föstudagur, janúar 01, 2010

Gamlárshlaupið í gær var fínt. Það er sérstök stemming að hitta stóran fjölda vina og kunninga á gamlársdag og ljúka hlaupaárinu á þennan hátt. Gamlárshlaupið hefur sprungið út með hvelli eins og flest önnur almenningshlaup og nú voru það rétt tæpir 900 hundruð hlauparar sem hlupu 10 km sér til ánægjuauka í blíðunni í gær. Allt fór hið besta fram. Veðrið prýðilegt og aðstæður góðar. Ég var aftarlega í startinu og gekk mestan part niður að þinghús en þá fór maður að geta keyrt sig upp. Ég hef ekki hlaupið 10 km hlaup síðan á gamlársdag í fyrra svo það er ekki að búast við miklum afrekum.

Á undanförnum árum hafa vaxandi efasemdir byggst upp hjá mér um tilverurétt áramótaskaupsins. Það virðist ekki alveg vera samhengi á milli þess að Spaugstofan setji upp 20 mín. revíu í viku hverri þar sem púlsinn er tekinn á málefnum stundarinnar, oft á listilegan hátt, og þess að setja margra mánaða vinnu og mikla fjármuni í rétt helmingi lengri revíu sem oft hefur verið bæði húmorslaus og leiðinleg. Stundum hefur maður ekki nennt að horfa á hana til enda. Nú var frá fyrstu mínútu sleginn sá strengur að það var hvergi gefið eftir. Revían var botnstaðin út í gegn og engum hlíft. Vitaskuld hlutu hin stóru mál að vera í forgrunni en ekki einhver aulalegur lókal fjölmiðlahúmor eins oft hefur tröllriðið áramótaskaupinu á liðnum árum. Mér er til efs að nokkur þjóðhöfðingi hins vestræna heims hafi fengið aðra eins útreið í uppgjöri ársins eins og forsetinn fékk í áramótaskaupinu í gærkvöldi og mér er einnig til efs að nokkur þjóð í hinum vestræna heimi hafi verið eins sammála um að hann hafi átt það skilið sem hann fékk yfir sig. Góður húmor þarf ekki mikinn tíma til að hann hitti í mark. Það sást í gærkvöldi. Ég trúi að margt hafi bitið. Senan þar sem fyrsta uppkast Icesave samningsins var rætt yfir laglegum frúkost var t.d. óborganleg. Svo var gefin skotheld uppskrift af því hvað þarf til að ná árangri í hlaupum. Ef einhver er með reiða þjóð á hælunum þá er hlaupið hratt.

Við sáum myndina "Bjarnfreðarson" milli hátíðanna. Það er óhætt að mæla með henni. Þar fer allt saman, fínt handrit, góðir leikarar og frábær leikstjórn. Útkoman getur ekki klikkað. Í þessari seríu hefur tekist að skapa svo trúverðugar persónur að manni skyldi ekki bregða ef þeir væru komnir inn á kjörskrá við sveitarstjórnarkosningar í vor, jafnvel í framboði. Myndin er þannig frábrugðin seríunum að í henni er kafað niður í ýmsa hluti í fortíðinni sem skýra vel út ástæður fyrir einu og öðru í nútiðinni. Aðfangadagskvöldið í myndinni er t.d. eftirminnilegt. Þótt manni þyki það fljótt á litið vera ýkt paródía og öfgakennd þá veit ég til þess að álíka jól voru haldin hérlendis fyrir ekki afskaplega mörgum árum þar sem allt var gert til að draga úr hátíðastemmingunni hjá börnunum og innprenta þeim að jólin væru enn ein lymskuaðferð auðvaldsins til að skjóta rótum. Maður sér svo sem af og til merki um þessa öfgahugsun enn í dag. Nú fyrir jólin kom það t.d. fram í blaðagreinum að það mætti ekki lesa jólaguðspjallið fyrir krakkana í einhverjum leikskólum. Ég er ekkert sérstaklega trúrækinn maður en ég man vel eftir þeirri stemmingu sem öll umgjörð jólanna skapaði þegar maður var að alast upp. Það er bara synd ef börn nútímans fara á mis við hana út af einhverjum öfgum.

5 ummæli:

Björn Friðgeir sagði...

Blessaður Gunnlaugur og gleðilegt ár.
Mér þykir leitt að trúfrelsi sé svo fjarlægt þínum hugsunarhætti.
Jólaguðspjallið kemur kristnum einum við og í leikskólum í dag er fjöldi barna sem kemur ekkert við þessi saga, sem er jú fyrir öðrum en kristnum bara skáldsaga. Þaðan af síður að hún sé sögð sem einhver sannleikur.
Sú stemming sem þú ólst upp við er löngu horfin, hvort sem er á kristnum heimilum né ókristnum og að troða jólaguðspjallinu inn á leikskóla til óvita er bara vanvirðing við foreldra þeirra.
Þú mátt kalla þetta öfgahugsun, ég kalla þetta mannréttindi.

Nafnlaus sagði...

Sæll Björn Friðgeir og gleðilegt ár. Takk fyrir kommentið.
Ég hef nú ekki verið kallaður neitt sérstaklega trúaður en þó virði ég ýmis mál sem koma frá þjóðkirkjunni. Ég er einnig afar mikið á móti ýmsum hlutum sem eru í hávegum hafðir hjá öðrum trúarbrögðum. Ég er á móti þeim trúarbrögðum sem vilja brjóta niður það þjóðskipulag sem við höfum alist upp við og hefur farnast ágætlega við. Ég geri þá kröfu að það fólk sem flytur til landsins virði ákveðna hluti eins og okkur er gert skylt að virða ákveðna hluti sem varðar trú annarra egar við komum tilþeirra heimalanda. Ég er á móti því að það sé dansað eftir pípu þeim minnihlutahópum sem ekki aðhyllast þá trú sem er viðtekin í landinu og meirihlutinn látinn lúffa. ef meiri hluti þeirra foreldra sem á börn á leikskólum vill að jólaguðspjallið sé lesið fyrir börnin á jólaföstunni þá á áhorfslaust að gera það hvað sem öllu öðru líður. Ég veit ekkert hvað svona löguð afstaða kallast en svona er þetta.
Mbk.
Gunnlaugur

Björn Friðgeir sagði...

Yfirgangur meirihluta á réttindum minnihluta er níðingsskapur. Svo einfalt er það
Þú þarft ekkert að blanda innflytjendagrýlum inn í þetta, ég er jafnmikill Íslendingur og þú og myndi berjast með kjafti og klóm gegn svona yfirgangsskap gagnvart mínum börnum ef ætti ég þau.
Þeir sem vilja, geta lesið jólaguðspjalllið heima, farið með börnin í kirkjur og sunnudagaskóla. Er það svo erfitt?
Þetta er jafn geðveikt og ef meirihluti foreldra heimtaði og fengi því fram að stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins væri kennd sem rétt í leikskólum. Íhugaðu það.

Nafnlaus sagði...

Sæll Björn. Alltaf áhugavert þegar menn hafa sterkar skoðanir. Hvað varðar meirihluta og minnihluta þá er í sjálfu sér engu skárra að minnihlutinn setji meirihlutanum stólinn fyrir dyrnar en ef meirihlutinn kúgar minnihutann. Ég sé ekki að enda þótt einhvert þeirra foreldra sem eiga börn á leikskólum séu á móti því að jólaguðspjallið sé lesið, svo dæmi sé tekið, að það þurfi að leiða til þess að allir hinir sem vilja að það sé lesið þurfi að láta í minni pokann. En svona má vafalaust þrúkka um þetta aftur á bak og áfram.
Mbk
Gunnlaugur

Björn Friðgeir sagði...

já, það er svo sannarlega hægt að þrefa um þetta endalaust... og hefur verið gert.
Látum staðar numið hér :)