Það var mikið um að vera hjá krökkunum í íþróttadeildinni um helgina. Jói fór til Vestmannaeyja með Víkingum og fékk sitt fyrsta alvöru tækifæri með meistaraflokki. Þrátt fyrir að þeir töpuðu leiknum naumlega þá var hann sáttur við sinn hlut og vonast til að fá að axla meiri ábyrgð á komandi vikum. Vitaskuld fer það alveg eftir hvernig hann stendur sig og því er það undir honum sjálfum komið hvernig þetta þróast.
María keppti á meistaramóti FRÍ á aldrinum 15-22 ára. Hún er búin að vera aum í ristinni síðan í desember og nær ekki að skila því allra besta. Þetta er bara partur af þessu. Henni gekk annars vel og skilaði silfri eða bronsi í því sem hún tók þátt í. Meistamót Íslands innanhúss er svo um næstu helgi.
Enn eitt slysið varð á Langjökli í gær. Að falla í jökulsprungu er eitt það óttalegasta sem til er. Það væri fróðlegt að sjá yfirlit um öll þau slys og vandræða sem hafa orðið á jöklinum síðan að umferð fór að aukast á honum fyrir tiltölulega fáum árum. vegna lítillar snjókomu í vetur hlýtur snjóþekjan að vera óvanalega þunn á þessum árstíma. Það liggur í augum uppi að það verður að bregðast við þessu á einhvern hátt. Hvað á að gera er ekki gott að segja til um en á vissum svæðum jökulsins er hann stórhættulegur. Sökum óaðgæslu eða ókunnugleika þá fer fólk af öruggu svæðunum yfir á þau hættulegu. Þá gerast slysin. Það er allt ofmikið undir til að til þess bær yfirvöld geti horft á þetta með lokaða auganu.
Ég greip í ársrit Landsbjargar á biðstofu nýlega. Þar var meðal annars birt yfirlit einnar sveitar um þau útköll sem sveitin hafði farið í á síðasta ári. Alls var svetiin kölluð úr sjö sinnum á árinu vegna slysa og óhappa í Esjunni. Fólk er að fara upp klettana við misjafnar aðstæður og svo gerast slysin. Við steininn er ekki skilti eða viðvörun af neinu tagi um að klettarnir geti verið varasamir og sérstaklega í hálku að vetrarlagi. Það ætti ekki að kosta mikið að koma upp einu skilti miðað við hvað öll útköllin kosta.
Ég var að spjalla við einn kunningja minn um Hvannadalshnjúk nýlega. Óhöpp sem ég vissi um í ferðum á fjallið bárust í tal. Þá kom hann með sögu af nýlegri uppákomu í ferð á hnjúkinn þar sem mátti einungis muna hársbreidd að það yrði stórslys. Þegar óvant fólk er á ferð við misjafnar aðstæður er stutt í að menn missi stjórn á ástandinu. Frá þessu er ekki sagt og því er ekkert gert. Það er vonandi að það þurfi ekki stórslys til að farið verði að huga af alvöru að öryggismálum í ferðum á Hvannadalshnjúk. Meðal annars getur þurft að setja reglur þess efnis að það þurfi leyfi til að fara með hópa á hnjúkinn og fararstjórar þurfi að hafa ákveðna lágmarksreynslu og þekkingu í fjallaferðum til að fara með fólk þarna upp.
Ég fór langt bæði í gær og í dag. Þar sem mótið hjá Maríu byrjaði snemma báða morgna þá fór ég þeim mun fyrr út. Það er ekkert vandamál því þá er bara að vakna fyrr. Ég var kominn út kl. 5:30 á laugardag og kl. 6:00 í morgun. Ég er viss um að eftir að ég breytti mataræðinu og hætti að borða draslfæði, kökur, kex, sælgæti og kolvetnafæðu að mestu leyti þ.m.t. lélegt brauð, svo dæmi séu nefnd, þá er orkan meiri og ég hvílist betur á nóttunni. Eftir því sem maður sefur dýpra og hvílist betur þá kemst maður af með minni svefn.
sunnudagur, janúar 31, 2010
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli