mottóið. Allt var keypt, sama við hvaða verði. Í bókinni "Ævintýraeyjan" er því lýst vel hvernig danir göbbuðu Kaupþingsmenn til að borga að því mig minnir einum milljarði danskra króna meir fyrir bankann með því að leika tvemur skjöldum og spila með þá. Það sem er athyglisverðast í þessu að það er eins og bókarhöfundur hafi ekki áttað sig á því þegar hann skrifaði bókina að hann var hafður að fífli. Norðmanninum fannst bankamenn íslenskir vera fyrst og fremst reynslulausir unglingar. Á undanförnum árum hefur verið rekinn harður áróður fyrir því að reynsluleysi væri einn eftirsóknarverðasti eiginleikinn hvort sem heldur væri í viðskiptalífi eða stjórnmálum. Snöggar ákvarðanir, ekkert hangs. Ekki thinker heldur doer. Hver er svo niðurstaðan? Hún blasir við.
Ég hef safnað saman upplýsingum frá öðrum Norðurlandanna að undanförnu um stöðu ofurhlaupa innan íþróttahreyfingarinnar. Ofurhlaupin eru allsstaðar tengd frjálsíþróttasambönunum á einn eða annan hátt. Misjafnt er hve tengslin eru mikil en þau eru allstaðar formleg. Þannig eru ofurhlaup formlegur hluti frjálsíþróttasambandanna en stjórnun og framkvæmd mála er yfirleitt í höndum ofurhlaupara sjálfra. Yfirleitt er það í góðri samvinnu við samböndin. Umræðan annarsstaðar á Norðurlöndum er því komin yfir þann hjalla að menn séu að ræða hvort ofurhlaup séu íþrótt eða ekki. Ársþing FRÍ verður haldið í næsta mánuði. Ég vona að þessi mál verði sett á dagskrá þingsins.
miðvikudagur, janúar 20, 2010
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
Lán allt að $ 500.000 og lánslínur allt að $ 100.000
Einföld umsókn, ákvarðanir í mínútum
Finnst eins hratt og einn virkur dagur ef þú ert samþykktur
Sölutrygging byggð á viðskiptasjóðstreymi, viðskipta- og einkaeign. Hafðu samband við okkur
Netfang: atlasloan83@gmail . com
whatsapp / hangout + 14433459339
Atlasloan.wordpress.com
Skrifa ummæli