Annan leikinn í röð kastaði íslenska handboltlandsliðið frá sér sigri á síðustu sekúndum leiksins. Endirinn á leiknum við Austurríki var því miður eins neyðarlegur og hægt var að hugsa sér. Hann var hins vegar ekki ástæða tapsins heldur afar léleg vörn. Að fá á sig 37 mörk frá ekki sterkara liði en Austurríki er segir allt sem segja þarf. Nú er bara að safna kröftum fyrir danaleikinn á laugardaginn.
Hluti af æfingaprógramminu og uppbyggingunni er hvíldin. Þegar á hólminn er komið verður hungrið að vera til staðar og löngunin eftir að takast á við verkefnið. Ég er ekki þjálfari en miðað við þá reynslu sem ég hef þá hefði ég aldrei farið og spilað á mótinu um helgina, einungis tveimur - þremur dögum áður en EM byrjaði. Síðustu vikuna á að nota til að byggja upp andlega þáttinn, fínisera ýmsa hluti, koma sér á mótsstað og hvíla sig. Sjö dagar skipta engu máli hvað varðar úthald og stífar æfingar en þeir geta skipt máli andlega og líkamlega upp á það að koma fullur af krafti til leiks.
Upplitið á "sérfræðingunum" í sjónvarpssal eftir leikinn var svo aumlegt að það var eiginlega fyndið. Það var eins og heimurinn hefði hrunið ofan á hausinn á þeim. Menn verða nú að halda reisn sinni.
Mér fannst viðtalið við fangelsismálastjórann um daginn út af Litla Hrauni vera hálf svakalegt. Það er bara eins og Hraunið sé hressingarhæli af betri tegundinni nema takmarkanir á útgöngu. Þarna stunda fangarnir kraftlyftingar af miklum móð með allþokkalegu aðgengi að sterum eftir því sem fréttir herma. Ég þekki dæmi þess frá Kaupmannahöfn að því mig minnir að þar hafi veriðs ett takmörk á aðgengi fanga að lyftingagræjum svo þeir gætu ekki pumpað sig upp í eitthvað berserkjaform. Það verður að hugsa um stöðu fangavarðanna í þessu sambandi. Kústskaft væri alveg nóg til að nota í lyftingar. Aðgengi að tölvum hefur verið lítt heft svo þeir geta verið á fullu á Facebook og öðrum samskiptavefjum í allra handa tilgangi. Ég geri ekki ráð fyrir að þeir þurfi að borga internetaðgengi. Maður talar svo ekki um flatskjái og önnur lífsþægindi. Þetta er náttúrulega ekki hægt eins og fangelsismálastjóri sagði. Ef menn vilja læra þá geta þeir fangarnir lesið bækur. Ef þeir kunna ekki að lesa þá hefur Litla gula hænan alltaf verið gagnleg. Fréttin frá Akureyri er ekki gleymd þegar einhver sýndi stoltur nýkeypta flatskjáina í fangelsinu. Fangelsi er fangelsi en ekki hressingarhæli. Síðan er þarna sístækkandi hópur erlendra stórglæpamanna, meir að segja lögreglumorðingja. Það hlýtur að vera forgangsatriði að ná samningum við heimalönd þessa liðs svo hægt sé að senda þá til síns heima. Ef fangelsin þar eru rottuholur þá er það bara allt í lagi. Að fanginn sjálfur geti haft neitunarvald í því efni er með ólíkindum. Við höfum annað með okkar skattfé að gera um þessar mundir en að halda erlendum glæpamönnum uppi í sus og dus. Það er nóg að eiga við þá innfæddu.
Ég verð að segja að ég skil ekki pointið í fyrnigarleiðinni svokölluðu sem á að innfæra í sjávarútveginn. Hún gengur út á að aflaheimildir fyrirtækja í sjávarverða teknar af fyrirtækjunum, 5% á ári. Það þýðir að tekjumöguleikar þeirra minnka ár frá ári sem getur ekki endað nema með gjaldþroti. Þessum aflaheimildum á síðan að koma til baka eftir ákveðnum reglum. Engin trygging er fyrir hendi að þær lendi á upprunalegum stað. Síðan eru pólitískar úthlutanir ekki akkúrat það sem er heppilegasta fyrir4komulagið. Þeir sem hafa best aðgengi að bankakerfinu hafa besta möguleika til að ná þeim heimildum sem bjóða á út í opnu ferli. Það gerir ekkert annað en að auka kostnað viðkomandi fyrirtækja. Talað hefur verið um að þessi aðferð myndi gera nýliðun auðveldari. Ég sé ekki hvernig nýliðar eigi að geta staðið grónum fyrirtækjum snúning á þessum vettvangi. Menn hafa verið að reka hnýflana í þau fyrirtæki sem eru starfandi og segja að þau hafi fengið kvótann ókeypis. Þau eru þó alla vega starfandi og veita sjómönnum og landverkafólki atvinnu. Hvað vilja menn frekar. Það eru hinir sem hafa selt sig út úr greininni sem eru þeir sem gangrýnin á að beinast að. Þeir eru hins vegar farnir og þá á að taka þá í gegn sem enn eru starfandi því það næst ekki í hina. Ég skil ekki alveg samhengi hlutanna í þessu. Ég heyrði í morgun í útvarpinu klisjuna um kvóteigandann sem býr á Spáni og leigir kvótann. Í fyrsta lagi kollvarpa menn ekki kerfinu í kringum undirstöðuatvinnuveg þjóðarinnar út frá einhevrjum hnökrum. Það má setja undir þennan leka með því að hækka veiðiskylduna á kvótanum. Ef menn nota ekki kvótann getur ríkið innkallað hann og úthlutað honum aftur eða boðið hann upp. Auðlindagjald má leggja á ef samfélagið telur að það fái of lítið í afgjald af auðlindinni. En öllu máli skiptir að það sé ekki verið að rugga bátnum og gera framtíðina óörugga. Það hefur í för með sér að fjárfestingar dragast saman vegna óöruggis um hvert skuli stefnt. Það þýðir hægfara hnignun. Það er vonandi ekki sú framtíð sem bíður sjávarútvegsins. Þjóðin þar á öðru að halda um þessar mundir.
fimmtudagur, janúar 21, 2010
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli