fimmtudagur, janúar 07, 2010

Maður sveiflast upp og niður eins og tuska á snúru í Icesafe málinu. Annan daginn skilur maður hvorki upp né niður hvers vegna forsetinn neitar að skrifa undir lög Alþingis, hinn daginn sýnist manni að þetta sé mjög djúphugsuð og snjöll flétta til að koma umræðunni um Icesafe málið og viðskipti Íslands við Breta og Hollendinga í heimsfréttirnar. Það hefur allavega tekist. Forsetinn átti fínan sprett í BBC í gær. Hann svararði spyrjandanum fullum hálsi og sagði m.a. að Bretar skildu ekki virkt lýðræði. Það er náttúrulega þessu hlutur sem hefur verið gjörsamlega vanræktur af stjórnvöldum á liðnum misserum. Það hefur ekki verið haldið uppi neinni vörn af hálfu íslenskra stjórnvalda á erlendum vettvangi. "Maybe I should have" sagði Geirharður. Jóhanna hefur varla farið út fyrir landssteinana nema á þessa fáránlegu ráðstefnu í Kaupmannahöfn. Hollendingar og Bretar virtu bréf frá henni ekki viðlits og svöruðu eftir dúk og disk með dónaskap. Kannski var þetta eina leiðin úr því sem komið var að vera bara hortugur. Láta gömul nýlenduveldi standa fyrir máli sínu um hvort þær meðhöndli smáþjóð öðru vísi en stærri þjóðir. Láta ESB standa frammi fyrir rökræðum um hvort Íslendingar eigi að gjalda þess að regluverk ESB hafi verið meingallað. Í svona máli þýðir ekki að leggjast á bakið og gefast upp heldur verða stjórnvöld að berjast hús úr húsi. Slagurinn stendur um framtíð þjóðarinnar. Slagurinn stendur um hvort hægt sé að gera börnum okkar kleyft að hafa möguleika á að lifa hérlendis í framtíðinni. Kannski ætti að fara í heimsókn til Finna og fá innsýn í hernaðarstrategíu þeirra þegar þeir börðust við Rússa í seinni heimsstyrjöldinni.

Ástmögur þjóðarinnar skoraði mark í gær. Að vísu var það í æfingaleik gegn frönsku fimmtudeildarliði en sama er, mark var það. Þess var vandlega getið í öllum íþróttafréttum dagsins. Myndband með markinu var aðgengilegt á netmiðlum eins og um hefði verið að ræða mark sem hefði ráðið úrslitum í frönsku bikarkeppninni. Þetta er svona svipað og sagt hefði verið frá því með stórum stöfum og miklum fögnuði ef Ólafur Stefánsson hefði skorað 2-3 mörk í æfingaleik með liði sínu gegn fimmtudeildarliði í þýsku deildinni eða Þóra Helgadóttir hefði varið tvo-þrjá bolta í æfingaleik við lið frá Fittulla sem spilar í sænsku fimmtudeildinni. Ég held að það hefði ekki þótt fréttnæmt. Þetta segir kannski svolítið um stöðu annars besta íþróttamanns landsins og knattspyrnumanns ársins.

Ég ætla ekki að hlaupa Laugaveginn í sumar. Þess í stað ætla ég að fara vestur á firði og taka þátt í Óshlíðarhlaupinu og Vesturgötunni. Það er til skammar að hafa aldrei drifið sig vestur og tekið þátt í þessum hlaupum. Nú eru þau á norðanverðum Vestfjörðum búin að setja upp fína hlaupahelgi um miðjan júlí. Þá er náttúrulega bara að drífa sig vestur, hlaupa, sósíalera og taka myndir.

Engin ummæli: